föstudagur, 27. september 2013

María Skotadrottning


María litla Stuart (Stewart) Skotadrottning skrifaði mömmu sinni bréf árið 1550 þegar hún var aðeins átta ára gömul og flutt frá Skotlandi til Frakklands, trúlofuð krónprinsinum François. Bréfið er örstutt og á frönsku. Þar segir m.a. að kóngurinn hafi skipað franska sendifulltrúa hennar „að segja þér nýjustu fréttir og það kemur í veg fyrir að bréf mitt verði lengra.” Þegar ég las þess orð barnungu drottningarinnar á sýningu hér í Edinborg, og horfði á bréfið í glerkassanum, varð mér hugsað til litlu systranna á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu uppúr 1820 þegar þær (og reyndar líka mamma þeirra og amma) kvörtuðu yfir því í bréfum til bróður síns að hafa ekkert að skrifa um af því einhver annar á heimilinu var búinn að skrifa allar fréttirnar. Þannig gat bréf í raun verið um það að hafa ekkert að segja. En þetta er líka eini snertiflöturinn í lífi drottningarinnar og sýslumannsdætranna íslensku sem lifðu í allt öðrum tíma og rúmi.
María Stuart er þekkt persóna í evrópskri sögu og allar líkur á að hún verði enn þekktari á næstu misserum því nú hafa verið gerðar tvær nýjar bíómyndir um hana (las dóm um aðra þeirra um daginn, þótti hörmung) og Ameríkanar ætla að gera um hana sjónvarpsseríu. Enda líf Maríu dramatískt í meira lagi. Og nú er sýning um líf hennar á National Museum of Scotland, frábær sýning, sem hefur slegið öll aðsóknarmet.
María Skotadrotting prýðir ljósastaura við
National Museum of Scotland  við 
Chambers Street – Ljósm. Erla Hulda  
María var fædd í desember 1542 dóttir Marie de Guise, sem var frönsk aðalskona og James V Skotakonungs. Afi Maríu var James IV sem var skorinn í bita í bardaganum við Flodden 1513. Allt í kringum fæðingu hennar er dramatískt. Þau James og Marie höfðu eignast drengi sem dóu á barnsaldri og enn einn ófriðurinn við Englendinga var í gangi. María fæddist í Linlithgowkastala en pabbi hennar var í Falklandkastala, niðurbrotinn og rúmfastur eftir ósigur í nýlegum bardaga Skota við Englendinga. Sagan segir að þegar honum bárust tíðindin af fæðingu dótturinnar með koparrauða hárið hafi hann snúið sér til veggjar og dáið sex dögum síðar. Þar með varð María drottning Skotlands. Móðir hennar og ráðgjafar fóru auðvitað með völdin í hennar nafni auk þess sem starfandi var þing í Edinborg.
Eins og tíðkaðist á þessum tíma var strax farið að spá í eiginmann fyrir litlu drottninguna og þar lét frændi hennar Hinrik VIII sitt ekki eftir liggja (James pabbi Maríu var systursonur Hinriks) og varð trúlofun Maríu og Edwards, sonar Hinriks, liður í friðarsamningi Skota og Englendinga.  Skotar riftu þessum samningi strax árið eftir. Hinrik varð ekki ánægður og sendi herlið til Skotlands. Þá reyndi í fyrsta skipti á Floddenvegginn sem reistur var utan við Edinborgarkastala 1514. Þessi ófriður hélt áfram árum saman og er nefndur ‘The rough wooing’ eða ‘harkalega biðlunin’. En Skotar gáfu sig ekki og leituðu liðsinnis Frakka með þeim árangri að árið 1548 var María trúlofuð François, krónprinsi Frakklands. Þangað var hún send sex ára gömul og sló í gegn fyrir fegurð og sjarma. Þau prinsinn giftust í apríl 1558 þegar hún var fimmtán ára og hann þrettán ára (f. 1544). Sama ár varð Elísabet I frænka hennar drottning Englands eftir dauða eldri hálfsystur sinnar Maríu Tudor. Frakkar notuðu tækifærið til þess að lýsa því yfir að María Skotadrottning væri réttborin erfingi ensku krúnunnar en ekki Elísabet, sem væri óskilgetin (dóttir Önnu Boleyn, konu númer tvö í röð sex eiginkvenna Hinriks VIII. Þeir sem vilja vita meira  geta skoðað þessa vefsíðu um Tudora). 
Árið 1559 dó Henri II konungur Frakklands, en hann hafði reynst Maríu vel þótt hjónaband hennar og sonar hans auðvitað aðeins enn eitt valdaplottið hjá kóngafólki Evrópu. François varð því konungur (François II) og María drottning Frakklands auk Skotlands. Sumarið 1560 dó mamma hennar, Marie de Guise, í Skotlandi (þar sem átök voru um völd og stjórnarfar) og í desember sama ár dó ungi kóngurinn François, aðeins 16 ára gamall. Við krúnunni tók yngri bróðir hans, Charles IX, en móðir hans, Catherine de Medici (af þeirri frægu ítölsku ætt), fór með völdin. Hún var ekki mjög hrifin af tengdadóttur sinni. 
