Árið 1811 dó í Leith í Skotlandi sýslumaðurinn
fyrrverandi og auðmaðurinn Guðmundur Pétursson frá Krossavík í Vopnafirði. Hann
þótti harðdrægur sýslumaður, gekk að sögn vasklega fram í innheimtu sakeyris.
Enda sögðu sveitungarnir í Vopnafirði að „andskotinn hefði sótt [Guðmund] í
eigin persónu um nótt úti í Edinborg á Skotlandi. Þar hafði hann horfið með
leynd, og það er enginn efi á því, að sá sótti sem átti.“ (Benedikt Gíslason. Páll
Ólafsson skáld, 25.)
Guðmundur Pétursson var sýslumaður Norður-Múlasýslu
frá 1786 (1772 sem aðstoðarmaður föður síns) til ársins 1807 þegar hann lét
embættið af hendi til Páls sonar síns og hélt utan í kaupmennsku. Páll varð þar
með fjórði ættliðurinn í beinan karllegg til að gegna embættinu. Eitt barna
Páls var Sigríður, fædd árið 1809, dáin 1871. Hún skrifaði bróður sínum um 250
sendibréf um ævina og hefur verið rannsóknarefni mitt síðustu misseri. Það
liggur því beint við, þar sem ég bý um þessar mundir í Edinborg, að gera Guðmund
að svolítilli hliðarrannsókn, einskonar kryddi í annarri sögu. Um leið eru
frásagnir af lífi hans og dauða, og leitin að „sannleikanum“, lýsandi fyrir þá
fortíð sem sagnfræðingurinn glímir við. Misvísandi frásagnir sem rekast hver á
aðra.
Sextándu aldar legsteinar í North Leith kirkjugarðinum á
bökkum Leith ár (Water of Leith). - Ljósmynd Erla Hulda
|
Guðmundur í Krossavík var fæddur árið 1748. Hann var
við nám í Kaupmannahöfn eins og faðir hans áður og til er á Þjóðminjasafni
óskaplega falleg minningartafla sem Pétur Þorsteinsson faðir hans lét gera um
sjálfan sig og fjölskylduna; þar sést Guðmundur ungur maður (19 ára) í
tískuklæðnaði þess tíma, hnébuxum og vesti, í silkisokkum og rauðum
„flauelskjól“ eins og þessir dýrindis síðu frakkar, sem við sjáum aðallega í
bíómyndum núna, voru kallaðir (sjá um minningartöfluna og fötin í Æsa
Sigurjónsdóttir. Klæðaburður íslenskra karla, 54–56).
Guðmundur var tvíkvæntur og þessi fjölskyldumál eru
svo flókin að ég hef búið mér til uppdrátt af tengslanetum og innbyrðis
giftingum. En í stuttu máli var fyrri kona hans var Þórunn Pálsdóttir, þau voru
systkinabörn. Hún var amma Sigríður „minnar”. Seinni kona hans var Þórunn
Guttormsdóttir og var hún jafnframt systurdóttir hans, tuttugu árum yngri.
Vegna skyldleikans þurfti konungsleyfi til giftingarinnar.
Þegar Guðmundur Pétursson lét af embætti og fór utan
var það í fimmta sinn sem hann sigldi, og það þótti saga til næsta bæjar. Hann
fór með Vopnafjarðarskipi áleiðis til Danmerkur sumarið 1807 en skipið hraktist
til Noregs. Þaðan hélt Guðmundur um Jótland til Kaupmannahafnar og kom þangað
3. apríl 1808. Magnús Stephensen dómstjóri var þá staddur í borginni og greinir
frá komu Guðmundar í dagbók sinni.
Guðmundur dvaldi í Kaupmannahöfn til 1810, við
„lærdómslistir” segir í Sýslumannaæfum Boga á Staðarfelli, en þá fór
hann til Leith í Skotlandi og var þar 1810–1811. Leith og Edinborg voru ekki
samvaxnar þá eins og í dag en nátengdar og Leith hafnarborg með iðandi mannlífi
og blómstrandi viðskiptum. Kaupskip frá Vestur-Indíum lögðust þar að bryggju og
úr þeim var skipað trjám til bygginga, indigo, rommi, og sykri. Frá Frakklandi,
Spáni og Portúgal bárust vín og koníak, appelsínur og sítrónur. Og svo
framvegis. Vörur alls staðar að úr Evrópu. Og þar stöldruðu við hvalveiðiskip á
leið til Grænlands (skemmtilegar lýsingar á Edinborg og Leith með augum
ferðamanna á ýmsum tímum má sjá í A Traveller’s Companion to Edinburgh).
