föstudagur, 8. nóvember 2013

Haustlitir í grasagarðinum

Skosk náttúra er rómuð fyrir fallega haustliti og hefur sem slík mikið aðdráttarafl á erlenda ferðamenn. Hér í Edinborg er líka hægt að njóta haustlitanna enda trjágróður mikill í borginni. Fáir staðir eru betur til þess fallnir en grasagarðurinn, Royal Botanic Garden, sem staðsettur er eina mílu norðan við miðborgina. Þar tók ég meðfylgjandi myndir seinni partinn í október en þá nálgast haustlitadýrðin hámark hér í landi. 





Grasagarðurinn rekur sögu sína til 1670, þá sem garður fyrir lækningaplöntur. Hann hefur verið á núverandi stað frá árinu 1820. Garðurinn er næstelstur sinnar tegundar á Bretlandseyjum og í fremstu röð á heimsvísu. Auk grasagarðsins í Edinborg rekur Royal Botanic Garden þrjá aðra grasagarða í Skotlandi. Ólík staðsetning þessara garða með tilliti til veðurfars og jarðvegs gefur stofnuninni færi á að rækta afar fjölbreytt safn plantna frá öllum heimshornum. Saman mynda garðarnir eitt stærsta safn plantna í heiminum með rúmlega 15.000 tegundir eða tæplega 7% af öllum þekktum plöntum. 




Grasagarðurinn í Edinborg þekur 26 hektara og er vinsæll til útivistar, bæði meðal heimamanna og ferðamanna. Aðgangur er ókeypis. Þar er ekki aðeins að finna margar tegundir af plöntum heldur er hægt að njóta veitinga á nokkrum stöðum, fræðast um starfsemi garðsins í upplýsingamiðstöð og kaupa garðvörur og ýmiss konar lesefni. 





Grasagarðurinn leggur mikla áherslu á menntun og fræðslu og er mikilvirk rannsóknarstofnun í plöntufræðum með áherslu á líffræðilega fjölbreytni, loftslagsbreytingar og verndun. Sem slík tekur hún þátt verkefnum um víða veröld. 


Í einum af bæklingum grasagarðsins er bent á þá einföldu staðreynd að án plantna væri ekkert líf á jörðinni. Plönturnar færa okkur andrúmsloftið og eru undirstaða fæðukeðjunnar. Þrátt fyrir að þær gegni þessu lykilhlutverki má gera ráð fyrir að tilvist þriðjungi allra þekktra plantna verði ógnað á næstu 50 árum. Þetta eru yfir 100.000 tegundir. Margar þeirra eru í útrýmingarhættu nú þegar.

Arnþór