Eftir allslags spekúlasjónir og leit að nýju vænlegu mannsefni fór María til Skotlands síðla sumars árið 1561 – kom þangað nokkuð óvænt þannig að engin móttökusveit beið hennar þegar hún steig á land í Leith. Stuðningsmenn hennar tóku vel á móti henni en ekki mótmælendapresturinn John Knox sem þá þjónaði við St. Giles kirkjuna sem enn stendur við High Street í Edinburgh (með steindum glugga eftir Leif Breiðfjörð). Knox var andstyggilegur enda með horn í síðu kvenkyns kónga. Hafði skrifað frægan bækling um hræðilegar afleiðingar þess að kona sæti á konungsstóli (The First Blast of the Trumpet Against the Monstrous Regiment of Women, 1558). Sá bæklingur beindist reyndar að frændkonu Maríu og nöfnu, Maríu Tudor, dóttur Hinriks VIII og Katrínar af Aragóníu. María Tudor var drottning Englands í fimm ár og fékk (að ósekju segja sumir) viðurnefnið Blóð-María af því hún gekk harkalega fram gegn mótmælendum.
Frá Frakklandi flutti María ýmis fínheit en alls voru um 14 skip í skipalestinni frá Calais til Leith. Sjálf var hún með helsta fylgdarliði á hvítri galeiðu, önnur galeiða var fyrir þjóna og svo voru 12  kaupskip með ýmsu góssi. Þar á meðal voru 59 kjólar (tveir þeirra úr gulli), sextán stórfenglegar hálsfestar, og fjölmargar perlufestar (María var fræg fyrir síðar perlufestar – ein þeirra var með 530 perlum), tugir fagurra veggteppa og skrautmunir. Aðsetur Maríu Skotadrottningar hér í Edinborg var einkum í Holyrood kastala sem enn í dag er aðsetur drottningar þegar hún heimsækir borgina en einnig í Edinborgarkastala. Þar fæddi hún soninn James 19. júní 1566. Elísabet I frænka hennar á að hafa andvarpað við þær fréttir og sagt: „Drottning Skotlands er léttari af fríðum syni og ég er aðeins ófrjór stofn.“ Drengurinn varð síðar konungur Skotlands sem James VI og jafnframt konungur Englands, sem James I, við dauða Elísabetar 1603.
Nú er ég komin framúr frásögninni því fyrst um sinn stjórnaði María Stuart landi sínu með nokkuð gnaut vinsælda. æddist tsem James IV og jafnframt konungur Englands við dauða ElPfleiri vinum óðum árangri og naut vinsælda. En svo var það þetta með eiginmann og erfingja. Til að gera langa sögu stutta þá tókust heitar ástir með henni og Henry Stewart Darnley lávarði, sem var frændi hennar og þremur árum yngri. Þau giftust sumarið 1565. En það hallaði fljótt undan fæti. Darnley lávarður sýndi öðrum konum og munaðarlífi fullmikinn áhuga og sjálf var María sökuð um að eiga í ástarsambandi við ítalskan hljóðfæraleikara. Í desember 1566 var Darnley svo myrtur í Edinborg. Enn í dag deila menn um hlut drottningarinnar sjálfrar í því morði. 
Baðhús Maríu Skotadrottningar við Holyrood í Edinborg.
Enginn veit reyndar hvort þarna var bað eða til hvers þetta
hús var notað. En það er frá tíma Maríu. – Ljósm. Erla Hulda
Eftir þetta lá leið Maríu niður á við þótt hún ætti enn dygga stuðningsmenn. Hún giftist í þriðja sinn jarlinum af Bothwell sem var jafnframt helsti ráðgjafi hennar. Hörmuleg mistök eru eftirmæli sögunnar. Þessir atburðir hrundu af stað borgarastríði þar sem Bothwell og María biðu lægri hlut. Hann flýði og endaði í dönsku fangelsi en hún var tekin til fanga og komið fyrir í Lochleven kastala sem stendur úti í samnefndu vatni skammt norðan Forth fjarðarins. Þar missti hún fóstur, tvíbura, og var daginn eftir þvinguð til að skrifa undir bréf þar sem hún afsalaði sér krúnunni í hendur syni sínum James, sem var eins árs. Hann var krýndur fimm dögum síðar, 5. júlí 1567 í Stirling kastala. Erkifjandi móður hans og hatursmaður valdskvenna, John Knox, prédikaði við athöfnina.
