sunnudagur, 25. maí 2014

Tvö „marklítil bréf“

Þegar kvensagnfræðingar hófu sögu kvenna á loft um 1970 sem akademíska fræðigrein létu þær sig dreyma um að konur og saga þeirra yrði sjálfsagður hluti hinnar almennu sögu. Að finna mætti frásagnir af verkum kvenna og lífi þeirra í þykku bókunum um sögu þjóða og heimsatburða. Og að rannsóknaraðferðir og frásagnarrammi sögunnar myndi breytast.
Þótt margt hafi breyst á þessum rúmlega 40 árum sem liðin eru er ljóst að enn eru konur og saga þeirra ekki sjálfsagður hluti hinnar almennu sögu. Og ef marka má nýleg skrif má ætla að ákveðin stöðnun, jafnvel afturhvarf hafi átt sér stað.
„Hun bidur þig nu ad firirgefa þo liott se heni gengur langt
um betur med krit engin er heldur tilsøgnin þu veist eg get
ei en moder þeirra þolir ei halfa stund ad horfa a pappir 
sidan i firra haust...“ - Mynd Erla Hulda
Umræðan snýst ekki um að ekki séu til staðar nógu margar eða vandaðar rannsóknir á sviði kvenna- og kynjasögu heldur er eins og þær nái þrátt fyrir allt ekki að breyta rótgrónum hugmyndum um hvað sé alvöru sagnfræði og hverjir alvöru sagnfræðingar. Og þar með hvaða rannsóknir það séu sem komast inn í Sögubækur með stóru essi. Jafnframt snýst þetta um stöðu kvensagnfræðinga, og þá ekki síst sérfræðinga á sviði sögu kvenna og kynja, við háskóla.
Nýlega stofnuðu konur í meistaranámi í sagnfræði við Óslóarháskóla kvennahópinn Ottar Dahl. Hópurinn hefur það að markmiði að jafna kynjahlutfall í sagnfræði innan háskólans og utan. Í grein sem þær birtu í Aftenposten 15. maí sl. eru 80% prófessora við sagnfræðideild Óslóarháskóla karlar. Þetta telja þær að endurspeglist í rannsóknaráherslum þar sem opinbera sviðið og hið karllega séu mest áberandi. Þetta benda þær á að hafi áhrif út fyrir sagnfræðina, á samfélagið allt og standi jafnrétti fyrir þrifum.
Til samanburðar má geta þess að við sagnfræðina í Háskóla Íslands eru 75% fastra kennara (lektorar, dósentar, prófessorar) karlar en ef aðeins eru taldir prófessorar eru karlarnir 86%. Ekkert bendir til að það breytist í bráð.
Um daginn las ég svo áhugaverða grein eftir Bonnie G. Smith um sagnritun kvennasögunnar. Smith er þekktur kvennasögufræðingur og skrifaði fyrir sextán árum ögrandi bók um kyngervi sagnfræðinnar, The Gender of History. Men, Women, and Historical Practice. Í greininni (2010) fagnar Smith framgangi kvenna- og kynjasögunnar og þeim fjölmörgu nýstárlegu rannsóknum sem hún hefur leitt af sér en bendir engu að síður á að kvenna- og kynjasaga sé enn ekki hluti af því sem kalla má meginstraum eða kanón sögunnar. Eins og ég hef áður nefnt í bloggi hér eru þó til þeir karlsagnfræðingar sem kvarta hástöfum yfir kvenkyns kollegum sínum og þeirri sögu sem þær skrifa. Smith nefnir einmitt forvitnilegt dæmi héðan frá Bretlandi þar sem þekktur sagnfræðingur lét hafa eftir sér árið 2009 (um leið og sýndir voru sjónvarpsþættir hans um Hinrik áttunda) að sagan hefði verið „kvengerð“. Þá var hann að hugsa um kónginn Hinrik sem síðustu ár hefur verið vinsælt umföllunarefni vegna kvennanna sex, sem hann ýmist skildi við, lét höggva eða dóu frá honum. Honum var auðvitað svarað af femínískum sagnfræðingi.
„Beste brodir ...“ Sigríður skrifar í september 1820, á níunda 
afmælisdegi Þórunnar systur sinnar. Sjálf er hún ellefu vetra.
                                                           - Mynd Erla Hulda
Á vefsíðunni Herstoria, þar sem akademískir sagnfræðingar í Bretlandi skrifa um sögu kvenna, mátti nú í maí finna grein um hlut kvenna í sögubókum (kennslubókum). Þar kemur fram að hlutur kvennasögu er slakur í þessum bókum og þekking nemenda ekki upp á marga fiska. Sem minnir mig á umræðu sem varð á Íslandi fyrir örfáum árum um það hve fáar konur voru í nýjum kennslubókum fyrir efri stig grunnskóla. Um málið var m.a. fjallað á málþingi við Háskóla Íslands. Í umræðu á vefmiðlum, póstlista sagnfræðinga og víðar kom fram það viðhorf að kennslubækur sem þessar endurspegluðu bara ‘fortíðina eins og hún var’ því þá hefðu karlar ráðið ríkjum. Að skrifa annars konar sögu væri afskræming á fortíðinni og ‘raunveruleika’ hennar.
