sunnudagur, 26. janúar 2014

Skotland og þrælahaldið

Í bókinni A History of Scotland, sem minnst var á í síðasta bloggi, segir höfundurinn, Neil Oliver, að því hafi oft verið haldið fram í skoskum sagnfræðiverkum (síður þó í nýlegum) að skoskir kaupmenn hafi ekki hagnast með beinum hætti af þrælahaldi. Skotar voru vissulega ekki jafnmikið í þrælaviðskiptum og Englendingar og margar aðrar Evrópuþjóðir en samt liggur ljóst fyrir að stórfelldur hagnaður Skota af viðskiptum með tóbak, sykur og bómull byggði á vinnu þræla á átjándu og nítjándu öld.
Eftir sameiningu skoska konungsdæmisins og hins enska árið 1707 naut Skotland góðs af efnahagslegum uppgangi í breska heimsveldinu og nýjum viðskiptatækifærum vítt og breytt um heiminn. Þessi vöxtur hvíldi að miklu leyti á bökum svartra Afríkubrúa sem hnepptir voru í ánauð og fluttir nauðugir yfir Atlantshaf til að þræla á plantekrum í Nýja heiminum. Skosk kaupskip sigldu suður til Afríku, fluttu þaðan þræla til Vestur-Indía og Norður-Ameríku, sigldu síðan hlaðin tóbaki, sykri, bómull, kryddi og öðrum hráefnum til Skotlands þar sem þau voru fullunnin til sölu á mörkuðum heima og erlendis. Á þessum viðskiptaþríhyrningi auðguðust margir skoskir viðskiptamenn gríðarlega. Glasgow var miðstöð viðskiptanna og bera götur í borginni nöfn manna sem auðguðust á viðskiptunum. Og líka nöfn eins og Tobago Street og Jamaica Street. Karabíska eyjan Jamaica var ein helsta auðsuppspretta breskra athafnamanna (þar með taldra skoskra) á átjándu og nítjándu öld. Þar má finna leifar plantekra sem bera skosk nöfn á borð við Argyle, Glasgow og Glen Islay. 
Jamaica Street í jaðri New Town hverfisins í Edinborg. Þetta glæsilega
hverfi byggðist upp á seinni hluta átjándu aldar og á fyrri hluta nítjándu
aldar. Þá var gríðarlegur vöxtur í skosku efnahagslífi. - Ljósmynd: Arnþór

Það er svo annað mál að þessi mikli auður dreifðist misjafnlega um samfélagið. Meiri hluti Skota bjó áfram við fátækt og margir þurftu að vinna baki brotnu til að framfleyta sér og sínum, til að mynda í kolanámum. Það var þeirra þrældómur.
Í síðustu viku sótti ég fyrirlestur ungs fræðimanns, dr. Michaels Morris, við Edinborgarháskóla þar sem hann fjallaði um aðild Skota að þrælahaldinu: „Scotland and the Caribbean: Recovering the Memory of Slavery across two Atlantic Archipelagos“. Morris benti á að þjóðaratkvæðagreiðslan í september næstkomandi (þá greiða Skotar atkvæði um hvort þeir vilji vera áfram í breska ríkjasambandinu eða stofna sjálfstætt ríki) gæfi tilefni til endurskoðunar og endurmats á ýmsum þáttum í sögu Skotlands, meðal annars þátttöku Skota í þrælahaldinu.
Arnþór

Heimild:
Oliver, Neil. A History of Scotland. London: Phoenix, 2009.
Sjá einnig:
Crowford, Robert. On Glasgow and Edinburgh. London: Harward University Press, 2013.
Devine, T.M. Scotland’s Empire. The Origins of Global Diaspora. London: Penguin, 2004.

Bendi líka á þessa vefsíðu: http://www.scotland.gov.uk/Publications/2007/03/23121622/4