María Stúart reyndi hvað hún gat að ná völdum aftur. Í maí árið 1568 tókst henni að flýja frá Lochleven, leitaði aðstoðar Elísabetar frændkonu sinnar og hélt af stað niður til Lundúna – aðeins til að verða hneppt í stofufangelsi þegar hún kom yfir landamærin. Það er skemmst frá því að segja að María Skotadrottning var í haldi Englendinga til 8. febrúar 1587 en þá var hún hálshöggvin fyrir drottinsvik – að hafa lagt á ráðin með fjandmönnum Elísabetar I að ráða hana af dögum. Aftakan fór fram í Fotheringhay kastala í Northamptonskíri að viðstöddum fyrirmönnum, vitnum og þernum hennar til margra ára. Þrjú högg þurfti til.
Á sýningunni í National Museum of Scotland eru stórkostlegir munir til sýnis. Húsgögn og gripir frá þessum tíma og úr eigu safna og bresku konungsfjölskyldunnar. Skjöl, málverk og bækur. Skýringatextar eru stuttir og hnitmiðaðir, jafnvægi í gripum, textum og skýringarmyndum. Sagan sem þarna er sögð er mögnuð, ekki aðeins persónusaga Maríu Skotadrottningar, heldur saga þjóðar, saga misskiptingar, saga stríða, valdbeitinga, morða, undirferla, kynlífshneyksla. Og saga spilltrar pólitíkur þar sem hver skarar eld að eigin köku án tillits til heildarhagsmuna. Gömul saga og ný.
 Erla Hulda

laugardagur, 21. september 2013

Aldarminning goðsagnar

Hinn 2. september síðastliðinn var þess minnst að 100 ár voru liðin frá fæðingu Skotans Bill Shanklys en hann er þekktastur fyrir að gera Liverpool að stórveldi í enska fótboltanum. Hann tók við liðinu í næst efstu deild árið 1959, leiddi það upp í efstu deild og undir hans stjórn varð liðið þrisvar enskur meistari, tvisvar bikarmeistari og vann einu sinni Evrópukeppni félagsliða, auk þess að vinna góðgerðarskjöldin fjórum sinnum. Með þessu lagði Shankly grunninn að sigursælasta liði Evrópu en það varð Liverpool eftir að aðstoðarmaður hans, Bob Paisley, tók við stjórninni árið 1974.
Þegar ég byrjaði að fylgjast vel með enska boltanum var Shankly nýhættur sem framkvæmdastjóri (yfirþjálfari) Liverpool. Ég, tíu ára gutti, byrjaði að halda með liðinu aðallega af því að ég hreifst af Kevin Keegan. Hann var stjarnan og skoraði grimmt. Þótt Shankly væri hættur var mikið um hann rætt. Maður skynjaði snemma að hann var goðsögn í lifanda lífi og andi hans hélt áfram að svífa yfir vötnum á heimavelli liðsins, Anfield Road, eftir að hann lést 1981.
Drengir í 4. flokki Fylkis við styttuna af Bill
Shankly fyrir utan Anfield Road sumarið 2004.
Shankley var enginn venjulegur framkvæmdastjóri. Hann var ekki bara sigursæll heldur sterkur persónuleiki sem hafði djúpstæð áhrif á leikmenn sína og var dáður af aðdáendum liðsins. Hann virtist ná betri tengslum við stuðningsmennina en gengur og gerist með menn í hans starfi og átti með því stóran þátt í að skapa magnaða stemmningu á heimavelli liðsins. Þegar Shankly talaði lögðu menn við hlustir og mörg ummæli hans urðu fleyg.
Shankley ólst upp á fátæku heimili í litlum skoskum kolanámubæ, Glenbuck. Þar var knattspyrna í hávegum höfð og heillaðist Shankly ungur af íþróttinni. Eftir að hafa byrjað starfsferilinn í kolanámu varð hann atvinnumaður í knattspyrnu eins og eldri bræður hans fjórir. Shankly þótti mjög frambærilegur knattspyrnumaður, lék m.a. 12 landsleiki fyrir skoska landsliðið áður en ferlinum lauk. Eftir það varð hann framkvæmdastjóri hjá nokkrum enskum liðum, síðast Liverpool.
Shankly var trúr uppruna sínum. Fyrir honum var knattspyrnan íþrótt verkamannsins, afþreying alþýðunnar, og hafði sem slík mikla samfélagslega þýðingu og jafnvel pólitíska merkingu. Með því að leggja sig fram á fótboltavellinum gat einstklingur úr verkamannastétt öðlast frama og virðingu og með því að styðja félagið sitt til sigurs gátu verkamennirnir fundið fyrir samtakamætti sínum. Þetta var löngu áður en auðmenn tóku að kaupa heilu fótboltaliðin og markaðsöflin urðu ráðandi í bransanum.
