miðvikudagur, 30. október 2013

Hunangsboltarnir

Um þessar mundir eru Skotar á talsverðri siglingu í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu, eru efstir í sínum riðli með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og þjálfarinn hefur verið tilnefndur af FIFA (Alþjóðafótboltasamtökunum) sem einn af fimm bestu þjálfurum ársins. Ó? Kemur þetta á óvart? Eru Skotar ekki úr leik? Jú, karlarnir. En ég er að tala um konurnar. Skoska landsliðið í kvennaknattspyrnu og þjálfarann þeirra, Önnu Signeul, sem er sænsk (eins og karlalandsliðsþjálfarinn okkar). 
Í tilefni af undankeppninni, væntingum, auknum áhuga á kvennabolta og kannski ekki síður til að vekja áhuga og athygli á merkri sögu var í lok september sýndur þáttur á skosku sjónvarpsstöðinni BBC Alba (Alba er gelíska nafnið yfir Skotland) um kvennaknattspyrnu hér í Skotlandi fyrir meira en 100 árum og baráttu kvenna fyrir því að fá að spila þessa íþrótt. Raunar kom þar fram, og í grein á vefsíðu BBC, að konur hefðu spilað fótbolta – þá útgáfu af fótbolta sem tíðkaðist hverju sinni – í aldir en verið skipulega mismunað og lítið gert úr þeim. Elsta skjalfesta heimildin um konur að spila fótbolta er t.d. frá 1628, en það var í Carstairs í Lanarkshire hér aðeins sunnan Edinborgar. Nokkur fleiri dæmi eru um kvennaleiki, m.a. að lið giftra kvenna hafi att kappi við lið ógiftra kvenna nærri Inverness einhvern tímann á átjándu öld. 