Þeir sem svona hugsa eru auðvitað fastir í gömlum viðhorfum – sjá ekki að stundum þarf að stokka hlutina upp og horfa á fortíðina út frá nýju sjónarhorni. Um daginn birtist á vefsíðunni Reviews in History umfjöllun um nýja bók (2013) um eftirmála kosningaréttar kvenna í Bretlandi eftir fyrra stríð. Bókin fær afar lofsamlega umfjöllun enda virðist hún hrista upp í viðteknum skoðunum. Ritdómarinn segir beinlínis að allir þeir bresku sagnfræðingar sem fást við breska samtímasögu ættu að lesa og melta innihald þessarar bókar og velta fyrir sér af hverju konur og kyngervi hafi ekki fengið meira pláss í þeirra eigin verkum. Lokaorðin eru: „... þessi bók sýnir að það er ekki lengur réttlætanlegt að fela sig á bak við heimildaskort heldur þarf í þess stað að spyrja réttu spurninganna.“
Það er einmitt þetta með spurningarnar. Á síðasta ári fékk ég orðsendingu frá handritadeild Landsbókasafns þar sem einn starfsmanna hafði óvænt rekist á tvö bréf frá systrunum Sigríði Pálsdóttur og Þórunni Pálsdóttur á Hallfreðarstöðum. Þessi bréf voru ekki skráð með öðrum bréfum þeirra til bróður síns Páls Pálssonar skrifara og stúdents á Arnarstapa. Bréfin hefur Páll bundið inn í bók ásamt ýmsum mikilvægum skjölum er varða hann sjálfan og fjölskyldu hans. Í handritaskrá Landsbókasafns skrifar fræðimaðurinn Páll Eggert Ólason eftirfarandi: „Aftast eru ættartölubrot, einkum ættmenna Páls stúdents, og fáein marklítil bréf til hans frá systrum hans.“ (Handritaskrá II, 55)
Fáein marklítil bréf ... - mynd Erla Hulda
Handritaskráin kom út árið 1927 og endurspeglar gamlar hugmyndir, sem þó lifa enn, um verðugleika og sögulegt mikilvægi þar sem lítið pláss er fyrir konur, hvað þá börn. Konur og handrit þeirra, hvort sem um er að ræða bréf eða önnur handrit, voru illa eða ekki skráð í elstu handritaskránum. Sjálf hef ég margoft rekið mig á þessa staðreynd við leit í skránum og nýlegar rannsóknir á verkum kvenna hafa enn frekar leitt þetta í ljós, til dæmis rannsókn Guðnýjar Hallgrímsdóttur á sjálfsævisögu Guðrúnar Kétilsdóttur og doktorsritgerð Guðrúnar Ingólfsdóttur. Þessar rannsóknir hafa sýnt að mörg „marklítil“ bréf og handrit eru full af mikilvægum upplýsingum um fortíðina, viðhorf fólks til samtíma síns og hvernig það lifði lífi sínu. Bréf systranna Þórunnar og Sigríðar eru engin undantekning.
Þórunn skrifar:
elsku legi brodir 
Nu er af mæli mitt i dag og eg 9 ára sem er 17 September eg kann ei neitt ad klora en eg ætla ad bæta mig ad læra þad i vetur so eg geti skrifad þier. lifdu sem best eg kann oska þin 
elskandi sistir 
Þorunn Pals dottir
Sigríður skrifar:
Besti bróðir 
Eg þacka þier firir þin 2 Kiær komin til skrif nu kiemst eg ei til ad skrifa langt þvi nu er verid ad heia i blanni og fer eg a milli en eg er sein ad skrifa eg var 11 vetra nærst lidid vor þann 17 Maii en Siggeir brodir ockar 5 vetra i Sumar þann 12 Juli eg ma nu ei vera lengur ad þvi eg er so sein og hefi ei tekid a penna sidan i vor og heldur enginn ad segia meir til en ef eg lifi i vetur skal eg bæta mig. firirgefdu nu besti brodir þettad ljota Klor og vertu æfinlega sæll þin 
elskandi  Sistir Sigrídur Pals dottir
heima
Þetta er annað sendibréfið sem Sigríður skrifaði eigin hendi, höndin er jöfn og áferðafalleg og henni hefur farið talsvert fram frá því hún skrifaði sjálf í fyrsta sinn á bakhlið bréfs ömmu sinnar níu mánuðum fyrr. Þó hefur hún ekki „tekið á penna“ frá því um vorið. Sumarið var annatími, bæði fyrir börn og fullorðna, og lítill tími fyrir skriftaræfingar. Fyrir utan að móðir þeirra var sífellt veik og gat illa sagt þeim til. Þórunn er skemur á veg komin og þetta er fyrsta bréfið sem hún skrifar sjálf. Eins og sjá má í viðbótinni (sjá mynd) sem amma þeirra Sigríður Ørum skrifaði neðan við bréf Þórunnar gekk henni betur með krít. Bréfið er stutt, höndin barnsleg og erfiðið við að skrifa og eiga við fjaðurpennann skína í gegn. Stafirnir eru ójafnir og nokkrar blekklessur eru á þessu arkarbroti.
Bréfin eru vitnisburður um lærdómsferli systranna, bæði efnislega og sem gripir. Og þegar þau eru skoðuð í samhengi við það félagslega og menningarlega umhverfi sem systurnar bjuggu í opna þau mikilvæga sýn inn í löngu horfinn heim sem byggði á stigveldi stéttar og stöðu – og kyns og kyngervis. Tvö marklítil bréf?

