María litla Stuart (Stewart) Skotadrottning skrifaði mömmu
sinni bréf árið 1550 þegar hún var aðeins átta ára gömul og flutt frá Skotlandi
til Frakklands, trúlofuð krónprinsinum François. Bréfið er örstutt og á
frönsku. Þar segir m.a. að kóngurinn hafi skipað franska sendifulltrúa hennar „að
segja þér nýjustu fréttir og það kemur í veg fyrir að bréf mitt verði lengra.”
Þegar ég las þess orð barnungu drottningarinnar á sýningu hér í Edinborg, og
horfði á bréfið í glerkassanum, varð mér hugsað til litlu systranna á
Hallfreðarstöðum í Hróarstungu uppúr 1820 þegar þær (og reyndar líka mamma
þeirra og amma) kvörtuðu yfir því í bréfum til bróður síns að hafa ekkert að
skrifa um af því einhver annar á heimilinu var búinn að skrifa allar
fréttirnar. Þannig gat bréf í raun verið um það að hafa ekkert að segja. En
þetta er líka eini snertiflöturinn í lífi drottningarinnar og
sýslumannsdætranna íslensku sem lifðu í allt öðrum tíma og rúmi.
María Stuart er þekkt persóna í evrópskri sögu og allar
líkur á að hún verði enn þekktari á næstu misserum því nú hafa verið gerðar
tvær nýjar bíómyndir um hana (las dóm um aðra þeirra um daginn, þótti hörmung)
og Ameríkanar ætla að gera um hana sjónvarpsseríu. Enda líf Maríu dramatískt í
meira lagi. Og nú er sýning um líf hennar á National Museum of Scotland, frábær
sýning, sem hefur slegið öll aðsóknarmet.
María Skotadrotting prýðir ljósastaura við
National Museum of Scotland við
Chambers Street – Ljósm. Erla Hulda
|
María var fædd í desember 1542 dóttir Marie de Guise, sem
var frönsk aðalskona og James V Skotakonungs. Afi Maríu var James IV sem var
skorinn í bita í bardaganum við Flodden 1513. Allt í kringum fæðingu hennar er
dramatískt. Þau James og Marie höfðu eignast drengi sem dóu á barnsaldri og enn
einn ófriðurinn við Englendinga var í gangi. María fæddist í Linlithgowkastala en
pabbi hennar var í Falklandkastala, niðurbrotinn og rúmfastur eftir ósigur í
nýlegum bardaga Skota við Englendinga. Sagan segir að þegar honum bárust
tíðindin af fæðingu dótturinnar með koparrauða hárið hafi hann snúið sér til
veggjar og dáið sex dögum síðar. Þar með varð María drottning Skotlands. Móðir
hennar og ráðgjafar fóru auðvitað með völdin í hennar nafni auk þess sem
starfandi var þing í Edinborg.
Eins og tíðkaðist á þessum tíma var strax farið að spá í
eiginmann fyrir litlu drottninguna og þar lét frændi hennar Hinrik VIII sitt
ekki eftir liggja (James pabbi Maríu var systursonur Hinriks) og varð trúlofun
Maríu og Edwards, sonar Hinriks, liður í friðarsamningi Skota og
Englendinga. Skotar riftu þessum
samningi strax árið eftir. Hinrik varð ekki ánægður og sendi herlið til
Skotlands. Þá reyndi í fyrsta skipti á Floddenvegginn sem reistur var utan við
Edinborgarkastala 1514. Þessi ófriður hélt áfram árum saman og er nefndur ‘The
rough wooing’ eða ‘harkalega biðlunin’. En Skotar gáfu sig ekki og leituðu liðsinnis
Frakka með þeim árangri að árið 1548 var María trúlofuð François, krónprinsi Frakklands.
Þangað var hún send sex ára gömul og sló í gegn fyrir fegurð og sjarma. Þau
prinsinn giftust í apríl 1558 þegar hún var fimmtán ára og hann þrettán ára (f.
1544). Sama ár varð Elísabet I frænka hennar drottning Englands eftir dauða
eldri hálfsystur sinnar Maríu Tudor. Frakkar notuðu tækifærið til þess að lýsa
því yfir að María Skotadrottning væri réttborin erfingi ensku krúnunnar en ekki
Elísabet, sem væri óskilgetin (dóttir Önnu Boleyn, konu númer tvö í röð sex
eiginkvenna Hinriks VIII. Þeir sem vilja vita meira geta skoðað þessa vefsíðu um Tudora).
Árið 1559 dó Henri II konungur Frakklands, en hann hafði
reynst Maríu vel þótt hjónaband hennar og sonar hans auðvitað aðeins enn eitt
valdaplottið hjá kóngafólki Evrópu. François varð því konungur (François II) og
María drottning Frakklands auk Skotlands. Sumarið 1560 dó mamma hennar, Marie
de Guise, í Skotlandi (þar sem átök voru um völd og stjórnarfar) og í desember
sama ár dó ungi kóngurinn François, aðeins 16 ára gamall. Við krúnunni tók
yngri bróðir hans, Charles IX, en móðir hans, Catherine de Medici (af þeirri
frægu ítölsku ætt), fór með völdin. Hún var ekki mjög hrifin af tengdadóttur
sinni.
Eftir allslags spekúlasjónir og leit að nýju vænlegu
mannsefni fór María til Skotlands síðla sumars árið 1561 – kom þangað nokkuð
óvænt þannig að engin móttökusveit beið hennar þegar hún steig á land í Leith.