„Natural enthusiasm, that’s the whole thing. It’s the greatest thing in the world, natural enthusiasm. Yeah. You’re nothing without it,“ sagði Shankly einhverju sinni í viðtali og bætti við. „If a man who’s playing in front of the public, is being well paid, and he doesn’t dedicate himself to the job, I’d be hard on him. If I could I would put him in jail, out of the road of society. Because he’s a menace.“* Shankly leit nefnilega svo á að knattspyrnumaður hefði skyldum að gegna við samfélagið, ekki síst þá lægra settu, hann mátti ekki bregðast þeim. Og menn urðu að vera trúir uppruna sínum. Honum fannst nóg um þegar vel launaðir knattspyrnumenn voru komnir með sundlaug í garðinn sinn, þegar hann var ennþá að þjálfa. „I never saw a bathroom until I left Glenbuck,“ var haft eftir Shankly þegar hann einu sinni sem oftar sagði frá bakgrunni sínum.
Skömmu áður en aldarafmælis Shanklys var minnst kom út skáldsagan Red or Dead eftir enska rithöfundinn David Peace en hún byggir á ævi Shanklys. Þar segir frá litríkum ferli hans hjá Liverpool og síðustu sjö æviárunum en þá upplifði hann tómlæti og höfnun frá félaginu (ekki þó stuðningsmönnum þess) sem skýrist að einhverju leyti af því að menn óttuðust að Shankly yrði of ráðandi ef hann væri í nánum tengslum við liðið. Red or Dead er rúmlega 730 blaðsíðna doðrantur sem hefur fengið blendnar viðtökur, allt frá því að vera hafinn upp til skýjanna sem ljóðrænt stórvirki í anda Hómers til þess að vera lýst sem ruglingslegu offramboði á orðum.
Peace kynnti bókina á árlegri bókahátíð sem haldin er hér í Edinborg í ágúst. Í viðtali við BBC Radio, sem tekið var að því tilefni, sagðist Peace gera sér grein fyrir því að stíllinn væri ekki öllum að skapi og mælti með því að fólk hugsaði sig um tvisvar áður en það keypti bókina! En honum þætti bókin aftur á móti ekki löng, alla vega ekki í samanburði við nýútkomna ævisögu Jack Wilshere, stjörnuleikmanns Arsenal, hún væri næstum 300 blaðsíður, samt væri Wilshere ekki nema tvítugur!
Ein af sálfræðibrellum Shanklys var að láta setja upp þetta
skilti með áletruninni „This is Anfield“ við inngang
leikmanna á völlinn. Skiltinu var ætlað að skjóta
leikmönnum aðkomuliðsins skelk í bringu.
Í síðasta mánuði sagði Scotland on Sunday frá því að Robert Gillan, knattspyrnuþjálfari unglinga, hefði hrundið að stað verkefni undir yfirskriftinni The Banner of Glenbuck. Verkefnið er tvíþætt: Annars vegar að stofna safn í Glenbuck í virðingarskyni við Shankly og aðra þá sem léku með aðalliði staðarins, Glenbuck Cherrypickers, hins vegar að koma þar upp knattspyrnuskóla. Það er reyndar hægara sagt en gert. Með hnignun skoska þungaiðnaðarins upp úr miðri síðustu öld fækkaði íbúum Glenbuck ört og fór bærinn í eyði fyrir mörgum árum. Minnisvarði um Shankly er eitt af því fáa sem ber fyrir augu þeirra sem heimsækja Glenbuck.
Fjölskylda Shanklys styður verkefnið og hefur dagblaðið Scotland on Sunday eftir Karen Gill, barnabarni Shanklys: „No other place of similar size in the world has produced so many professional footballers.“ Þaðan komu nefnilega rúmlega 50 atvinnuknattspyrnumenn. En Glenbuck hefur líka táknræna merkingu, minnir á að margir skoskir atvinnumenn í knattspyrnu eiga rætur sínar að rekja til kolanámubæja og einnig þá áherslu sem Shankly lagði á að menn væru trúir uppruna sínum. Það viðhorf á fullan rétt á sér ennþá því margir þeirra knattspyrnumanna sem eru í sviðsljósinu núna koma úr lægri stéttum samfélagsins, sumir aldir upp við erfiðar aðstæður og fátækt.
Arnþór

 * Í lauslegri þýðingu: „Eðlislægur eldmóður, það er allt sem máli skiptir. Það er það mikilvægasta í veröldinni, eðlislægur eldmóður. Já, þú ert ekkert án þess. Ef maður sem leikur frammi fyrir fólkinu, þénar vel og leggur sig ekki fram, þá tæki ég hart á honum. Ef ég gæti, þá léti ég hann dúsa í fangelsi, utan við samfélagið, vegna þess að hann er plága.“

fimmtudagur, 12. september 2013

Fjandinn í Edinborg eða leitin að sýslumanninum


Árið 1811 dó í Leith í Skotlandi sýslumaðurinn fyrrverandi og auðmaðurinn Guðmundur Pétursson frá Krossavík í Vopnafirði. Hann þótti harðdrægur sýslumaður, gekk að sögn vasklega fram í innheimtu sakeyris. Enda sögðu sveitungarnir í Vopnafirði að „andskotinn hefði sótt [Guðmund] í eigin persónu um nótt úti í Edinborg á Skotlandi. Þar hafði hann horfið með leynd, og það er enginn efi á því, að sá sótti sem átti.“ (Benedikt Gíslason. Páll Ólafsson skáld, 25.)