                                                                                Edinborg, Erla Hulda

Helstu heimildir aðrar en þær sem hlekkjað er á:
Lbs 230 8vo. Handritið (bókin) þar sem finna má umrædd bréf systranna Sigríðar og Þórunnar.
Bonnie G. Smith, „Women’s History. A Retrospective from the United States“, Signs: Journal of Women in Culture and Society, vol. 35, no. 3, bls. 723–747.
Guðný Hallgrímsdóttir, Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur. Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar 16. Reykjavík: Háskólaúgáfan, 2013.
Guðrún Ingólfsdóttir, Í hverri bók er mannsandi.“ Handritasyrpur — bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna á 18. öld. Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, 2011.
Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins. Samið hefur Páll Eggert Ólason. II. bindi. Reykjavík, 1927, bls. 55.

föstudagur, 16. maí 2014

Kómetur og skilderin

Í böggli ÍB 91 b 4to á handritadeild Landsbókasafns eru varðveitt nokkur sendibréf sem prófasturinn Guðmundur Jónsson á Staðastað á Snæfellsnesi skrifaði syni sínum Þorgeiri Guðmundssyni presti í Danmörku síðasta árið sem hann lifði. Þorgeir er kunnur fyrir útgáfustörf sín í Kaupmannahöfn um 1830 og vann með Þorsteini Helgasyni, eiginmanni Sigríðar Pálsdóttur – sem ég er að skrifa um. Og Guðmundur Jónsson er forfaðir minn í föðurætt.
Guðmundur fæddist árið 1763, gekk í Skálholtsskóla og var skrifari Hannesar Finnssonar biskups. Hann varð prestur og prófastur á Ólafsvöllum á Skeiðum og kvæntist þar fyrstu konu sinni, Þorbjörgu Jónsdóttur (1758–1802). 