Fótboltakonur nútímans bregða sér í hlutverk og búninga Honeyballers frá því fyrir meira en 100 árum. Myndin er tekin af vefsíðu BBC sem vísað er til í greininni og hlekkjað er á hér að ofan.
Það var svo hér í Edinborg sem fyrsti landsleikurinn í kvennaknattspyrnu fór fram árið 1881 (sá fyrsti á Bretlandseyjum) þar sem skoskt lið tókst á við enskt (hinir gömlu svörnu óvinir). Skotland vann 3-0. Um þetta var nokkuð skrifað í blöðum og þóttu konurnar sérlega smart, í bláum treyjum, hvítum buxum (knickerboxers sem eru svona eins og víðar hnésíðarðar og ﷽﷽﷽onur, að þær svennaboltans, að þetta skrifað vennaleiki, m.a. að lið giftra kvenna hafi att kappi við lið íð nærbuxur)* með rautt belti og í stígvélum með hæl. Fáeinum dögum síðar fór fram annar leikur í Glasgow en þar fór allt í uppnám þegar hundruðir karla þustu inn á völlinn og drífa varð leikmenn í burtu á vagni sem dreginn var af fjórum gráum hestum. Eins og fram kemur í greininni á BBC var þessi fótboltaiðkun ekki að öllu leyti vel séð í hinu viktoríanska samfélagi, eins og við getum ímyndað okkur, því konur á buxum voru á mörkum siðprýðinnar. Auk þess var líkamleg áreynsla af þessu tagi talin óholl konum og vildu margir banna þeim að spila fótbolta.
En konurnar gáfust ekki upp og fyrir tilstilli aðalskonunnar lafði Florence Dixe, sem spilaði reyndar ekki sjálf en lagði stund á skot- og fiskveiðar auk þess að vera m.a. rithöfundur og landkönnuður, var stofnað árið 1895 The British Ladies Football Club (Félag breskra knattspyrnukvenna). Lafði Dixie var verndari klúbbsins en fyrirliði var Mary Hutson. Hún lék undir dulnefninu Nettie Honeyball og við hana er liðið kennt, The Honeyballers.
Í heimildamyndinni á BBC Alba var fjallað á afar áhugaverðan og skemmtilegan hátt um sögu þessa liðs og leikmenn. Settar voru á svið senur þar sem knattspyrnukonur nútímans fóru í hlutverk þessara brautryðjenda kvennaknattspyrnunnar hér í Skotlandi, klæddar búningum í anda Honeyballers.
Aukinn áhugi kvenna á fótbolta og íþróttum yfirhöfuð var auðvitað í samræmi við nýja og breytta tíma, kvenfrelsishugmyndir og nútímann þar sem hin svokallaða ‘nútímakona’ var að stíga fram og vildi verða fullgildur þegn í samfélaginu. 
Nettie Honeyball um aldamótin 1900. Myndin er tekin
úr grein um kvennafótbolta í dagblaðinu Daily Mail 
árið 2011. Þar eru margar skemmtilegar myndir af
fótboltakonum á fyrri tíð. 
En saga kvennaknattspyrnunnar er ekki saga sigra í þeim skilningi að þessi rúmu hundrað ár hafi verið samfelld sigurganga. Þvert á móti. Konurnar glímdu við andúð samfélagsins og knattspyrnuyfirvalda um aldamótin 1900 og fram á nýja öld. Heimsstyrjöldin fyrri 1914–1918 hafði raunar þau áhrif að örlítið var slakað á gagnvart kvennaknattspyrnunni. Karlarnir voru sendir í skotgrafnirnar í þessu hörmungarstríði og konur héldu samfélaginu gangandi á meðan með því að ganga í verksmiðjustörf hvers konar. Og þær tóku í auknum mæli þátt í íþróttum, m.a. fótbolta, bæði hér uppi í Skotlandi þar sem fram komu fleiri kvennalið og niður í Englandi þar sem til varð frægt lið, Dick, Kerr’s Ladies (nefnt eftir fyrirtækinu Dick, Kerr & co., sem voru Skotar!). Liðið var stofnað árið 1917 í fjáröflunarskyni fyrir særða hermenn og tugir þúsunda sóttu leiki þeirra,  t.d. 50.000 manns á Goodison Park árið 1920. Dick, Kerr’s Ladies spilaði fjölda leikja næstu áratugi.
Að stríðinu loknu vildu karlarnir endurheimta völd sín og ráð, bæði í samfélaginu og á fótboltavellinum. Breska knattspyrnusambandið greip til þess ráðs að banna kvennaboltann árið 1921, þ.e. þær máttu ekki halda uppi deildarkeppni – máttu ekki vera til opinberlega. Þetta var gert á þeim forsendum að kvennaboltinn væri of mikill ‘skemmtiðnaður’ og að fótboltaiðkun væri ekki holl konum og líkamsbyggingu þeirra. Það átti reyndar við um fleiri íþróttir eins og Hafdís Erla Hafsteinsdóttir hefur fjallað um í BA-ritgerð sinni í sagnfræði um kvennaíþróttir.   
Konur í Bretlandi héldu áfram að spila fótbolta óformlega þrátt fyrir bannið en því var ekki aflétt ekki fyrr en árið 1971! Þá voru knattspyrnukonur farnar að láta finna fyrir sér, m.a. með stofnun Women’s Football Association (Samtök kvennaknattspyrnu). Í samtökunum voru 44 lið. Skipuleg uppbygging kvennaknattspyrnunnar með stuðningi breska knattspyrnusambandsins (í orði allavega) var því hafin.
Þótt viðmælendur í heimildamyndinni séu bjartsýnir á framtíð kvennaknattspyrnunnar nú rúmlega 40 árum síðar, og meira en hundrað árum eftir að lítið var gert úr Honeyballers, tala þau um að enn séu þeir til sem finna kvennaboltanum flest til foráttu og gera lítið úr knattspyrnukonum. Þar sé bæði almenningur, ráðamenn í fótboltanum og ekki síst fjölmiðlar sem séu mjög karlmiðaðir. Segja má að orð þeirra hafi holdgervst í  þekktum þáttastjórnanda á BBC um það leyti sem þátturinn var sýndur og skoska kvennalandsliðið spilaði við Bosníu í undankeppninni. Þá skrifaði þessi vinsæli rúmlega miðaldra karla í fastan dálk sinn í dagblaði nokkru eitthvað á þessa leið: „Ef kvennafótbolti er svona góður, hvar í andskotanum eru þá allir stuðningsmennirnir? Hljóta ekki jafnvel hörðustu aðdáendur að fallast á að það er kominn tími til að fleygja honum?“ Og hann bætti um betur: „Ef ég mætti ráða hefði deildarleiknum milli Motherwell og Ross County í dag verið frestað vegna þess að kveikja hefði átt í Fir Park á fimmtudag til þess að hreinsa leikvanginn eftir að kvennaleikur var leikinn þar.“ Svo mörg voru þau orð. Kannski átti þetta að vera grín eins og kvenhatur er svo gjarnan sagt vera. En hvernig sem því var nú háttað þá kippti BBC karlinum (tímabundið) út úr útvarpsþætti sem hann heldur úti á laugardögum við miklar vinsældir. Ég hef satt að segja ekki haft orku eða geð í að fylgjast meira með þessu máli
Saga íslenskrar kvennaknattspyrnu er enn óskrifuð nema í brotum hér og þar. Fáeinir vitnisburðir eru til um knattspyrnuiðkun kvenna á Íslandi snemma á 20. öld en líkt og á Bretlandseyjum er svo endurnýjaður áhugi þegar komið er fram á sjöunda áratuginn og örar þjóðfélagsbreytingar að eiga sér stað. Þó er ljóst af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið að þau viðhorf sem mætt hafa íslenskum knattspyrnukonum í gegnum tíðina eru ekki jákvæðari en t.d. hér á Bretlandseyjum. Má í því sambandi benda á BA-ritgerð Odds Sigurjónssonar frá því fyrr á þessu ári. 
Að lokum er rétt að geta þess að þegar Íslendingar spiluðu sinn fyrsta landsleik í kvennaknattspyrnu árið 1981 voru mótherjarnir einmitt Skotar sem sigruðu með þremur mörkum gegn tveimur.
                                                                                    Erla Hulda
                       
 * Geta má þess að konur sem stunduðu fjallamennsku á 19. öld gengu gjarnan á fjöll í pokabuxum, jafnvel nærbuxum (bloomers), og það olli talsverðri hneykslan.