Í böggli ÍB 91 b 4to á handritadeild Landsbókasafns eru varðveitt nokkur sendibréf sem prófasturinn Guðmundur Jónsson á Staðastað á Snæfellsnesi skrifaði syni sínum Þorgeiri Guðmundssyni presti í Danmörku síðasta árið sem hann lifði. Þorgeir er kunnur fyrir útgáfustörf sín í Kaupmannahöfn um 1830 og vann með Þorsteini Helgasyni, eiginmanni Sigríðar Pálsdóttur – sem ég er að skrifa um. Og Guðmundur Jónsson er forfaðir minn í föðurætt.
Guðmundur fæddist árið 1763, gekk í Skálholtsskóla og var skrifari Hannesar Finnssonar biskups. Hann varð prestur og prófastur á Ólafsvöllum á Skeiðum og kvæntist þar fyrstu konu sinni, Þorbjörgu Jónsdóttur (1758–1802).
Guðmundur þýddi og staðfærði fyrstu barnabókina sem gefin var út á íslensku, Sumar-Giøf handa børnum, sem kom út árið 1795. Sumargjöfin er í anda upplýsingarinnar og er ætlað að upplýsa og uppræta ýmsa hleypidóma en er einnig leiðarvísir um rétta hegðun barna – og kynja. Þar eru til dæmis dæmisögur um stúlkur og konur sem á einhvern hátt brutu gegn viðteknum hefðum samfélagsins og höguðu sér ekki eins og konum sæmir. Það er skemmst frá því að segja að þær steyptu bæði sjálfum sér og sínum nánustu í glötun. Og þar er þessi óleymanlega setning: „Engum ektamanni er þént einúngis með lærdri konu, sem allann daginn situr vid bækur “ (bls. 129).
Séra Guðmundur kom að útgáfu fleiri bóka, skrifaði greinar og athuganir og einhver handrit eða samantektir eftir hann liggja á handritadeild Landsbókasafns.
Guðmundur og Þorbjörg fluttu að Staðastað vorið 1798. Þar dó Þorbjörg árið 1802. Meðal barna þeirra var áðurnefndur Þorgeir og Stefán, sem varð rokkasmiður í Syðri-Tungu í Staðarsveit. Hann átti dótturina Þorbjörgu sem átti soninn Stefán sem undir aldamótin 1900 barnaði Guðnýju vinnukonu sína og úr varð Anna föðuramma mín. Um Guðnýju skrifaði ég hér.
Guðmundur kvæntist öðru sinni Margréti Pálsdóttur (f. 1780). Hún hafði verið stuepige hjá fínasta fólki landsins í Viðey. Þriðja konan hét Ingiríður Arngrímsdóttir (f. 1772) en hún dó eftir nokkurra ára hjónaband, árið 1833. Guðmundur eignaðist að minnsta kosti 16 börn með tveimur fyrstu konunum, þar af tvenna tvíbura með Margréti, sem dó fáeinum dögum eftir að hafa átti þá seinni 1821.
Til eru lýsingar breskra ferðamanna sem komu að Staðastað í tíð Guðmundar. Enski lávarðurinn Henry Holland kom þangað 28. júní 1810 og sagði um Guðmund að hann væri „virðulegur í framgöngu“ og hefði verið „í kjól [síðfrakka] úr bláu, grófgerðu klæði og með húfu úr sama efni.“ Daginn eftir héldu Englendingarnir áfram vestur undir Jökul í fylgd Guðmundar. Hann var þá klæddur „á líkan hátt og enskur heldri bóndi, og raunar benti allt útlit hans í sömu átt.“ Holland spjallaði við hann á latínu „og kom hann mér fyrir sjónir sem gáfaður maður og sérstaklega vel að sér í öllu, er snerti náttúrfræði, landbúnað og hagfræði föðurlands síns.“
Snæfellsjökull, reyndar ekki eins og hann blasir við frá Staðastað. Olíumálverk eftir Emanuel Larsen frá 1847. |
Fáeinum árum síðar, sumarið 1815, gisti skoski presturinn Ebenezer Henderson hjá séra Guðmundi og skrifað að hann hefði „meiri almenna mentun en venjulegt sje að hitta fyrir hjá íslenzkum prestum“.