Guðmundur þýddi og staðfærði fyrstu barnabókina sem gefin var út á íslensku, Sumar-Giøf handa børnum, sem kom út árið 1795. Sumargjöfin er í anda upplýsingarinnar og er ætlað að upplýsa og uppræta ýmsa hleypidóma en er einnig leiðarvísir um rétta hegðun barna – og kynja. Þar eru til dæmis dæmisögur um stúlkur og konur sem á einhvern hátt brutu gegn viðteknum hefðum samfélagsins og höguðu sér ekki eins og konum sæmir. Það er skemmst frá því að segja að þær steyptu bæði sjálfum sér og sínum nánustu í glötun. Og þar er þessi óleymanlega setning: „Engum ektamanni er þént einúngis með lærdri konu, sem allann daginn situr vid bækur “ (bls. 129).
Séra Guðmundur kom að útgáfu fleiri bóka, skrifaði greinar og athuganir og einhver handrit eða samantektir eftir hann liggja á handritadeild Landsbókasafns.
Guðmundur og Þorbjörg fluttu að Staðastað vorið 1798. Þar dó Þorbjörg árið 1802. Meðal barna þeirra var áðurnefndur Þorgeir og Stefán, sem varð rokkasmiður í Syðri-Tungu í Staðarsveit. Hann átti dótturina Þorbjörgu sem átti soninn Stefán sem undir aldamótin 1900 barnaði Guðnýju vinnukonu sína og úr varð Anna föðuramma mín. Um Guðnýju skrifaði ég hér.
Guðmundur kvæntist öðru sinni Margréti Pálsdóttur (f. 1780). Hún hafði verið stuepige hjá fínasta fólki landsins í Viðey. Þriðja konan hét Ingiríður Arngrímsdóttir (f. 1772) en hún dó eftir nokkurra ára hjónaband, árið 1833. Guðmundur eignaðist að minnsta kosti 16 börn með tveimur fyrstu konunum, þar af tvenna tvíbura með Margréti, sem dó fáeinum dögum eftir að hafa átti þá seinni 1821.
Til eru lýsingar breskra ferðamanna sem komu að Staðastað í tíð Guðmundar.  Enski lávarðurinn Henry Holland kom þangað 28. júní 1810 og sagði um Guðmund að hann væri „virðulegur í framgöngu“ og hefði verið „í kjól [síðfrakka] úr bláu, grófgerðu klæði og með húfu úr sama efni.“ Daginn eftir héldu Englendingarnir áfram vestur undir Jökul í fylgd Guðmundar. Hann var þá klæddur „á líkan hátt og enskur heldri bóndi, og raunar benti allt útlit hans í sömu átt.“ Holland spjallaði við hann á latínu „og kom hann mér fyrir sjónir sem gáfaður maður og sérstaklega vel að sér í öllu, er snerti náttúrfræði, landbúnað og hagfræði föðurlands síns.“
Snæfellsjökull, reyndar ekki eins og hann blasir við frá Staðastað.
 Olíumálverk eftir Emanuel Larsen frá 1847.
Holland segir frá því að á kirkjuhurðinni á Staðastað hafi verið mikill og einkennilegur koparhringur sem átti að vera kominn úr fornum haug þar í sveitinni. Séra Guðmundur hafði enga trú á þeirri sögu og seldi Sir George Mackenzie, einum ferðalanganna, hringinn fyrir þrjá dali. Og gamlar bækur. Mér finnst það vond tilhugsun að þessi lærði forfaðir minn hafi sisona selt forngrip og gamlar bækur úr landi. En kannski samtími hans, nýjungar, framfarir og upplýsing hafi einfaldlega verið honum ofar í huga en fúnar bækur eða forn hringur á kirkjuhurð. 
Fáeinum árum síðar, sumarið 1815, gisti skoski presturinn Ebenezer Henderson hjá séra Guðmundi og skrifað að hann hefði „meiri almenna mentun en venjulegt sje að hitta fyrir hjá íslenzkum prestum“.
En að bréfunum. Guðmundur skrifar Þorgeiri 25. júní 1835 og þakkar bréf og sendingar. Vænst þótti honum greinilega um „skilderí“ (myndir) af börnum Þorgeirs, sem honum leist vel á. Skilderíið hékk nú yfir kommóðunni (dragkistunni) í stofunni og „margur skoðar það, og þykir fallegt.“ Veðrið var ekki með besta móti þessa júnídaga því termómetrið í stofuglugganum stóð í sex til átta gráðum daglega „og er það ekki mikill varmi um þetta leyti.“ Líklega hefur ringt hressilega því Guðmundur hafði ætlað að messa í Miklaholti (í Miklaholtshreppi) næsta sunnudag en sýndist það nú „ekki fært fyrir vatnavöxtum.“
