laugardagur, 30. nóvember 2013

Á upprunastað íslenska þjóðsöngsins

Það er nokkuð útbreidd venja hér í Edinborg (og eflaust víðar Skotlandi) að fólk í þjónustustörfum gefi sér smátíma til að spjalla um daginn og veginn við viðskiptavinina á meðan þeir eru afgreiddir. Nokkuð sem maður er ekki vanur heima á Íslandi en hér þykir þetta sjálfsögð kurteisi. Ekkert nema gott eitt um það að segja. Ég lendi nokkuð oft í þessu og er þá ósjaldan spurður hvort ég sé á ferðalagi eða beinlínis hvaðan ég sé. Þegar ég segist vera frá Íslandi fer fólk stundum að segja mér frá einhverju sem það veit um land og þjóð, eitthvað sem það hefur heyrt eða lesið og þykir merkilegt og áhugavert. Fólk notar þá jafnvel tækifærið til að spyrja nánar út í viðkomandi atriði, t.d. um eldfjöllin eða hvort það sé virkilega þannig að húshitun með jarðhita sé ókeypis á Íslandi.
Í haust sagði afgreiðslumaður á kassa í stórmarkaði mér frá því, þegar hann komst að því hvaðan ég væri, að íslenski þjóðsöngurinn hefði verið saminn hér í Edinborg. Höfundurinn, Íslendingur að nafni Sveinbjörn Sveinbjörnsson, hefði búið í borginni þegar hann samdi lagið. Það kom mér skemmtilega á óvart að Sveinbjörn hefði samið lagið hér í borg og lét ég það í ljós. Afgreiðslumaðurinn færðist í aukana og tók að útskýra fyrir mér hvar í borginni tónskáldið hefði búið og að utan á húsinu þar sem hann bjó væri minningarskjöldur með áletrun um þetta. Ég þakkaði kærlega fyrir spjallið og kvaddi með þökkum, kominn með hálfgert samviskubit yfir röðinni sem hafði myndast fyrir aftan mig. 
London Street í New Town hverfinu í Edinborg. Íbúð Sveinbjörns var hægra megin í götunni. - Ljósmynd: Arnþór.


Nokkrum vikum síðar leitaði ég uppi húsið þar sem Sveinbjörn bjó. Það er í London Street, götu í New Town hverfinu. New Town byggðist upp á árunum 1765–1850 og er á heimsminjaskrá UNESCO (eins og Old Town hverfið), þykir einstaklega vel varðveitt dæmi um georgískan arkítektúr og skipulag. Sveinbjörn hefur greinilega búið innan um vel stæða borgara.
Utan á húsinu eru tveir minningarskildir. Á öðrum er textinn á íslensku, á hinum er ensk útgáfa sama texta. Íslenska áletrunin er svona:
ÍSLENSKI ÞJÓÐSÖNGURINN
“Ó GUÐ VORS LANDS”
LAGIÐ OG HLUTI LJÓÐSINS
VAR SAMINN Í ÞESSU HÚSI
ÁRIÐ 1874 AF
SVEINBIRNI SVEINBJÖRNSSYNI
OG MATTHÍASI JOCHUMSSYNI
1974
Þegar ég hafði tekið myndir af skjöldunum bar að unga konu með barn í kerru. Hún spurði hvort ég væri íslenskur. Ég játti því og spurði á móti hvort algengt væri að Íslendingar kæmu að húsinu. Hún sagði svo vera og tók sem dæmi að einu sinni þegar hún var heima við hefði hún heyrt söng fyrir utan. Þá stóð tíu manna íslenskur kór í tröppunum og söng þjóðsönginn! Ég spurði hana hvort hún vissi hvar nákvæmlega í húsinu Sveinbjörn hefði búið. Hún sagði að á hans tíma hefði þetta verið ein íbúð frá kjallara og upp úr en núna væru þarna nokkrar íbúðir. Hún sagðist búa í stórri íbúð á einni hæðinni, þannig að þetta hefðu verið mjög vegleg húsakynni hér áður fyrr. Þá hefðu eigendurnir líka haft þjónustufólk. Ég horfði undrandi upp eftir hæðunum fjórum og svo niður á kjallarahæðina, samtals fimm hæðir, og hugsaði með mér að Sveinbjörn hlyti að hafa verið vel stæður. 