Stuðningsmenn hennar tóku vel á móti henni en ekki mótmælendapresturinn John
Knox sem þá þjónaði við St. Giles kirkjuna sem enn stendur við High Street í
Edinburgh (með steindum glugga eftir Leif Breiðfjörð). Knox var andstyggilegur
enda með horn í síðu kvenkyns kónga. Hafði skrifað frægan bækling um hræðilegar
afleiðingar þess að kona sæti á konungsstóli (The First Blast of the Trumpet Against the Monstrous Regiment of Women, 1558). Sá bæklingur beindist reyndar að frændkonu Maríu og nöfnu, Maríu Tudor, dóttur Hinriks VIII og Katrínar af Aragóníu. María Tudor var drottning
Englands í fimm ár og fékk (að ósekju segja sumir) viðurnefnið Blóð-María af
því hún gekk harkalega fram gegn mótmælendum.
Frá Frakklandi flutti María ýmis fínheit en alls voru um 14
skip í skipalestinni frá Calais til Leith. Sjálf var hún með helsta fylgdarliði
á hvítri galeiðu, önnur galeiða var fyrir þjóna og svo voru 12 kaupskip með ýmsu góssi. Þar á meðal voru 59
kjólar (tveir þeirra úr gulli), sextán stórfenglegar hálsfestar, og fjölmargar
perlufestar (María var fræg fyrir síðar perlufestar – ein þeirra var með 530
perlum), tugir fagurra veggteppa og skrautmunir. Aðsetur Maríu Skotadrottningar
hér í Edinborg var einkum í Holyrood kastala sem enn í dag er aðsetur
drottningar þegar hún heimsækir borgina en einnig í Edinborgarkastala. Þar
fæddi hún soninn James 19. júní 1566. Elísabet I frænka hennar á að hafa
andvarpað við þær fréttir og sagt: „Drottning Skotlands er léttari af fríðum
syni og ég er aðeins ófrjór stofn.“ Drengurinn varð síðar konungur Skotlands
sem James VI og jafnframt konungur Englands, sem James I, við dauða Elísabetar
1603.
Nú er ég komin framúr frásögninni því fyrst um sinn stjórnaði
María Stuart landi sínu með nokkuð g
óðum árangri og naut vinsælda. En svo var það þetta með
eiginmann og erfingja. Til að gera langa sögu stutta þá tókust heitar ástir með
henni og Henry Stewart Darnley lávarði, sem var frændi hennar og þremur árum
yngri. Þau giftust sumarið 1565. En það hallaði fljótt undan fæti. Darnley lávarður
sýndi öðrum konum og munaðarlífi fullmikinn áhuga og sjálf var María sökuð um
að eiga í ástarsambandi við ítalskan hljóðfæraleikara. Í desember 1566 var
Darnley svo myrtur í Edinborg. Enn í dag deila menn um hlut drottningarinnar
sjálfrar í því morði.
Baðhús Maríu Skotadrottningar við Holyrood í Edinborg. Enginn veit reyndar hvort þarna var bað eða til hvers þetta hús var notað. En það er frá tíma Maríu. – Ljósm. Erla Hulda |
Eftir þetta lá leið Maríu niður á við þótt hún ætti enn dygga stuðningsmenn.
Hún giftist í þriðja sinn jarlinum af Bothwell sem var jafnframt helsti
ráðgjafi hennar. Hörmuleg mistök eru eftirmæli sögunnar. Þessir atburðir hrundu
af stað borgarastríði þar sem Bothwell og María biðu lægri hlut. Hann flýði og
endaði í dönsku fangelsi en hún var tekin til fanga og komið fyrir í Lochleven
kastala sem stendur úti í samnefndu vatni skammt norðan Forth fjarðarins. Þar
missti hún fóstur, tvíbura, og var daginn eftir þvinguð til að skrifa undir
bréf þar sem hún afsalaði sér krúnunni í hendur syni sínum James, sem var eins
árs. Hann var krýndur fimm dögum síðar, 5. júlí 1567 í Stirling kastala.
Erkifjandi móður hans og hatursmaður valdskvenna, John Knox, prédikaði við
athöfnina.
María Stúart reyndi hvað hún gat að ná völdum aftur. Í maí
árið 1568 tókst henni að flýja frá Lochleven, leitaði aðstoðar Elísabetar
frændkonu sinnar og hélt af stað niður til Lundúna – aðeins til að verða hneppt
í stofufangelsi þegar hún kom yfir landamærin. Það er skemmst frá því að segja
að María Skotadrottning var í haldi Englendinga til 8. febrúar 1587 en þá var
hún hálshöggvin fyrir drottinsvik – að hafa lagt á ráðin með fjandmönnum
Elísabetar I að ráða hana af dögum. Aftakan fór fram í Fotheringhay kastala í
Northamptonskíri að viðstöddum fyrirmönnum, vitnum og þernum hennar til margra
ára. Þrjú högg þurfti til.
Á sýningunni í National Museum of Scotland eru
stórkostlegir munir til sýnis. Húsgögn og gripir frá þessum tíma og úr eigu
safna og bresku konungsfjölskyldunnar. Skjöl, málverk og bækur. Skýringatextar
eru stuttir og hnitmiðaðir, jafnvægi í gripum, textum og skýringarmyndum. Sagan
sem þarna er sögð er mögnuð, ekki aðeins persónusaga Maríu Skotadrottningar,
heldur saga þjóðar, saga misskiptingar, saga stríða, valdbeitinga, morða,
undirferla, kynlífshneyksla. Og saga spilltrar pólitíkur þar sem hver skarar
eld að eigin köku án tillits til heildarhagsmuna. Gömul saga og ný.
Erla Hulda