Næsta bréf er skrifað á Höfuðdaginn 29. ágúst 1835 og þá eru það undur alheimsins sem eru viðfangsefnið: 
„Varla gét eg ímindað mér, að sú Kómeta [halastjarna Halleys], sem væntanleg er í haust, eður máské sé þegar komin inní vort Sólar Systema, gjöri þetta að verkum, og vart mun hún gánga svo nærri Jörðunni að hún hafi stóra verkan á hennar Dampahvólfi. Að sönnu veit eg að Astronomi uppástanda, að Pláneturnar hafi Gravitation innbyrðist, er bæði flýti og seinki þeirra gángi, enn ef þessi Kometa, eins og flestar aðrar gengur á milli Jupíter og Mars, þá er gott bil til vorrar Jarðar, svo hún mætti hafa sterkan Dráttarkraft ef hún verkaði stórt á henni. En það eru engar níungar þó loptið bregði til úrkomu, þegar hafís fer frá landinu því það hefur sér opt viðborið, og líka hafa Rigníngasumur innfallið, þó engin hafís hafi komið eður halastjarna sést. Það mun verða bágt, að gjöra Reiðu fyrir þurka- og vætu-árum eptir náttúrunnar hlaupi, eðaur hvarfyrir stundum er kaldara í Suður- enn Norðurlöndunum, sem þó nýlega hefir viðborið. Alar þvílíkar veðurlags breitingar sýnast að vera grundaðar á Náttúrunnar Innrétting, enn þeir hálærðu náttúruskoðendur eru enn ei svo lángt komnir að géta gjört grein fyrir því. Það má þarum segja, sem margt hvað annað: quantum est quod nescimus!“ 
Latínan útleggst eitthvað á þá leið að mikil sé vanþekking okkar. 
Rithönd Guðmundar Jónssonar í bréfi til veleðla og 
háæruverðugrar kvenprýði Valgerðar Jónsdóttur árið 1798. 
Hún var  ekkja Hannesar Finnssonar biskups og mesta 
auðkona Íslands um aldamótin 1800.  
Guðmundur var maður lærdóms og þekkingar og skrifar til dæmis í febrúar 1836 um fyrirætlanir um stofnun bókasafna á Vesturlandi. En svo fór að halla undan fæti því í júlí sama ár er hann hrumur og þjáður af bakverkjum. Spanskflugur (plástrar sem áttu að draga óhreina vessa úr líkamanum) hafa þó aðeins slegið á verkina. Í október hefur gigtin „svo inntekið bakið, síðurnar, lendarnar og lærin, að ég get ei gengið, setið eða legið utan með stórri þvingun, og annar fóturinn orðinn máttlítill.“ Lítil eða engin hvíld er að því að liggja í rúminu. Dropar og áburður frá læknum hafa ekkert hjálpað. Spanskflugurnar draga sem fyrr aðeins úr bakverkjum en Guðmundur hafði nú sent eftir „Hallvarði blóðtökumanni og almúgalækni“ suður í Borgarfirði. Honum „tekst margt furðanlega.“
Vonandi hefur prófasturinn þó getað notið einhvers af því góðgæti sem Þorgeir sendi frá Danmörku. Portvínsflöskurnar höfðu reyndar allar brotnað í ferðinni, krukka sem lá ofan á þeim var of þung, en „hinar“ flöskurnar voru heilar. Hvað sem í þeim var. Og korntunnur. Ein frá tengdaföður Þorgeirs sem Guðmundur þakkar með auðmjúku hjarta. Giftu systkini Þorgeirs, fjölskyldufólkið, naut góðs af.
Hvað skildi mikið af matvöru, bæði nauðsynjum og því sem flokka mætti sem munað, hafa borist til landsins í prívatsendingum? 
Guðmundur prófastur dó 1. desember 1836. Stefán sonur hans í Syðri-Tungu var hjá honum síðustu dagana og las fyrir hann úr Biblíunni „sem þá var hans mesta ánægja“. Banameinið var auðvitað ellin sjálf – gigtin og þrengsli í hálsi.
                                                             Edinborg, Erla Hulda