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Sagan í bíó

Þræll í 12 ár (12 years a slave) er seigfljótandi flaumur, hún er hæg en kraftmikil, kona lítur undan þegar svipuhöggin dynja. Verður flökurt yfir mannvonsku, yfir því hvernig fólk er svipt mennsku sinni, hvernig það verður ‘eign’ (e. property) eins og plantekrueigendurnir hamra á. Þrælarnir eru eign og við þá má gera hvað sem er, eins og einn plantekruherranna segir. Kaupa, selja, hýða, nauðga, drepa – undir hvatningarhrópum eiginkonunnar. 
Myndin þykir einstaklega vel heppnuð hvað varðar sögulega nákvæmni
Þegar ég gekk út úr Filmhouse á Lothian Road hér í Edinborg í gærkvöldi og reyndi að melta þessa stórkostlegu mynd varð mér hugsað til fyrirlestursins sem breski sagnfræðingurinn Catherine Hall hélt um þrælahald á alþjóða kvennasöguþinginu í Sheffield niður í Englandi um mánaðamótin ágúst september á síðasta ári. Hall er einn fremsti sagnfræðingur Breta, prófessor við University College London. Eftir hana liggur fjöldi bóka og greina, einkum um femíníska sögu, kyngervi (e. gender) og nýlendustefnu breska heimsveldisins. Um síðasttalda efnið heyrði ég Hall tala á evrópsku ráðstefnunni um femínískar rannsóknir í Lundi í Svíþjóð síðsumars árið 2003; þar var heimsvaldastefna fyrri alda sett í samhengi við stöðu ‘heimsvelda’ nútímans, rætt um líkindi og hliðstæðar orðræður þá og nú. Þetta var og er besti fyrirlestur sem ég hef heyrt, svona tilfinning þar sem maður situr fremst á stólbrúninni og heldur í sér andanum. 
Þessari mynd hnuplaði ég af netinu. Eins og 
kunnugt er byggir myndin á sjálfsævisögu 
Solomon Northup sem var frjáls maður hnepptur 
í þrældóm í 12 ár, frá 1841–1853.
Í Sheffield talaði Hall um allt annað efni, umfangsmikið rannsóknarverkni þar sem hún og fleiri fræðimenn grafast fyrir um ýmsa þætti í þrælahaldi Breta, m.a. hvað varð um það fé sem breska ríkið greiddi þrælaeigendum þegar þrælahald var afnumið. Með þessu er opnað inn á sársaukafulla og ljóta sögu, eins og gert er í myndinni Þræll í 12 ár, sem Bretar hafa átt erfitt með að horfast í augu við. ‘Við ætlum okkur’, sagði Hall í Sheffield, ‘að skrifa þrælahaldið aftur inn í söguna, koma því aftur til Bretlands.’
Þrælasala var bönnuð í breska heimsveldinu árið 1807 en þrælahald var ekki bannað fyrr en 1833. Þegar það var gert greiddi breska ríkið skaðabætur til þrælaeigenda (þeir þurftu að sækja um þessar bætur), alls 20 milljónir punda sem munu hafa verið 40% af útgjöldum ríkisins það ár (1833). Í dagblaðinu Guardian sagði um daginn að þetta samsvaraði 16 billjónum punda á núvirði (ég reyni ekki að reikna það yfir í íslenskar verðlausar krónur!). Í fyrirlestri sínum ræddi Hall um þetta út frá kynjasjónarhorni og benti á að af þeim 47.000 kröfum sem gerðar hefðu verið um skaðabætur hefðu 41% verið frá konum. Þetta sýndi, þvert á það sem gert hafði verið ráð fyrir, að þær áttu plantekrur og eignir – þræla. Þær voru ekki allar passíf fórnarlömb karlveldisins heldur tóku þátt.
