Hinn 2. september síðastliðinn var þess minnst að 100 ár
voru liðin frá fæðingu Skotans Bill Shanklys en hann er þekktastur fyrir að
gera Liverpool að stórveldi í enska fótboltanum. Hann tók við liðinu í næst
efstu deild árið 1959, leiddi það upp í efstu deild og undir hans stjórn varð
liðið þrisvar enskur meistari, tvisvar bikarmeistari og vann einu sinni
Evrópukeppni félagsliða, auk þess að vinna góðgerðarskjöldin fjórum sinnum. Með
þessu lagði Shankly grunninn að sigursælasta liði Evrópu en það varð Liverpool
eftir að aðstoðarmaður hans, Bob Paisley, tók við stjórninni árið 1974.
Þegar ég byrjaði að fylgjast vel með enska boltanum var
Shankly nýhættur sem framkvæmdastjóri (yfirþjálfari) Liverpool. Ég, tíu ára
gutti, byrjaði að halda með liðinu aðallega af því að ég hreifst af Kevin
Keegan. Hann var stjarnan og skoraði grimmt. Þótt Shankly væri hættur var mikið
um hann rætt. Maður skynjaði snemma að hann var goðsögn í lifanda lífi og andi
hans hélt áfram að svífa yfir vötnum á heimavelli liðsins, Anfield Road, eftir
að hann lést 1981.
Drengir í 4. flokki Fylkis við styttuna af Bill
Shankly fyrir utan Anfield Road sumarið 2004.
|
Shankley var enginn venjulegur framkvæmdastjóri. Hann var
ekki bara sigursæll heldur sterkur persónuleiki sem hafði djúpstæð áhrif á
leikmenn sína og var dáður af aðdáendum liðsins. Hann virtist ná betri tengslum
við stuðningsmennina en gengur og gerist með menn í hans starfi og átti með því
stóran þátt í að skapa magnaða stemmningu á heimavelli liðsins. Þegar Shankly
talaði lögðu menn við hlustir og mörg ummæli hans urðu fleyg.
Shankley ólst upp á fátæku heimili í litlum skoskum
kolanámubæ, Glenbuck. Þar var knattspyrna í hávegum höfð og heillaðist Shankly
ungur af íþróttinni. Eftir að hafa byrjað starfsferilinn í kolanámu varð hann
atvinnumaður í knattspyrnu eins og eldri bræður hans fjórir. Shankly þótti mjög
frambærilegur knattspyrnumaður, lék m.a. 12 landsleiki fyrir skoska landsliðið
áður en ferlinum lauk. Eftir það varð hann framkvæmdastjóri hjá nokkrum enskum
liðum, síðast Liverpool.
Shankly var trúr uppruna sínum. Fyrir honum var knattspyrnan
íþrótt verkamannsins, afþreying alþýðunnar, og hafði sem slík mikla
samfélagslega þýðingu og jafnvel pólitíska merkingu. Með því að leggja sig fram
á fótboltavellinum gat einstklingur úr verkamannastétt öðlast frama og virðingu
og með því að styðja félagið sitt til sigurs gátu verkamennirnir fundið fyrir
samtakamætti sínum. Þetta var löngu áður en auðmenn tóku að kaupa heilu
fótboltaliðin og markaðsöflin urðu ráðandi í bransanum.
„Natural enthusiasm, that’s the whole thing. It’s the
greatest thing in the world, natural enthusiasm. Yeah. You’re nothing without
it,“ sagði Shankly einhverju sinni í viðtali og bætti við. „If a man who’s
playing in front of the public, is being well paid, and he doesn’t dedicate
himself to the job, I’d be hard on him. If I could I would put him in jail, out
of the road of society. Because he’s a menace.“* Shankly leit nefnilega svo á
að knattspyrnumaður hefði skyldum að gegna við samfélagið, ekki síst þá lægra
settu, hann mátti ekki bregðast þeim. Og menn urðu að vera trúir uppruna sínum.
Honum fannst nóg um þegar vel launaðir knattspyrnumenn voru komnir með sundlaug
í garðinn sinn, þegar hann var ennþá að þjálfa. „I never saw a bathroom until I
left Glenbuck,“ var haft eftir Shankly þegar hann einu sinni sem oftar sagði
frá bakgrunni sínum.
Skömmu áður en aldarafmælis Shanklys var minnst kom út
skáldsagan Red or Dead eftir enska
rithöfundinn David Peace en hún byggir á ævi Shanklys. Þar segir frá litríkum
ferli hans hjá Liverpool og síðustu sjö æviárunum en þá upplifði hann tómlæti
og höfnun frá félaginu (ekki þó stuðningsmönnum þess) sem skýrist að einhverju
leyti af því að menn óttuðust að Shankly yrði of ráðandi ef hann væri í nánum
tengslum við liðið. Red or Dead er
rúmlega 730 blaðsíðna doðrantur sem hefur fengið blendnar viðtökur, allt frá
því að vera hafinn upp til skýjanna sem ljóðrænt stórvirki í anda Hómers til
þess að vera lýst sem ruglingslegu offramboði á orðum.
Peace kynnti bókina á árlegri bókahátíð sem haldin er hér í
Edinborg í ágúst. Í viðtali við BBC Radio, sem tekið var að því tilefni,
sagðist Peace gera sér grein fyrir því að stíllinn væri ekki öllum að skapi og
mælti með því að fólk hugsaði sig um tvisvar áður en það keypti bókina! En
honum þætti bókin aftur á móti ekki löng, alla vega ekki í samanburði við nýútkomna
ævisögu Jack Wilshere, stjörnuleikmanns Arsenal, hún væri næstum 300 blaðsíður,
samt væri Wilshere ekki nema tvítugur!
Í síðasta mánuði sagði Scotland
on Sunday frá því að Robert Gillan, knattspyrnuþjálfari unglinga, hefði
hrundið að stað verkefni undir yfirskriftinni The Banner of Glenbuck. Verkefnið
er tvíþætt: Annars vegar að stofna safn í Glenbuck í virðingarskyni við Shankly
og aðra þá sem léku með aðalliði staðarins, Glenbuck Cherrypickers, hins vegar
að koma þar upp knattspyrnuskóla. Það er reyndar hægara sagt en gert. Með
hnignun skoska þungaiðnaðarins upp úr miðri síðustu öld fækkaði íbúum Glenbuck
ört og fór bærinn í eyði fyrir mörgum árum. Minnisvarði um Shankly er eitt af
því fáa sem ber fyrir augu þeirra sem heimsækja Glenbuck.
Fjölskylda Shanklys styður verkefnið og hefur dagblaðið Scotland on Sunday eftir Karen Gill,
barnabarni Shanklys: „No other place of similar size in the world has produced
so many professional footballers.“ Þaðan komu nefnilega rúmlega 50
atvinnuknattspyrnumenn. En Glenbuck hefur líka táknræna merkingu, minnir á að
margir skoskir atvinnumenn í knattspyrnu eiga rætur sínar að rekja til kolanámubæja
og einnig þá áherslu sem Shankly lagði á að menn væru trúir uppruna sínum. Það
viðhorf á fullan rétt á sér ennþá því margir þeirra knattspyrnumanna sem eru í
sviðsljósinu núna koma úr lægri stéttum samfélagsins, sumir aldir upp við
erfiðar aðstæður og fátækt.
Arnþór