Skosk náttúra hefur mikið aðdráttarafl á erlenda ferðamenn rétt eins og
íslensk náttúra. Skotland minnir að sumu leyti á Ísland, sérstaklega fjöllin,
heiðarnar og firðirnir, það sá ég í fjögurra daga ökuferð um Hálöndin (The
Highlands) í fyrra sumar. En það er líka ýmislegt sem er ólíkt. Í Hálöndunum
eru miklir skógar og aldagamlar minjar sem manni finnst vera partur af
landslaginu en þar eru ekki stórir jöklar, sandar, eldfjöll eða hraun.
Stærsta stöðuvatn Skotlands, Loch Lomond, í Loch Lomond and The Trossachs þjóðgarðinum. - Ljósmynd Arnþór |
Í Skotlandi eru tveir þjóðgarðar, Cairngorms og Loch Lomond and The
Trossachs, stofnaðir á árunum 2002 og 2003. Þeir ná yfir samtals 6.393
ferkílómetra en Skotland er alls 78.387 ferkílómetrar að flatarmáli. Við ókum í
gegnum báða þessa þjóðgarða.
Frá árinu 2010 hafa samtökin Scottish Campaign for National Parks
(SCNP) og Association for the Protection of Rural Scotland (APRS) unnið að
áætlun um stofnun að minnsta kosti þriggja nýrra þjóðgarða. Samtökin hafa bent
sérstaklega á sjö landsvæði í þessu sambandi. Helstu nýmælin í tillögunum
felast annars vegar í stofnun þjóðgarða á strandsvæðum, í eyjum og í sjó og
hins vegar á skoska Láglendinu (The Lowlands).
Nýlega sótti ég fyrirlestur við háskólann í Edinborg þar sem John
Mayhew, verkefnisstjóri, kynnti áætlunina og tillögurnar. Mayhew lagði áherslu
á að með stofnun nýrra þjóðgarða væri ekki aðeins ætlunin að efla náttúruvernd
á viðkomandi svæðum heldur einnig að styrkja byggð þar efnahagslega, meðal
annars með því að efla ferðamennsku. Hann benti á að reynslan hefði sýnt að
hlutfallslega færra ungt fólk flytur burtu frá byggðarlögum innan Cairngorms
þjóðgarðsins (þar búa um 18.000 manns) en gengur og gerist á öðrum dreifbýlum
svæðum landsins. Stofnun þjóðgarða hefði nefnilega í för með sér ýmiss konar
uppbyggingu, fjárfestingar og ný atvinnutækifæri. Svipuð hugsun var á bak við
stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, þ.e. að vernda náttúru tiltekins svæðis jafnframt
því að styrkja nærliggjandi byggðarlög (sáralítil byggð er innan þjóðgarðsins)
með fjölgun ferðamanna og nýjum atvinnutækifærum.
Í máli Mayhews kom fram að skoska heimastjórnin hefði ekki á stefnuskrá
sinni að fjölga þjóðgörðum. Það verður því áhugavert að sjá hvort áætlunin sem
hann er í forsvari fyrir nær fram að ganga.
Arnþór