Guðmundur Pétursson var sýslumaður Norður-Múlasýslu frá 1786 (1772 sem aðstoðarmaður föður síns) til ársins 1807 þegar hann lét embættið af hendi til Páls sonar síns og hélt utan í kaupmennsku. Páll varð þar með fjórði ættliðurinn í beinan karllegg til að gegna embættinu. Eitt barna Páls var Sigríður, fædd árið 1809, dáin 1871. Hún skrifaði bróður sínum um 250 sendibréf um ævina og hefur verið rannsóknarefni mitt síðustu misseri. Það liggur því beint við, þar sem ég bý um þessar mundir í Edinborg, að gera Guðmund að svolítilli hliðarrannsókn, einskonar kryddi í annarri sögu. Um leið eru frásagnir af lífi hans og dauða, og leitin að „sannleikanum“, lýsandi fyrir þá fortíð sem sagnfræðingurinn glímir við. Misvísandi frásagnir sem rekast hver á aðra.
Sextándu aldar legsteinar í North Leith kirkjugarðinum á 
bökkum  Leith ár (Water of Leith).  - Ljósmynd Erla Hulda
Guðmundur í Krossavík var fæddur árið 1748. Hann var við nám í Kaupmannahöfn eins og faðir hans áður og til er á Þjóðminjasafni óskaplega falleg minningartafla sem Pétur Þorsteinsson faðir hans lét gera um sjálfan sig og fjölskylduna; þar sést Guðmundur ungur maður (19 ára) í tískuklæðnaði þess tíma, hnébuxum og vesti, í silkisokkum og rauðum „flauelskjól“ eins og þessir dýrindis síðu frakkar, sem við sjáum aðallega í bíómyndum núna, voru kallaðir (sjá um minningartöfluna og fötin í Æsa Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla, 54–56).
Guðmundur var tvíkvæntur og þessi fjölskyldumál eru svo flókin að ég hef búið mér til uppdrátt af tengslanetum og innbyrðis giftingum. En í stuttu máli var fyrri kona hans var Þórunn Pálsdóttir, þau voru systkinabörn. Hún var amma Sigríður „minnar”. Seinni kona hans var Þórunn Guttormsdóttir og var hún jafnframt systurdóttir hans, tuttugu árum yngri. Vegna skyldleikans þurfti konungsleyfi til giftingarinnar.
Þegar Guðmundur Pétursson lét af embætti og fór utan var það í fimmta sinn sem hann sigldi, og það þótti saga til næsta bæjar. Hann fór með Vopnafjarðarskipi áleiðis til Danmerkur sumarið 1807 en skipið hraktist til Noregs. Þaðan hélt Guðmundur um Jótland til Kaupmannahafnar og kom þangað 3. apríl 1808. Magnús Stephensen dómstjóri var þá staddur í borginni og greinir frá komu Guðmundar í dagbók sinni.
Guðmundur dvaldi í Kaupmannahöfn til 1810, við „lærdómslistir” segir í Sýslumannaæfum Boga á Staðarfelli, en þá fór hann til Leith í Skotlandi og var þar 1810–1811. Leith og Edinborg voru ekki samvaxnar þá eins og í dag en nátengdar og Leith hafnarborg með iðandi mannlífi og blómstrandi viðskiptum. Kaupskip frá Vestur-Indíum lögðust þar að bryggju og úr þeim var skipað trjám til bygginga, indigo, rommi, og sykri. Frá Frakklandi, Spáni og Portúgal bárust vín og koníak, appelsínur og sítrónur. Og svo framvegis. Vörur alls staðar að úr Evrópu. Og þar stöldruðu við hvalveiðiskip á leið til Grænlands (skemmtilegar lýsingar á Edinborg og Leith með augum ferðamanna á ýmsum tímum má sjá í A Traveller’s Companion to Edinburgh). Steinsnar frá Leith var svo Edinborg, uppfull af menningu og menntun. Borgin var að þenjast út, ekki upp í loft eins og áður fyrr þegar menn hikuðu við að byggja of mikið utan öryggis borgarmúranna og byggðu þess í stað nýja hæð ofan á miðaldabyggingarnar í ‘Old Town’. Nýja hverfið ‘New Town’ liggur norðan við gamla bæinn og kastalann, er arfleifð Upplýsingarinnar og endurspeglar þörfina fyrir meira rými og skipulag, ferskt loft, garða og torg. Götur eins Princes Street, George Street og Queen Street. Búið var að þurrka upp mýrarflákann og Loch North á milli hverfanna þar sem nú eru Princes Street Gardens og Waverly lestarstöðin. North Bridge tengdi gamla bæinn og nýja, einnig The Mound, nokkurs konar jarðvegsbrú úr uppgreftri bygginganna í New Town, sem liggur frá þröngum götum og göngum gamla bæjarins (Lawnmarket) yfir í nýja hlutann. 