Húsið þar sem Sveinbjörn bjó. Minningarskildirnir sjást hægra megin við 
hurðina sem er neðarlega fyrir miðri mynd. - Ljósmynd: Arnþór.
Áður en konan fór inn í húsið benti hún mér á að í The Georgian House við Charlotte Square, í vesturenda hverfisins, væri hægt að skoða íbúð eins og þær litu út á 19. öld. Ég tók stefnuna á torgið og fann umrædda íbúð. Hún hefur verið gerð upp í því sem næst upprunalegri mynd eða eins og hún leit út um og upp úr aldamótunum 1800. Hafi íbúð Sveinbjörns verið eitthvað í líkingu við þessa hefur ekki væst um hann og fjölskyldu hans.
Fjölskyldan sem fyrst bjó í sýningaríbúðinni í við Charlotte Square var mjög auðug. Heimasæturnar fengu góða menntun bæði í hagnýtum greinum og listum til þess að þær yrðu álitlegir kvenkostir. Þær lærðu m.a. hljóðfæraleik. Kannski Sveinbjörn hafi á sínum tíma kennt ungum stúlkum úr efri stéttum að leika á píanó. 
Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld
(1847–1927)
Í lesefni sem ég fann um Sveinbjörn á netinu komst ég að því að hann kom fyrst til Edinborgar þegar hann sigldi utan til náms í Kaupmannahöfn árið 1868. Eins og svo margir heillaðist hann af borginni og þar settist hann að fljótlega að loknu námi í tónsmíðum. Sveinbjörn starfaði sem píanókennari og komst vel af þá tæpu hálfa öld sem hann bjó  í Edinborg.
Sveinbjörn samdi þjóðsönginn árið 1873. Tildrögin voru þau að árið eftir stóð til að minnast þess með hátíðarhöldum að 1000 ár væru liðin frá landnámi Ingólfs Arnarsonar. Séra Matthías Jochumsson dvaldi um tíma hjá Sveinbirni í Edinborg árið 1873. Þar samdi hann fyrsta erindi sálmsins „Ó Guð vors lands“ og bað tónskáldið um að semja við það lag. Það gerði Sveinbjörn en Matthías lauk við að semja sálminn eftir að hann var kominn suður til London. Lag og ljóð voru síðan flutt við messu í Dómkirkjunni í Reykjavík 2. ágúst 1874. Það var frumflutningur verðandi þjóðsöngs Íslendinga.
Arnþór

Á netinu er m.a. þetta lesefni um Sveinbjörn:
Birgir Thorlacius, Íslenski þjóðsöngurinn.

Bendi líka á grein eftir Jón Þórarinsson, SveinbjörnSveinbjörnsson og þjóðsöngurinn. Andvari 1. tbl. 99. árg. 1974, bls. 53–57.