Af verkum Guðmundar (öðrum en Sumargjöfinni) má nefna Ævisögu Hannesar Finnssonar biskups, sem er í raun ógnarlöng líkræða. 
Helstu heimildir:
Ebenezer Henderson, Ferðabók. Frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814-1815 með vetursetu í Reykjavík. (Reykjavík, 1957), bls. 254.
Henry Holland, Dagbók í Íslandsferð 1810. Íslensk þýðing og skýringar eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum 2. útg. (Reykjavík, 1992), bls. 108-109.
Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár II, bls. 163-164.
Smávegis um ættfræði er hér, í Fréttabréfi ættfræðingafélagsins.

föstudagur, 9. maí 2014

Fjölgun þjóðgarða í Skotlandi?

Skosk náttúra hefur mikið aðdráttarafl á erlenda ferðamenn rétt eins og íslensk náttúra. Skotland minnir að sumu leyti á Ísland, sérstaklega fjöllin, heiðarnar og firðirnir, það sá ég í fjögurra daga ökuferð um Hálöndin (The Highlands) í fyrra sumar. En það er líka ýmislegt sem er ólíkt. Í Hálöndunum eru miklir skógar og aldagamlar minjar sem manni finnst vera partur af landslaginu en þar eru ekki stórir jöklar, sandar, eldfjöll eða hraun. 

Stærsta stöðuvatn Skotlands, Loch Lomond, í Loch Lomond and The Trossachs þjóðgarðinum. - Ljósmynd Arnþór
Í Skotlandi eru tveir þjóðgarðar, Cairngorms og Loch Lomond and The Trossachs, stofnaðir á árunum 2002 og 2003. Þeir ná yfir samtals 6.393 ferkílómetra en Skotland er alls 78.387 ferkílómetrar að flatarmáli. Við ókum í gegnum báða þessa þjóðgarða.
Frá árinu 2010 hafa samtökin Scottish Campaign for National Parks (SCNP) og Association for the Protection of Rural Scotland (APRS) unnið að áætlun um stofnun að minnsta kosti þriggja nýrra þjóðgarða. Samtökin hafa bent sérstaklega á sjö landsvæði í þessu sambandi. Helstu nýmælin í tillögunum felast annars vegar í stofnun þjóðgarða á strandsvæðum, í eyjum og í sjó og hins vegar á skoska Láglendinu (The Lowlands). 