Betri borgarar fóru í spássitúra síðdegis eftir Princes Street og sýndu sig og sáu aðra. Í Sýslumannaæfum er því haldið fram að Guðmundur hafi eignast „málsmetandi“ menn að vinum og því má gera ráð fyrir að hann hafi borist með iðandi mannhafinu um Princes Street, eða setið í vagni, og virt fyrir sér prúðbúnar konur með sólhlífar, vel klædda karla og auðvitað kastalann sem gnæfir yfir öllu með voldugum virkisveggjum. Fína fólkið hittist líka í kvöldveislum þar sem núorðið var meira lagt upp úr gáfulegum samræðum en áti og drykkju. Meðal gesta í slíkum boðum var skáldið Sir Walter Scott. Hver veit nema þeir hafi tekið tal saman í boði sýslumaðurinn frá Íslandi og rithöfundurinn frægi.
Sumarið 1811 „reisti [Guðmundur] til Lundúnaborgar” meðan hann beið eftir Íslandsskipum. Hann kom aftur upp til Leith/Edinborgar og tók þar sótt eftir því sem segir í Sýslumannaæfum og dó 12. ágúst. Því er bætt við að „sumir“ segi að hann hafi fótbrotnað og átt við ýmis óþægindi að etja í þessari dvöl sinni ytra. Í Íslenskum æviskrám er fullyrt að Guðmundur hafi fótbrotnað og dáið í Leith. Samkvæmt Sýslumannaæfum sáu nýju vinirnir hans til þess að hann fengi sómasamlega útför. Sótt, fótbrot eða jafnvel fjandinn sjálfur. Nú þurfti að kanna hvort hægt væri að finna Guðmund hér í Edinborg og þá dugar ekkert gúggl í tölvu.
Fyrsti viðkomustaður var National Library of Scotland, handritadeild. Þar leitaði ég að Guðmundi í ýmiss konar skrám án árangurs. Satt að segja hafði mig dreymt um að upp úr krafsinu kæmi böggull sem enginn hefði skoðað og í leyndust síðustu reitur Guðmundar. Dæmigerður sagnfræðingsdraumur. Næst var að leita í kirkjubókum, sem var auðvitað svolítið erfitt því ég hafði ekki hugmynd um í hvaða sókn Guðmundur hefði dáið. Hvað þá hvernig nafnið væri stafsett. En eins og svo oft áður kom hér í ljós hvað góðir skjalaverðir eru ómetanlegir hverju safni og hverjum fræðimanni. Á National Records of Scotland (tignarlegt hús við austurenda Princes Street, eitt þeirra sem var risið þegar Guðmundur var hér) bar ég erindi mitt upp við Robin Urquhart, sem er íslenskum skjalavörðum að góðu kunnur. Hann eyddi klukkustundum ef ekki dögum í leit áður en ég kom á fund hans og hann dró upp úr pússi sínu útskrift úr kirkjubók í Norður-Leith. Þar má sjá eftirfarandi færslu fyrir jarðarfarir árið 1811: „Paterson. Geordan a Danish Magistrate of Iceland died the 6th [&] was buried the 9th of August. E. 80. S. 57.” Eða, Paterson, Geordan, danskt yfirvald frá Íslandi dáinn 6. ágúst en jarðaður 9. Undir liðnum „Disorder”, sem vísar til dánarmeins stendur „Broken Leg”. Aldur 65 ára. Bókstafirnir og tölurnar vísa til grafreitsins í North-Leith Cemetery. 
Kirkjubókin góða. Geordan Paterson, dáinn af fótbroti árið 1811. 
Hér var hann kominn, Guðmundur Pétursson sýslumaður. Dáinn af fótbroti. Aldurinn passar. Og nöfnin, sagði Robin Urquhart, væru dæmigerð fyrir það sem þá tíðkaðist, að reyna að búa til skosk nöfn á útlendinga. Auðvitað hafa þeir ekki getað sagt Guðmundur og Paterson er algengari útlegging hér en Petersen uppá danskan máta. Og danskur eða íslenskur. Í Skotlandi hefur það ekki skipt máli. Kannski var jafnvel betra að vera danskur. Fleiri upplýsingar um Guðmund var ekki að finna á National Records. Tilfinningasamur sagnfræðingurinn komst næstum við yfir þessari færslu og fékk hjartslátt þegar Robin upplýsti að þessi kirkjugarður væri enn til. Honum væri að vísu skammarlega illa sinnt en þarna væri hann.