föstudagur, 15. nóvember 2013

Skikkanlegur forfaðir – Jóhannes Skeggjason

Í gegnum árin hafa formæður mínar og forfeður stundum dúkkað upp í rannsóknum mínum. Það gerðist sennilega fyrst í kúrsinum Ástir Íslendinga hjá Má Jónssyni árið 1989. Þar skrifaði ég ritgerð um lauslæti Staðsveitunga og ömmur og afar með mismörgum langalang- birtust á síðum kirkjubókanna þar sem ég leitaði upplýsinga um of bráðar barneignir og hjónabönd. Þetta var fólkið mitt í föðurætt.
Þegar ég fór svo nokkrum árum síðar að vinna að meistaraprófsritgerð í sagnfræði, og leita uppi bréf kvenna, rakst ég á bréf sem voru skrifuð af konum í þessari fjölskyldu. Þar af voru nokkur sem Þorbjörg Stefánsdóttir langalangamma mín á Álftavatni skrifaði frænda sínum, prestinum og útgefandanum Þorgeiri Guðmundssyni í Danmörku, milli 1860 og 1870 (hann var m.a. að kaupa fyrir hana hatta og svona). Reyndar skrifaði hún ekki eigin hendi, „hún er lagleg í sér, en ekki skrifar hún bréf sín sjálf, heldur önnur stúlka í nágrenninu“, skrifaði frændkona hennar og nafna Þorbjörg Guðmundsdóttir árið 1860.
Þessum upplýsingum hef ég haldið til haga og um suma leitað frekari upplýsinga. En það er tímafrekt að fletta í kirkjubókum og manntölum, hvað þá að leita að bréfum sem eru kannski ekki til. Þess vegna eru flest þessara formæðra og feðra ennþá aðeins nafn á blaði. En stundum bætist við upplýsingarnar alveg óvænt. Þannig var um langalangafa minn, Jóhannes Skeggjason. Hann var pabbi Soffíu, sem var mamma Ásgríms Gunnars Þorgrímssonar afa míns. 
Ásgrímur afi minn með tvo til reiðar. Þessi mynd kemur 
færslunni ekki við svona beinlínis en er svo skemmtilega 
slitin. Þarna er hann líklega að 'fara með girðingunni'. 
Þ.e. að líta eftir mæðuveikigirðingunni.
Síðustu misseri hef ég unnið að rannsókn á ævi og bréfum Sigríðar Pálsdóttur sem fæddist austur í Hróarstungu en bjó um ævina í Reykjavík, Borgarfirði og á Suðurlandi. Frá 1833 til 1839 bjó hún á þeim sögufræga stað Reykholti í Borgarfirði ásamt manni sínum Þorsteini Helgasyni sem þar var prestur. Þegar ég fór að skoða manntöl og kirkjubækur frá þessum árum tók hjartað aukaslag því hver birtist mér þar á síðum manntalsins 1835 annar en Jóhannes Skeggjason fjórtán ára vinnudrengur prestshjónanna. Með hjálp Íslendingabókar var auðvelt að sannreyna að afi afa míns bjó raunverulega á heimili Sigríðar ‘minnar’. Ótrúleg tilviljun hugsaði ég og vöknaði pínulítið um augu.
Í heimili voru 13 manns. Prestshjónin Sigríður 26 ára og Þorsteinn 29 ára. Dóttir þeirra Ragnheiður var ársgömul. Tveir lærdómspiltar voru þar, sextán og sautján ára, enda Þorsteinn vel menntaður maður, hafði verið við nám og störf (m.a. við útgáfu bóka) í Kaupmannahöfn í sjö ár. Þrír vinnumenn voru í Reykholti og fjórar vinnukonur. Og svo vinnudrengurinn Jóhannes.
Jóhannes Skeggjason kom að Reykholti frá Hvítskjaldarhóli í Miðdölum árið 1834, kallaður tökudrengur. Hann fæddist á Svarfhóli í Sauðafellssókn 29. apríl 1821 og fremur ónákvæm leit (Íslendingabók og upplýsingar úr ættfræðigrunni á netinu) leiðir í ljós nokkurn fjölda systkina sem sum dóu sem kornabörn.
Fjölskyldan hefur búið í Dölunum, Skeggi var síðast skráður í Fremri-Hundadal en dó í sjóróðri í Reykjavík árið 1830. Í lok apríl. Í Sögu Reykjavíkur segir frá miklum sjóskaða snemma í apríl, þá fórust 20 menn í slæmu hríðarveðri af norðan. Skeggi hefur kannski verið einn þeirra þótt dagsetningar stemmi ekki. Aðrar eins skekkjur eru í kirkjubókunum.
En heimilinu hefur líklega verið tvístrað eftir þetta og Jóhannes orðið tökudrengur, eða niðursetningur, á einhverjum bæ. Kannski á Hvítskjaldarhóli.
