föstudagur, 2. maí 2014

Landafræði

„Where are you from?“ Þessa spurningu fengum við oft þá þá átta daga sem við dvöldum í Istanbúl fyrir skemmstu. Það voru aðallega sölumenn og veitingamenn á götum úti sem þannig spurðu. Þetta var þeirra leið til að ná í viðskiptavini. Í slíkum tilvikum létum við spurninguna sem vind um eyru þjóta og héldum okkar leið. Þá var stundum kallað: Germany, Denmark, Sweden, British! En þegar við fengum þessa sömu spurningu á meðan við skoðuðum verslunarvarning, spjölluðum við einhvern heimamann eða eftir að hafa keypt eitthvað eða snætt á veitingastað, þá sögðum við auðvitað sem var, að við værum frá Íslandi, „from Iceland“. Viðbrögðin voru oftast þau að spyrjandinn hváði eða ranghvolfdi augunum, hafði greinilega ekki hugmynd um hvaða land við værum að tala og lét gott heita. Sumir spurðu hvar þetta land væri. Þá dugði stundum að segja að það væri partur af Skandinavíu (sem er náttúrlega ekki rétt!). „Is it behind England?“ spurðu fleiri en einn. „Ehh ... yes, yes,“ sögðum við svolítið hikandi (hvað getur maður sagt?). „How many are you?“ spurði einn sölumaður, hann virtist vita eitthvað um Ísland. Þrjúhundruðogþrjátíuþúsund, sögðum við. „That’s nothing,“ sagði hann þá.

Istanbúl er mikil verslunarborg. Engu er líkara en annar hver karlmaður sé með einhvers konar verslunarrekstur á sinni hendi en konur eru minna áberandi í verslunarstörfum. Þessi mynd er tekin á hinum þekkta Grand Bazaar sem rekur uppruna sinn aftur á 15. öld. Þar eru um 4.500 smáverslanir og mikil ös.                            - Ljósmynd Arnþór.

Það getur verið partur af kurteisislegu samtali að vilja staðsetja viðmælandann, spyrja um uppruna hans, svona svipað og þegar Íslendingur spyr: „Hverra manna ert þú?“ En þarna gat hver heimamaðurinn á fætur öðrum ekki staðsett mig út frá svarinu og það kallaði fram svolítið skrýtna tilfinningu, alla vega fyrir ekki víðförlari ferðalang en mig. Undir þessum kringumstæðum fann ég einhvern veginn fyrir smæð Íslands, smáríkis lengst norður í hafi. Skyndilega var maður eiginlega ekki hluti af neinu. Að nefna Skandinavíu var eins konar tilraun til að stækka okkur eða tengjast öðrum en eflaust hefði verið árangursríkara að segja að við værum frá Skotlandi, þar sem við búum núna, eða bara Stóra-Bretlandi. Samt vorum við stödd á slóðum Víkinganna, í sjálfum Miklagarði við Sæviðarsund! En sennilega voru íbúar Istanbúl búnir að gleyma þessum forfeðrum okkar, enda sá ég ekkert sem minnti á þá í borginni. Og varasamt er að fullyrða mikið um landafræðikunnáttu hátt í 20 milljón borgarbúa út frá nokkurra daga viðkynningu. Sjálfsagt er gloppótt landafræði bara eðlileg þegar um er að ræða litla eyþjóð eins og Ísland, örríki á jaðrinum. Hvað vitum við Íslendingar svo sem um smáríki í Kyrrahafi eða Karíbahafi, svo dæmi sé tekið. 

Ekki þurfa allir sölumenn þak yfir höfuðið. Þessi var með mest allt sitt í stresstösku úti á gangstétt og lét sig ekki vanta te, kexköku og sígó.                                                                                                          - Ljósmynd Arnþór.




Á flugvellinum í Istanbúl á leiðinni heim var vel fylgst með farangri og vegabréfum. Á einum stað þar sem starfsfólkið leit á vegabréfin okkar sagðist það aldrei hafa séð svona passa áður og átti við íslensk vegabréf. Það virtist ekki kannast við landið og þau báðu okkur um að sýna sér einhver önnur persónuskilríki. Ég rétti þeim íslenska ökuskírteinið mitt. Eftir að hafa svarað nokkrum spurningum um tilgang ferðarinnar, lengd dvalar o.s.frv. fengum við að halda áfram. Eflaust var þetta gert til að fylgjast með að „óæskilegt fólk“ væri ekki að laumast til Bretlands með flugi. Og allt var þetta á vinsamlegum nótum eins og önnur samskipti okkar við heimamenn, við mættum ekki öðru en góðu viðmóti.
Talandi um landafræði: Síðasta heila daginn okkar í Istanbúl rak ég augun í lítið landakort sem hékk innrammað uppi á vegg í fornbókabúð í Kadiköy-hverfinu, Asíumeginn við sundið. Kortið sýnir Evrópu og er Ísland á sínum stað. Kortatextinn er á tyrknesku en með arabísku letri sem var aflagt í Tyrklandi árið 1928, sagði fornbókasalinn mér, eldri maður sem kunni svolítið í ensku. Hann bætti því við að í yfirskriftinni stæði „Evrópa“, lesið frá hægri til vinstri. Og eitthvað meira stóð þar víst en hann átti í basli með að lesa letrið. Og ekki gat hann lesið nafnið á landinu efst til vinstri þegar ég benti á það, hann þekkti það ekki. Ég sagði honum nafnið á ensku og sagðist vera þaðan. „Oh, you Irish,“ sagði hann þá. „No, Icelander.“ Hann virtist undrandi og spurði hvaða tungumál væri talað á þessu landi. „Icelandic.“ Þá spurði hann hvort það væri skylt ensku. Ég útskýrði að það væri Norðurlandamál og bætti við að við værum afkomendur Víkinga sem hefðu siglt víða um lönd, m.a. alla leið til Istanbúl. Jú, fornbókasalinn hafði heyrt getið um Víkinga, þeir hefðu verið stríðsmenn, en hann vissi ekki að þeir hefðu komið til heimaborgar hans. Ég hafði svolítið gaman af þessu samtali og ákvað að kaupa kortið þótt mér þætti verðið helst til hátt. En mér tókst að ná því niður með því að skilja rammann eftir enda var hann lítið fyrir augað.

Arnþór