mánudagur, 9. september 2013

Flodden 1513 – 2013. Sögulegt og pólitísk mikilvægi stóratburða


Í dag eru 500 ár liðin frá einni blóðugustu orrustu sem háð hefur verið á Bretlandseyjum, orrustunni við Flodden. Þar áttust við erkifjendurnir Englendingar og Skotar. James IV, konungur Skota, ákvað að ráðst á Englendinga og styðja þannig Frakka sem áttu í stríði við enska herinn. Með þessu rauf James IV friðarsáttmála sem hann hafði gert við tengdaföður sinn, Henry VII, konung Englands, árið 1502.
James IV fór sjálfur fyrir um 30.000 manna her sem mætti um 26.000 manna ensku liði við Flodden, skammt sunnan landamæranna. Skotarnir tóku sér stöðu uppi á hæð og hófu þaðan stórskotahríð með fallbyssum en flest skotin geiguðu því skytturnar voru illa þjálfaðar. Þá gerðu Skotar áhlaup niður brekkuna vopnaðir 15 feta löngum og klunnalegum tréspjótum en mættu þá í návígi vel þjálfuðum Englendingum vopnuðum 5 feta löngum og meðfærilegum atgeirum (spjótum með axarblaði). Englendingar brytjuðu nágranna sína niður og áður en yfir lauk höfðu Skotar misst um 10.000 menn, þar á meðal sjálfan konunginn og fjölda aðalsmanna. Mannfall í liði Englendinga var um það bil helmingi minna.
Ósigurinn var Skotum gríðarlegt áfall. Flestar fjölskyldur í landinu misstu einhvern sér nákominn og í stuttu máli sagt náði konungsríkið aldrei fyrri styrk aftur, hvorki hernaðarlegum né pólitískum, en fyrir orrustuna hafði Skotland talsverð ítök á pólitísku skákborði Evrópu. Í vissum skilningi markaði ósigurinn upphafið að endalokum skoska konungsdæmisins og þar með samruna við England. Þrátt fyrir þetta er orrustan við Flodden ekki vel þekkt utan Bretlands, jafnvel í Englandi er hún ekki sérlega kunn. Og nú ber svo við að skoska heimastjórnin gerir lítið sem ekkert til að minnast atburðarins á 500 ára tímamótunum. Aftur á móti er mikið látið með aðra afdrifaríka orrustu sem Skotar háðu við Englendinga, nánar tiltekið við Bannockburn árið 1314 þar sem Skotar með Robert the Bruce í fararbroddi unnu frækinn sigur. Í ferðahandbók um Skotland, sem ég keypti fyrir tæpum áratug, segir um þessa orrustu: „The Battle of Bannockburn represented such a humiliating defeat for the arch enemy that it has become a symbol of Scottish independence.“ (Berndt Müller, Scotland. Insight Compact Guide. 2. útg. 2002, bls. 56.) Hins vegar er ekkert er minnst á Flodden í bókinni. Ég minnist þess reyndar ekki að hafa heyrt getið um Flodden fyrr en ég rakst á grein um orrustuna í Scotland on Sunday (sunnudagsútgáfu The Scotsman) 18. ágúst síðastliðinn. Greinarhöfundurinn, Alex Massie, blaðamaður, segir að um aldir hafi Flodden og Bannockburn kallast á í skoskri sögu, enda tvær hliðar á sama peningi. Nú ber svo við að heimastjórnin ætli að minnast sigursins við Bannockburn með veglegum hætti í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna í september 2014 þar sem Skotar greiða atkvæði um það hvort þeir vilji segja skilið við England/Bretland og stofna sjálfstætt ríki. Massie bendir á að á sama tíma taki heimastjórnin ekki þátt í að halda minningu ósigursins við Flodden á lofti. (Sambærilega gagnrýni má lesa í grein í The Observer, bls. 19, 1. september sl.) Þetta finnst Massie óeðlilegt og nefnir að fyrir skömmu hafi Michael Moor, utanríkisráðherra Skotlands og það sem meira er, þingmaður fyrir byggðarlög í Suður-Skotlandi, sagt um Flodden: „Við heyrum bergmál atburðanna í söngvum okkar, ljóðum og sögum.“ Massie bendir á að þarna, nærri landamærunum, hafi minningin um orrustuna lifað í vitund íbúanna þegar þess var minnst snemma á síðustu öld að 400 ár voru liðin frá orrustunni. Og í Selkirk, heimabæ Massie, er þess minnst árlega þegar eini heimamaðurinn sem lifði orrustuna af sneri aftur til síns heima. Frá Selkirk höfðu farið áttatíu menn og þegar þessi eini, Fletcher, skjögraði eftir aðalgötunni með gunnfánann á lofti, var hann svo yfirkominn af harmi að hann gat ekki komið upp orði heldur vafði hann fánanum um sig en lét hann svo síga til jarðar í þögulli virðingu við fallna félaga sína. Heimkoma Fletchers er sviðsett á hverju ári í Selkirk þegar orrustunnar er minnst. „Og þegar lúðrasveitin leikur The Flowers Of The Forest í þann mund sem fáninn sígur til jarðar, þá get ég svarið að fólk skynjar söguna. Þetta er gamall siður þar sem minning og missir blandast saman við stolt og eins konar ögrun. Við erum hérna ennþá og við munum ennþá“, skrifar Massie.
Enn má sjá minjar um svokallaðan Flodden Wall sunnan við
Edinborgarkastala. Þessi varnarmúr var reistur árin 1513-14
í kjölfar orustunnar við Flodden en þá óttuðust borgarbúar
innrás Englendinga. - Ljósmynd Arnþór.
Orrustan við Flodden hafði á sínum tíma ekki aðeins djúpstæð áhrif í Selkirk heldur í Skotlandi öllu, sama hvort mælt er í mannfalli, þjóðarstolti eða á pólitískum vettvangi. Arfleifð Flodden er þess vegna síður en svo einföld fyrir Skota. Hún er annað og meira en ein töpuð orrusta, þetta er á margan hátt óþægilegur atburður með flókna atburðarás bæði í aðdraganda og eftirmála. Þannig er það oft með stóratburði og þess vegna verður að teljast vafasamt þegar ríkjandi stjórnvöld (hvaða ríkis sem er) gera lítið sem ekkert til að minnast atburða á borð við tapaðar orrustur á sama tíma og þau leggja kapp á að minnast annarra atburða, svo sem sigra á vígvellinum, af því að það hentar þeirra málstað betur. Ósigrar og niðurlæging geta markað djúp spor í „þjóðarsálina“ og slíkir atburðir eru ekki síður mikilvægir til skilnings á sögulegu samhengi en sigrar. 
Þrátt fyrir takmarkaðan áhuga skoskra stjórnvalda verður samt eitt og annað gert til að minnast orrustunnar við Flodden. Meðal annars hafa aðilar í Skotlandi og Englandi tekið höndum saman og stofnað svokallað „ecomuseum“ um orrustuna, þ.e. sameiginlegan vettvang þar sem atburðarins er minnst á ýmsan hátt (http://www.flodden1513.com).
Arnþór