En að bréfunum. Guðmundur skrifar Þorgeiri 25. júní 1835 og þakkar bréf og sendingar. Vænst þótti honum greinilega um „skilderí“ (myndir) af börnum Þorgeirs, sem honum leist vel á. Skilderíið hékk nú yfir kommóðunni (dragkistunni) í stofunni og „margur skoðar það, og þykir fallegt.“ Veðrið var ekki með besta móti þessa júnídaga því termómetrið í stofuglugganum stóð í sex til átta gráðum daglega „og er það ekki mikill varmi um þetta leyti.“ Líklega hefur ringt hressilega því Guðmundur hafði ætlað að messa í Miklaholti (í Miklaholtshreppi) næsta sunnudag en sýndist það nú „ekki fært fyrir vatnavöxtum.“
Næsta bréf er skrifað á Höfuðdaginn 29. ágúst 1835 og þá eru það undur alheimsins sem eru viðfangsefnið:
„Varla gét eg ímindað mér, að sú Kómeta [halastjarna Halleys], sem væntanleg er í haust, eður máské sé þegar komin inní vort Sólar Systema, gjöri þetta að verkum, og vart mun hún gánga svo nærri Jörðunni að hún hafi stóra verkan á hennar Dampahvólfi. Að sönnu veit eg að Astronomi uppástanda, að Pláneturnar hafi Gravitation innbyrðist, er bæði flýti og seinki þeirra gángi, enn ef þessi Kometa, eins og flestar aðrar gengur á milli Jupíter og Mars, þá er gott bil til vorrar Jarðar, svo hún mætti hafa sterkan Dráttarkraft ef hún verkaði stórt á henni. En það eru engar níungar þó loptið bregði til úrkomu, þegar hafís fer frá landinu því það hefur sér opt viðborið, og líka hafa Rigníngasumur innfallið, þó engin hafís hafi komið eður halastjarna sést. Það mun verða bágt, að gjöra Reiðu fyrir þurka- og vætu-árum eptir náttúrunnar hlaupi, eðaur hvarfyrir stundum er kaldara í Suður- enn Norðurlöndunum, sem þó nýlega hefir viðborið. Alar þvílíkar veðurlags breitingar sýnast að vera grundaðar á Náttúrunnar Innrétting, enn þeir hálærðu náttúruskoðendur eru enn ei svo lángt komnir að géta gjört grein fyrir því. Það má þarum segja, sem margt hvað annað: quantum est quod nescimus!“Latínan útleggst eitthvað á þá leið að mikil sé vanþekking okkar.
Rithönd Guðmundar Jónssonar í bréfi til veleðla og
háæruverðugrar kvenprýði Valgerðar Jónsdóttur árið 1798.
Hún var ekkja Hannesar Finnssonar biskups og mesta
auðkona Íslands um aldamótin 1800.
|
Guðmundur var maður lærdóms og þekkingar og skrifar til dæmis í febrúar 1836 um fyrirætlanir um stofnun bókasafna á Vesturlandi. En svo fór að halla undan fæti því í júlí sama ár er hann hrumur og þjáður af bakverkjum. Spanskflugur (plástrar sem áttu að draga óhreina vessa úr líkamanum) hafa þó aðeins slegið á verkina. Í október hefur gigtin „svo inntekið bakið, síðurnar, lendarnar og lærin, að ég get ei gengið, setið eða legið utan með stórri þvingun, og annar fóturinn orðinn máttlítill.“ Lítil eða engin hvíld er að því að liggja í rúminu. Dropar og áburður frá læknum hafa ekkert hjálpað. Spanskflugurnar draga sem fyrr aðeins úr bakverkjum en Guðmundur hafði nú sent eftir „Hallvarði blóðtökumanni og almúgalækni“ suður í Borgarfirði. Honum „tekst margt furðanlega.“
Vonandi hefur prófasturinn þó getað notið einhvers af því góðgæti sem Þorgeir sendi frá Danmörku. Portvínsflöskurnar höfðu reyndar allar brotnað í ferðinni, krukka sem lá ofan á þeim var of þung, en „hinar“ flöskurnar voru heilar. Hvað sem í þeim var. Og korntunnur. Ein frá tengdaföður Þorgeirs sem Guðmundur þakkar með auðmjúku hjarta. Giftu systkini Þorgeirs, fjölskyldufólkið, naut góðs af.
Hvað skildi mikið af matvöru, bæði nauðsynjum og því sem flokka mætti sem munað, hafa borist til landsins í prívatsendingum?
Guðmundur prófastur dó 1. desember 1836. Stefán sonur hans í Syðri-Tungu var hjá honum síðustu dagana og las fyrir hann úr Biblíunni „sem þá var hans mesta ánægja“. Banameinið var auðvitað ellin sjálf – gigtin og þrengsli í hálsi.
Edinborg, Erla Hulda
Af verkum Guðmundar (öðrum en Sumargjöfinni) má nefna Ævisögu Hannesar Finnssonar biskups, sem er í raun ógnarlöng líkræða.
Helstu heimildir:
Ebenezer Henderson, Ferðabók. Frásagnir um ferðalög um þvert og endilangt Ísland árin 1814-1815 með vetursetu í Reykjavík. (Reykjavík, 1957), bls. 254.
Henry Holland, Dagbók í Íslandsferð 1810. Íslensk þýðing og skýringar eftir Steindór Steindórsson frá Hlöðum 2. útg. (Reykjavík, 1992), bls. 108-109.
Páll Eggert Ólason, Íslenskar æviskrár II, bls. 163-164.
Smávegis um ættfræði er hér, í Fréttabréfi ættfræðingafélagsins.
Smávegis um ættfræði er hér, í Fréttabréfi ættfræðingafélagsins.