Ferðamenn njóta náttúrufegurðar í Glen Coe dalnum í skosku Hálöndunum sumarið 2013. Ein af tillögunum sem fjallað er um í blogginu gerir ráð fyrir að dalurinn verði innan marka þjóðgarðs.                      - Ljósmynd Arnþór
Nýlega sótti ég fyrirlestur við háskólann í Edinborg þar sem John Mayhew, verkefnisstjóri, kynnti áætlunina og tillögurnar. Mayhew lagði áherslu á að með stofnun nýrra þjóðgarða væri ekki aðeins ætlunin að efla náttúruvernd á viðkomandi svæðum heldur einnig að styrkja byggð þar efnahagslega, meðal annars með því að efla ferðamennsku. Hann benti á að reynslan hefði sýnt að hlutfallslega færra ungt fólk flytur burtu frá byggðarlögum innan Cairngorms þjóðgarðsins (þar búa um 18.000 manns) en gengur og gerist á öðrum dreifbýlum svæðum landsins. Stofnun þjóðgarða hefði nefnilega í för með sér ýmiss konar uppbyggingu, fjárfestingar og ný atvinnutækifæri. Svipuð hugsun var á bak við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, þ.e. að vernda náttúru tiltekins svæðis jafnframt því að styrkja nærliggjandi byggðarlög (sáralítil byggð er innan þjóðgarðsins) með fjölgun ferðamanna og nýjum atvinnutækifærum.
Í máli Mayhews kom fram að skoska heimastjórnin hefði ekki á stefnuskrá sinni að fjölga þjóðgörðum. Það verður því áhugavert að sjá hvort áætlunin sem hann er í forsvari fyrir nær fram að ganga.
Arnþór

Skosku Hálöndin hafa birst í mörgum vinsælum kvikmyndum. Hér er Hogwartslestin á fullri ferð og brúna þekkja allir aðdáendur Harry Potter myndanna. Lestin var troðfull af ferðamönnum þegar hún stoppaði á stöðinni í Glenfinnan. - Ljósmynd Erla Hulda

föstudagur, 2. maí 2014

Landafræði

„Where are you from?“ Þessa spurningu fengum við oft þá þá átta daga sem við dvöldum í Istanbúl fyrir skemmstu. Það voru aðallega sölumenn og veitingamenn á götum úti sem þannig spurðu. Þetta var þeirra leið til að ná í viðskiptavini. Í slíkum tilvikum létum við spurninguna sem vind um eyru þjóta og héldum okkar leið. Þá var stundum kallað: Germany, Denmark, Sweden, British! En þegar við fengum þessa sömu spurningu á meðan við skoðuðum verslunarvarning, spjölluðum við einhvern heimamann eða eftir að hafa keypt eitthvað eða snætt á veitingastað, þá sögðum við auðvitað sem var, að við værum frá Íslandi, „from Iceland“. Viðbrögðin voru oftast þau að spyrjandinn hváði eða ranghvolfdi augunum, hafði greinilega ekki hugmynd um hvaða land við værum að tala og lét gott heita. Sumir spurðu hvar þetta land væri. Þá dugði stundum að segja að það væri partur af Skandinavíu (sem er náttúrlega ekki rétt!). „Is it behind England?“ spurðu fleiri en einn. „Ehh ... yes, yes,“ sögðum við svolítið hikandi (hvað getur maður sagt?). „How many are you?“ spurði einn sölumaður, hann virtist vita eitthvað um Ísland. Þrjúhundruðogþrjátíuþúsund, sögðum við. „That’s nothing,“ sagði hann þá.

Istanbúl er mikil verslunarborg. Engu er líkara en annar hver karlmaður sé með einhvers konar verslunarrekstur á sinni hendi en konur eru minna áberandi í verslunarstörfum. Þessi mynd er tekin á hinum þekkta Grand Bazaar sem rekur uppruna sinn aftur á 15. öld. Þar eru um 4.500 smáverslanir og mikil ös.                            - Ljósmynd Arnþór.