Hall og kollegar hennar hafa semsagt skoðað hvert þessar bætur, sá hluti þrælaauðsins, fór. Hvaða fjölskyldur nutu þeirra, hvernig voru þær nýttar. Að hve miklu leyti runnu þær út í atvinnulífið? Inn í vaxandi iðnvæðingu Bretlands? Eins og fram kemur að ofan hefur þrælahaldið verið feimnismál í Bretlandi. Þrælahaldsfjölskyldur hafa margar reynt að sópa þessari arfleifð undir teppið og almennt séð hafa Bretar ekki horfst í augu við sinn hlut í þrælahaldinu. Meðal annars vegna þess að plantekrurnar voru handan hafsins, í karabíska hafinu og víðar.
Um þetta verkefni má lesa á heimasíðu þess og einnig horfa á Hall sjálfa kynna verkefnið, ýmist stuttlega eða hlusta á heilan fyrirlestur. Um þetta er m.a. rætt í áðurnefndri grein í Guardian þar sem rætt er um þrælahaldsverkefnið í tilefni af bíómyndinni Þræll í 12 ár og rölt um í ensku borginni Bristol þar sem ýmsar glæsibyggingar hvíla á arði af þrælasölu. Eftir því sem segir í blaðinu er talið að bresk skip hafi flutt um þrjár milljónir svartra frá Afríku yfir til Nýja heimsins, þar af um hálfa milljón á skipum frá Bristol.
Hér í Skotlandi hefur það viðhorf verið ríkjandi að Skotar eigi engan þátt í þrælasölu og þrælahaldi Breta og þeim efnahagslegu áhrifum sem af því spratt. Nú hefur bíóhúsið Filmhouse boðað til opins fyrirlesturs sunnudaginn 19. janúar þar sem Tom Devine, prófessor í sagnfræði við Edinborgarháskóla, ætlar að kollvarpa þessum hugmyndum og leitast við að skýra hvernig standi á þessu minnisleysi – eins og segir í lýsingu.
En sjálfsagt er farið að skola undan þessu viðhorfi. Á síðasta ári las ég frábæra nýja bók eftir Emmu Rothschild, The Inner Lives of Empires. Bókin fjallar um skoska fjölskyldu á 18. öld, bréfaskipti hennar og heimsveldi í margvíslegum skilningi. Hluti fjölskyldunnar auðgaðist af plantekrum og þrælahaldi. Og í bókinni Saga Skotlands (A History of Scotland) segir vinsæli sjónvarpssagnfræðingurinn/fornleifafræðingurinn Neil Oliver að hlutur Skota í þrælaviðskiptunum séu þeim til eilífrar skammar. Héðan fóru skip til Afríku, sigldu með þræla til Ameríku og komu aftur til Skotlands drekkhlaðin tóbaki og öðru góssi. Á þessu auðguðust margir.
Óhætt er að segja að kvikmyndin, sem gerð er af svörtum breskum leikstjóra Steve McQueen (hér er nýlegt viðtal við hann í Guardian), hafi orðið til þess að vekja enn frekari athygli á áðurnefndu verkefni sagnfræðinganna við University College í London. Og sýnir auðvitað að sagnfræðingar eru með puttann á púlsinum
 Erla Hulda