Nú var ekkert annað að gera en skipuleggja ferð í kirkjugarðinn. Það var svo um miðjan maí síðastliðinn, á björtum en svölum vordegi, sem við Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur lögðum af stað í leit að kirkjugarðinum vopnaðar korti, ljósriti úr sýslumannsæfum, myndavél og brjóstbirtu. Hrefna var þá í rannsóknarferð hér í Edinborg (og Orkneyjum og Hjaltlandseyjum). Og það sem meira er, hún hafði líka mikinn áhuga á að hitta sýslumanninn Guðmund, enda Pétur Þorsteinsson pabbi hans einn þeirra manna sem unnu að framgangi Innréttinganna á Íslandi (Austurlandi) á síðari hluta 18. aldar. Og Pétur var líka einn þeirra efnamanna sem pöntuðu sér fínerí á borð við rauðvín, romm og rauða pelsa frá útlöndum í miðjum Móðuharðindum og Hrefna skrifaði um stórmerkilega grein í tímaritið Sögu á síðasta ári (Saga L:2 2012). En allavega, leiðin var greið í kirkjugarðinn sem reyndist vera niður undir gamla hafnarsvæðinu við Leith ána. Lítill og aðþrengur, eins og lágur hóll milli árinnar, nýlegra bygginga, bílastæða og umferðargötu. 
Hér í North Leith kirkjugarðurinn var Guðmundur
Pétursson lagður til hinstu hvílu 9. ágúst 1811. 
                                                                        Ljósmynd Arnþór

Garður með legsteinum frá sextándu öld og ekkert virðist gert til að halda honum við. Brotnir legsteinar og minnismerki lágu upp við húsvegg – hafa líklega brotnað við rask við framkvæmdir við íbúðarhús sem stendur eiginlega ofan í garðinum. Við gengum milli legsteina og lásum allar læsilegar áletranir en fundum ekki sýslumanninn okkar – og ekkert skilti var að finna sem gæti sagt okkur hvar nákvæmlega E. 80. S. 57 væri að finna. En þegar upp var staðið skipti það ekki öllu máli. Við vissum nokkurn veginn hvar Guðmundur væri niðurkominn. Við skáluðum fyrir karli í mildri maísólinni, fannst það við hæfi því hann var sagður „hávaðasamur drykkjumaður“, og lásum upphátt úr Sýslumannaæfum.
Og hver veit nema fleiri upplýsingar komi upp úr krafsinu síðar því leitin heldur áfram. Á handritadeild Edinburgh University Library skoðaði ég sjúkraskrár, eða innritunarbók elsta sjúkrahússins hér, Royal Infirmary, frá 1811 í þeirri von að finna nafn Guðmundar. Þar var hann ekki (fletti þrisvar í gegn!) og hefur því líklega dáið í heimahúsi. Enn á ég eftir að fara á City Archives og kanna hvort það sjáist á skrám hver borgaði fyrir grafreitinn hans og fletta í blöðum á City Library ef getið væri um fótbrot og dauða Geordie Paterson eða Guðmundar ríka eins og Sigríður sonardóttir hans kallaði hann í bréfi áratugum síðar. 
                                                                                    Erla Hulda

mánudagur, 9. september 2013

Flodden 1513 – 2013. Sögulegt og pólitísk mikilvægi stóratburða


Í dag eru 500 ár liðin frá einni blóðugustu orrustu sem háð hefur verið á Bretlandseyjum, orrustunni við Flodden. Þar áttust við erkifjendurnir Englendingar og Skotar. James IV, konungur Skota, ákvað að ráðst á Englendinga og styðja þannig Frakka sem áttu í stríði við enska herinn. Með þessu rauf James IV friðarsáttmála sem hann hafði gert við tengdaföður sinn, Henry VII, konung Englands, árið 1502.
James IV fór sjálfur fyrir um 30.000 manna her sem mætti um 26.000 manna ensku liði við Flodden, skammt sunnan landamæranna. Skotarnir tóku sér stöðu uppi á hæð og hófu þaðan stórskotahríð með fallbyssum en flest skotin geiguðu því skytturnar voru illa þjálfaðar. Þá gerðu Skotar áhlaup niður brekkuna vopnaðir 15 feta löngum og klunnalegum tréspjótum en mættu þá í návígi vel þjálfuðum Englendingum vopnuðum 5 feta löngum og meðfærilegum atgeirum (spjótum með axarblaði). Englendingar brytjuðu nágranna sína niður og áður en yfir lauk höfðu Skotar misst um 10.000 menn, þar á meðal sjálfan konunginn og fjölda aðalsmanna. Mannfall í liði Englendinga var um það bil helmingi minna.