Þau hafa vonandi hugsað sæmilega um hann prestshjónin í Reykholti og hann hefur fengið lágmarkstilsögn, lært að lesa. Ég vona að hann hafi líka lært að skrifa.
Þorsteinn Helgason fermdi vinnudrenginn sinn vorið 1836 og gaf honum þá einkunn að hann væri velkunnandi, skikkanlegur og sæmilega læs. Og hann var bólusettur. Húsbændur hans, „sóknarpresturinn og kona hans“, eru skráð undir liðnum húsbændur/foreldar/fósturforeldrar. Ekki orð um móður Jóhannesar sem þó var á lífi (dó 1866 í Norðurárdal í Borgarfirði).
Tóftir gamla bæjarins í Reykholti. Þarna átti Jóhannes heima í sex ár.
Ljósmynd - Erla Hulda
Þorsteini og Sigríði hélst vel á vinnufólki. Þorsteinn var athafnamaður, byggði upp hús, vann að jarðbótum enda einn af piltunum sem höfðu setið í Kaupmannahöfn fyrir og um 1830 og látið sig dreyma um nýtt og betra Ísland. Eitt af síðustu verkum Þorsteins var að byggja fínt timburloft í kirkjunni í Reykholti – þar áttu bækurnar hans að vera. Fleiri hundruð. Eitt stærsta bókasafn á landinu. En hamingjan hvarf úr Reykholti því Þorsteinn missti vitið og reið í Reykjadalsá ófæra í mars 1839. Sigríður sat náðarárið á staðnum en fluttist árið 1840 að Síðumúla á Hvítársíðu en þá jörð áttu þau Þorsteinn hálfa. Bróður sínum Páli stúdent á Arnarstapa skrifaði hún þá um vorið:
„mikið vildi ég þú gætir komið í góðan samastað, helst hjá þér honum Jóhannesi litla, mér er um hann hugað því hann hefur hér alltaf hjá mér verið og er nú orðinn líklegur til allrar vinnu og vel hagur á tré og járn, hvurt sem ég hangi við búskap eða ekki þá vildi ég koma honum í góðan stað því hann er unglingur og þarf húsbónda“ (30/4 1840)
Páll hefur ekki getað tekið Jóhannes litla (sem þó var orðinn 19 ára) til sín því hann fór í fardögum að Höfn í Melasveit en stór hluti vinnufólksins fluttist með Sigríði að Síðumúla. 
Nú kemur löng eyða því ég hef ekki enn elt Jóhannes í gegnum kirkjubækurnar en samkvæmt Íslendingabók hefur hann verið við búskap hér og þar í Borgarfirði og síðast búið í Bakkabúð í Garðasókn (á Akranesi), kannski verið þurrabúðarmaður. Hann kvæntist Sigríði Jóhannsdóttur, fædd 1824, og þau áttu sjö börn. Hið elsta fætt 1851 og hið yngsta í júní 1863. Þá um vorið, 5. maí, drukknaði Jóhannes af Bakkabúðarhlein. Öfugt við það sem var þegar pabbi hans drukknaði 33 árum fyrr voru nú komin dagblöð (öllu heldur viku- eða hálfsmánaðarblöð) þar sem oft var getið um sjóskaða og drukknanir, nöfn hinna dánu jafnvel talin upp. Þjóðólfur og Norðanfari skiluðu þó ekki öðrum upplýsingum en þeim að nóttina milli 6. og 7. maí hafi strandað franskt fiskiskip og 18 manna áhöfn var bjargað; þar með voru þrjár skipshafnir franskar strandaðar á landinu, samtals 50 manns. Síðan segir í Þjóðólfi: „Sömu nóttina fórst bátr af Akranesi með 4 manns á heimleið héðan úr Reykjavík; er haldið hann hafi farizt þar uppundir landsteinum, því hann fanst á kjöl þar um morguninn.“
Hafið. Svo óendanlega fagurt og ógnvekjandi. - Ljósmynd Arnþór
Ætli Jóhannes langalangafi hafi ekki verið einn af þessum fjórum þótt enn sé misræmi í dagsetningum. Drukknar eins pabbi sinn. Og fimm vikum síðar, 10. júní, fæddist yngsta barnið, Soffía langamma mín. Hún dó sjálf rúmlega fertug frá eiginmanni og fjórum börnum árið 1906 og ári síðar fór langafi minn Þorgrímur í sjóinn. Þá var afi tólf ára.
Ef ég reyndi að hafa upp á öllum mögulegum upplýsingum um fólkið mitt úr fortíðinni gerði ég líklega fátt annað. Þess vegna þykir mér óendanlega vænt um þegar þau birtast í óvæntu samhengi og ég fæ örlitla innsýn í líf þeirra. Líf sem alltof oft virðist litað basli, sorg og dauða.
Erla Hulda