sunnudagur, 5. janúar 2014

Hoffellsbræður

Í haust fékk ég að gjöf þrjár ljósmyndir úr dánarbúi Guðmundar afabróður míns frá Þinganesi í Nesjum í Hornafirði. Myndirnar eru af bræðrunum Jóni, Eiríki og Jóni frá Hoffelli í Nesjum. Myndir af þeim bræðrum hafa fylgt mér lengi því ég eignaðist eftirmyndir af gömlum ljósmyndum af þeim fyrir um 20 árum síðan. Þær hengu lengi uppi á heimili okkar hjóna og vöktu ævinlega athygli gesta, enda bræðurnir reffilegir og tilkomumiklir í sjón, svipmiklir með myndarlegt skegg. Það var óvænt ánægja að fá þá bræður hingað til Edinborgar.

Jón í Þinganesi (1842–1916)
Jón eldri var elstur þeirra bræðra, fæddur 1842, þá Eiríkur, fæddur 1844, en Jón yngri var fæddur 1845. Foreldrar þeirra voru Guðmundur Eiríksson, bóndi í Hoffelli, og Sigríður Jónsdóttir, eiginkona hans. Guðmundur var frá Hoffelli en Sigríður frá Hlíð í Skaftártungu.
Í grein um þá bræður, sem birtist í tímaritinu Óðni árið 1923, segir m.a.: „Þeir bræður eru allir atgerfismenn, fríðir sýnum og föngulegir á velli, hagleiksmenn miklir og vel að sjer um margt, greiðamenn og gestrisnir.“
Jón eldri kvæntist Katrínu Jónsdóttur frá Þinganesi og varð bóndi þar. Þau eignuðust fjóra syni sem upp komust. Einn þeirra var Gunnar langafi minn, svo ég upplýsi nákvæmlega um tengsl mín við þá Hoffellsbræður. Hinir þrír voru Guðmundur, Jón og Benedikt. Guðmundur og Gunnar urðu bændur á föðurleifð sinni en Guðmundur drukknaði þegar hann féll af hestbaki í Hornafjarðarfljótum árið 1909. Jón bjó lengi í Þinganesi en Benedikt dó ungur.
Jón í Hoffelli (1845–1927)
Jón yngri tók við búi í Hoffelli eftir föður sinn og þótti fyrirmyndarbóndi, hélt áfram jarðabótum sem faðir hans stóð fyrir. Jón lagði stund á söðlasmíði samhliða búskap. „Er hann minnstur þeirra bræðra að vallarsýn, en þó vel á sig kominn og hinn snyrtimannlegasti,“ segir í greininni í Óðni. Jón yngri kvæntist Halldóru Björnsdóttur frá Flugustöðum í Álftafirði. Börn þeirra voru Björn, bóndi í Dilksnesi í Nesjum, Guðmundur, bóndi í Hoffelli, Sigríður, lést ung, Hjalti, bóndi í Hólum í Nesjum, Kristín, lést ung, og Sigurbjörg í Hoffelli.
Eiríkur varð bóndi í Heinabergi á Mýrum en þaðan var eiginkona hans, Halldóra Jónsdóttir. Síðar bjuggu þau að Svínafelli í Nesjum og Meðalfelli í sömu sveit en keyptu þá jörðina Brú á Jökuldal og bjuggu þar um árabil. Eiríkur og Halldóra eignuðust fimm börn en aðeins eitt þeirra komst upp, Guðlaug. Seinni eiginmaður hennar var Elís Jónsson verslunarstjóri á Djúpavogi. Eiríkur var formaður á árabátum á Mýrum og í Nesjum, var um tíma hreppstjóri í Nesjum og á Jökuldal og gegndi fleiri trúnaðarstörfum, „enda ágætur skrifari og mjög vinsæll sem þeir bræður allir og vel metinn, alstaðar sem hann hefur átt heima,“ svo enn sé vitnað í greinina.
Þorleifur Jónsson (1864–1956), hreppstjóri í Hólum í Nesjum, getur þeirra bræðra í ævisögu sinni, sérstaklega Jóns í Þinganesi og Eiríks. Jón aðstoðaði föður Þorleifs við að endurbyggja bæinn í Hólum sumarið 1870. Þorleifur lýsir Jóni þannig (bls. 23): „Jón í Þinganesi var tígulegur, ungur maður, hár og vel limaður með dökkjarpt alskegg, snar í hreyfingum og ákveðinn. Hann var mikill smiður og mikill verkmaður. Mátti hann heita tveggja manna maki að verki, svo fljótvirkur var hann og áhugamaður hinn mesti. Hann var sérstakur greiðamaður og höfðingi í lund.“ 

Eiríkur (1844–1935) um áttrætt

Þorleifur skrifar sérstakan kafla um Eirík sem hann kynntist vel og hafði miklar mætur á. Þar segir (bls. 225): „Eiríkur var meðalmaður á hæð, en þrekvaxinn og kraftalegur. Talið var, að eigi væri þeir margir, er mætti úr hendi hans toga, ef hann halda vildi. Hann var fríður maður, hýr og svipfallegur. Skegg hafði hann mikið og fagurt, og allur var hann hinn höfðinglegasti. Eiríkur hafði góða greind, bókamaður og hagmæltur, þótt hann flíkaði því ekki mikið. Rithönd hans var frábærlega fín og vönduð, og skrifaði hann venjulega á hné sér. Þjóðhagi var hann á smíði alla, þó einkum á járn. Vinsæll var hann með afbrigðum, enda ætíð tilbúinn að greiða fyrir öðrum.“
Árið 1904 keypti Eiríkur jörðina Syðra-Fjörð í Lóni og fluttist þangað frá Jökuldal. Hann var þá orðinn ekkill. Þar bjó hann til ársins 1921. Syðri-Fjörður stendur norðan undir Vestrahorni og sér þaðan ekki til sólar mánuðum saman yfir vetrartímann. Um það orti Eiríkur þessa snilldarvísu: 
Mikaels frá messudegi
miðrar góu til
í Syðra-Firði sólin eigi
sést það tímabil.

Lengi að þreyja í þessum skugga
þykir mörgum hart,
samt er á mínum sálarglugga
sæmilega bjart.
Arnþór

Syðri-Fjörður undir Vestrahorni í byrjun apríl 2010.                                                              Ljósmynd: Arnþór




Nánar um Hoffellsbræður:
„Hoffellsbræður.“ Óðinn, 19. árg. 1.–6. tbl. 1923, bls. 21–22.
Þorleifur [Jónsson] í Hólum, Ævisaga. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, 1954.