Ósigurinn var Skotum gríðarlegt áfall. Flestar fjölskyldur í landinu misstu einhvern sér nákominn og í stuttu máli sagt náði konungsríkið aldrei fyrri styrk aftur, hvorki hernaðarlegum né pólitískum, en fyrir orrustuna hafði Skotland talsverð ítök á pólitísku skákborði Evrópu. Í vissum skilningi markaði ósigurinn upphafið að endalokum skoska konungsdæmisins og þar með samruna við England. Þrátt fyrir þetta er orrustan við Flodden ekki vel þekkt utan Bretlands, jafnvel í Englandi er hún ekki sérlega kunn. Og nú ber svo við að skoska heimastjórnin gerir lítið sem ekkert til að minnast atburðarins á 500 ára tímamótunum. Aftur á móti er mikið látið með aðra afdrifaríka orrustu sem Skotar háðu við Englendinga, nánar tiltekið við Bannockburn árið 1314 þar sem Skotar með Robert the Bruce í fararbroddi unnu frækinn sigur. Í ferðahandbók um Skotland, sem ég keypti fyrir tæpum áratug, segir um þessa orrustu: „The Battle of Bannockburn represented such a humiliating defeat for the arch enemy that it has become a symbol of Scottish independence.“ (Berndt Müller, Scotland. Insight Compact Guide. 2. útg. 2002, bls. 56.) Hins vegar er ekkert er minnst á Flodden í bókinni. Ég minnist þess reyndar ekki að hafa heyrt getið um Flodden fyrr en ég rakst á grein um orrustuna í Scotland on Sunday (sunnudagsútgáfu The Scotsman) 18. ágúst síðastliðinn. Greinarhöfundurinn, Alex Massie, blaðamaður, segir að um aldir hafi Flodden og Bannockburn kallast á í skoskri sögu, enda tvær hliðar á sama peningi. Nú ber svo við að heimastjórnin ætli að minnast sigursins við Bannockburn með veglegum hætti í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna í september 2014 þar sem Skotar greiða atkvæði um það hvort þeir vilji segja skilið við England/Bretland og stofna sjálfstætt ríki. Massie bendir á að á sama tíma taki heimastjórnin ekki þátt í að halda minningu ósigursins við Flodden á lofti. (Sambærilega gagnrýni má lesa í grein í The Observer, bls. 19, 1. september sl.) Þetta finnst Massie óeðlilegt og nefnir að fyrir skömmu hafi Michael Moor, utanríkisráðherra Skotlands og það sem meira er, þingmaður fyrir byggðarlög í Suður-Skotlandi, sagt um Flodden: „Við heyrum bergmál atburðanna í söngvum okkar, ljóðum og sögum.“ Massie bendir á að þarna, nærri landamærunum, hafi minningin um orrustuna lifað í vitund íbúanna þegar þess var minnst snemma á síðustu öld að 400 ár voru liðin frá orrustunni. Og í Selkirk, heimabæ Massie, er þess minnst árlega þegar eini heimamaðurinn sem lifði orrustuna af sneri aftur til síns heima. Frá Selkirk höfðu farið áttatíu menn og þegar þessi eini, Fletcher, skjögraði eftir aðalgötunni með gunnfánann á lofti, var hann svo yfirkominn af harmi að hann gat ekki komið upp orði heldur vafði hann fánanum um sig en lét hann svo síga til jarðar í þögulli virðingu við fallna félaga sína. Heimkoma Fletchers er sviðsett á hverju ári í Selkirk þegar orrustunnar er minnst. „Og þegar lúðrasveitin leikur The Flowers Of The Forest í þann mund sem fáninn sígur til jarðar, þá get ég svarið að fólk skynjar söguna. Þetta er gamall siður þar sem minning og missir blandast saman við stolt og eins konar ögrun. Við erum hérna ennþá og við munum ennþá“, skrifar Massie.
Enn má sjá minjar um svokallaðan Flodden Wall sunnan við
Edinborgarkastala. Þessi varnarmúr var reistur árin 1513-14
í kjölfar orustunnar við Flodden en þá óttuðust borgarbúar
innrás Englendinga. - Ljósmynd Arnþór.
Orrustan við Flodden hafði á sínum tíma ekki aðeins djúpstæð áhrif í Selkirk heldur í Skotlandi öllu, sama hvort mælt er í mannfalli, þjóðarstolti eða á pólitískum vettvangi. Arfleifð Flodden er þess vegna síður en svo einföld fyrir Skota. Hún er annað og meira en ein töpuð orrusta, þetta er á margan hátt óþægilegur atburður með flókna atburðarás bæði í aðdraganda og eftirmála. Þannig er það oft með stóratburði og þess vegna verður að teljast vafasamt þegar ríkjandi stjórnvöld (hvaða ríkis sem er) gera lítið sem ekkert til að minnast atburða á borð við tapaðar orrustur á sama tíma og þau leggja kapp á að minnast annarra atburða, svo sem sigra á vígvellinum, af því að það hentar þeirra málstað betur. Ósigrar og niðurlæging geta markað djúp spor í „þjóðarsálina“ og slíkir atburðir eru ekki síður mikilvægir til skilnings á sögulegu samhengi en sigrar. 
Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga skoskra stjórnvalda verður samt eitt og annað gert til að minnast orrustunnar við Flodden. Meðal annars hafa aðilar í Skotlandi og Englandi tekið höndum saman og stofnað svokallað „ecomuseum“ um orrustuna, þ.e. sameiginlegan vettvang þar sem atburðarins er minnst á ýmsan hátt (http://www.flodden1513.com).
Arnþór