föstudagur, 8. nóvember 2013

Haustlitir í grasagarðinum

Skosk náttúra er rómuð fyrir fallega haustliti og hefur sem slík mikið aðdráttarafl á erlenda ferðamenn. Hér í Edinborg er líka hægt að njóta haustlitanna enda trjágróður mikill í borginni. Fáir staðir eru betur til þess fallnir en grasagarðurinn, Royal Botanic Garden, sem staðsettur er eina mílu norðan við miðborgina. Þar tók ég meðfylgjandi myndir seinni partinn í október en þá nálgast haustlitadýrðin hámark hér í landi. 





Grasagarðurinn rekur sögu sína til 1670, þá sem garður fyrir lækningaplöntur. Hann hefur verið á núverandi stað frá árinu 1820. Garðurinn er næstelstur sinnar tegundar á Bretlandseyjum og í fremstu röð á heimsvísu. Auk grasagarðsins í Edinborg rekur Royal Botanic Garden þrjá aðra grasagarða í Skotlandi. Ólík staðsetning þessara garða með tilliti til veðurfars og jarðvegs gefur stofnuninni færi á að rækta afar fjölbreytt safn plantna frá öllum heimshornum. Saman mynda garðarnir eitt stærsta safn plantna í heiminum með rúmlega 15.000 tegundir eða tæplega 7% af öllum þekktum plöntum. 




Grasagarðurinn í Edinborg þekur 26 hektara og er vinsæll til útivistar, bæði meðal heimamanna og ferðamanna. Aðgangur er ókeypis. Þar er ekki aðeins að finna margar tegundir af plöntum heldur er hægt að njóta veitinga á nokkrum stöðum, fræðast um starfsemi garðsins í upplýsingamiðstöð og kaupa garðvörur og ýmiss konar lesefni. 





Grasagarðurinn leggur mikla áherslu á menntun og fræðslu og er mikilvirk rannsóknarstofnun í plöntufræðum með áherslu á líffræðilega fjölbreytni, loftslagsbreytingar og verndun. Sem slík tekur hún þátt verkefnum um víða veröld. 


Í einum af bæklingum grasagarðsins er bent á þá einföldu staðreynd að án plantna væri ekkert líf á jörðinni. Plönturnar færa okkur andrúmsloftið og eru undirstaða fæðukeðjunnar. Þrátt fyrir að þær gegni þessu lykilhlutverki má gera ráð fyrir að tilvist þriðjungi allra þekktra plantna verði ógnað á næstu 50 árum. Þetta eru yfir 100.000 tegundir. Margar þeirra eru í útrýmingarhættu nú þegar.

Arnþór