Það getur verið partur af kurteisislegu samtali að vilja staðsetja viðmælandann, spyrja um uppruna hans, svona svipað og þegar Íslendingur spyr: „Hverra manna ert þú?“ En þarna gat hver heimamaðurinn á fætur öðrum ekki staðsett mig út frá svarinu og það kallaði fram svolítið skrýtna tilfinningu, alla vega fyrir ekki víðförlari ferðalang en mig. Undir þessum kringumstæðum fann ég einhvern veginn fyrir smæð Íslands, smáríkis lengst norður í hafi. Skyndilega var maður eiginlega ekki hluti af neinu. Að nefna Skandinavíu var eins konar tilraun til að stækka okkur eða tengjast öðrum en eflaust hefði verið árangursríkara að segja að við værum frá Skotlandi, þar sem við búum núna, eða bara Stóra-Bretlandi. Samt vorum við stödd á slóðum Víkinganna, í sjálfum Miklagarði við Sæviðarsund! En sennilega voru íbúar Istanbúl búnir að gleyma þessum forfeðrum okkar, enda sá ég ekkert sem minnti á þá í borginni. Og varasamt er að fullyrða mikið um landafræðikunnáttu hátt í 20 milljón borgarbúa út frá nokkurra daga viðkynningu. Sjálfsagt er gloppótt landafræði bara eðlileg þegar um er að ræða litla eyþjóð eins og Ísland, örríki á jaðrinum. Hvað vitum við Íslendingar svo sem um smáríki í Kyrrahafi eða Karíbahafi, svo dæmi sé tekið. 

Ekki þurfa allir sölumenn þak yfir höfuðið. Þessi var með mest allt sitt í stresstösku úti á gangstétt og lét sig ekki vanta te, kexköku og sígó.                                                                                                          - Ljósmynd Arnþór.




Á flugvellinum í Istanbúl á leiðinni heim var vel fylgst með farangri og vegabréfum. Á einum stað þar sem starfsfólkið leit á vegabréfin okkar sagðist það aldrei hafa séð svona passa áður og átti við íslensk vegabréf. Það virtist ekki kannast við landið og þau báðu okkur um að sýna sér einhver önnur persónuskilríki. Ég rétti þeim íslenska ökuskírteinið mitt. Eftir að hafa svarað nokkrum spurningum um tilgang ferðarinnar, lengd dvalar o.s.frv. fengum við að halda áfram. Eflaust var þetta gert til að fylgjast með að „óæskilegt fólk“ væri ekki að laumast til Bretlands með flugi. Og allt var þetta á vinsamlegum nótum eins og önnur samskipti okkar við heimamenn, við mættum ekki öðru en góðu viðmóti.
Talandi um landafræði: Síðasta heila daginn okkar í Istanbúl rak ég augun í lítið landakort sem hékk innrammað uppi á vegg í fornbókabúð í Kadiköy-hverfinu, Asíumeginn við sundið. Kortið sýnir Evrópu og er Ísland á sínum stað. Kortatextinn er á tyrknesku en með arabísku letri sem var aflagt í Tyrklandi árið 1928, sagði fornbókasalinn mér, eldri maður sem kunni svolítið í ensku. Hann bætti því við að í yfirskriftinni stæði „Evrópa“, lesið frá hægri til vinstri. Og eitthvað meira stóð þar víst en hann átti í basli með að lesa letrið. Og ekki gat hann lesið nafnið á landinu efst til vinstri þegar ég benti á það, hann þekkti það ekki. Ég sagði honum nafnið á ensku og sagðist vera þaðan. „Oh, you Irish,“ sagði hann þá. „No, Icelander.“ Hann virtist undrandi og spurði hvaða tungumál væri talað á þessu landi. „Icelandic.“ Þá spurði hann hvort það væri skylt ensku. Ég útskýrði að það væri Norðurlandamál og bætti við að við værum afkomendur Víkinga sem hefðu siglt víða um lönd, m.a. alla leið til Istanbúl. Jú, fornbókasalinn hafði heyrt getið um Víkinga, þeir hefðu verið stríðsmenn, en hann vissi ekki að þeir hefðu komið til heimaborgar hans. Ég hafði svolítið gaman af þessu samtali og ákvað að kaupa kortið þótt mér þætti verðið helst til hátt. En mér tókst að ná því niður með því að skilja rammann eftir enda var hann lítið fyrir augað.

Arnþór