Steinsnar frá Leith var svo Edinborg, uppfull af menningu og menntun. Borgin
var að þenjast út, ekki upp í loft eins og áður fyrr þegar menn hikuðu við að
byggja of mikið utan öryggis borgarmúranna og byggðu þess í stað nýja hæð ofan
á miðaldabyggingarnar í ‘Old Town’. Nýja hverfið ‘New Town’ liggur norðan við
gamla bæinn og kastalann, er arfleifð Upplýsingarinnar og endurspeglar þörfina
fyrir meira rými og skipulag, ferskt loft, garða og torg. Götur eins Princes
Street, George Street og Queen Street. Búið var að þurrka upp mýrarflákann og
Loch North á milli hverfanna þar sem nú eru Princes Street Gardens og Waverly
lestarstöðin. North Bridge tengdi gamla bæinn og nýja, einnig The Mound,
nokkurs konar jarðvegsbrú úr uppgreftri bygginganna í New Town, sem liggur frá
þröngum götum og göngum gamla bæjarins (Lawnmarket) yfir í nýja hlutann.
Betri borgarar fóru í spássitúra síðdegis eftir
Princes Street og sýndu sig og sáu aðra. Í Sýslumannaæfum er því haldið
fram að Guðmundur hafi eignast „málsmetandi“ menn að vinum og því má gera ráð
fyrir að hann hafi borist með iðandi mannhafinu um Princes Street, eða setið í
vagni, og virt fyrir sér prúðbúnar konur með sólhlífar, vel klædda karla og
auðvitað kastalann sem gnæfir yfir öllu með voldugum virkisveggjum. Fína fólkið
hittist líka í kvöldveislum þar sem núorðið var meira lagt upp úr gáfulegum
samræðum en áti og drykkju. Meðal gesta í slíkum boðum var skáldið Sir Walter
Scott. Hver veit nema þeir hafi tekið tal saman í boði sýslumaðurinn frá
Íslandi og rithöfundurinn frægi.
Sumarið 1811 „reisti [Guðmundur] til Lundúnaborgar”
meðan hann beið eftir Íslandsskipum. Hann kom aftur upp til Leith/Edinborgar og
tók þar sótt eftir því sem segir í Sýslumannaæfum og dó 12. ágúst. Því
er bætt við að „sumir“ segi að hann hafi fótbrotnað og átt við ýmis óþægindi að
etja í þessari dvöl sinni ytra. Í Íslenskum æviskrám er fullyrt að
Guðmundur hafi fótbrotnað og dáið í Leith. Samkvæmt Sýslumannaæfum sáu
nýju vinirnir hans til þess að hann fengi sómasamlega útför. Sótt, fótbrot eða jafnvel fjandinn sjálfur. Nú þurfti
að kanna hvort hægt væri að finna Guðmund hér í Edinborg og þá dugar ekkert
gúggl í tölvu.
Fyrsti viðkomustaður var National Library of Scotland,
handritadeild. Þar leitaði ég að Guðmundi í ýmiss konar skrám án árangurs. Satt
að segja hafði mig dreymt um að upp úr krafsinu kæmi böggull sem enginn hefði
skoðað og í leyndust síðustu reitur Guðmundar. Dæmigerður sagnfræðingsdraumur.
Næst var að leita í kirkjubókum, sem var auðvitað svolítið erfitt því ég hafði
ekki hugmynd um í hvaða sókn Guðmundur hefði dáið. Hvað þá hvernig nafnið væri
stafsett. En eins og svo oft áður kom hér í ljós hvað góðir skjalaverðir eru
ómetanlegir hverju safni og hverjum fræðimanni. Á National Records of Scotland
(tignarlegt hús við austurenda Princes Street, eitt þeirra sem var risið þegar
Guðmundur var hér) bar ég erindi mitt upp við Robin Urquhart, sem er íslenskum
skjalavörðum að góðu kunnur. Hann eyddi klukkustundum ef ekki dögum í leit áður
en ég kom á fund hans og hann dró upp úr pússi sínu útskrift úr kirkjubók í
Norður-Leith. Þar má sjá eftirfarandi færslu fyrir jarðarfarir árið 1811:
„Paterson. Geordan a Danish Magistrate of Iceland died the 6th [&] was
buried the 9th of August. E. 80. S. 57.” Eða, Paterson, Geordan, danskt
yfirvald frá Íslandi dáinn 6. ágúst en jarðaður 9. Undir liðnum „Disorder”, sem
vísar til dánarmeins stendur „Broken Leg”. Aldur 65 ára. Bókstafirnir og
tölurnar vísa til grafreitsins í North-Leith Cemetery.
Kirkjubókin góða. Geordan Paterson, dáinn af fótbroti árið 1811. |
Hér var hann kominn, Guðmundur Pétursson sýslumaður.
Dáinn af fótbroti. Aldurinn passar. Og nöfnin, sagði Robin Urquhart, væru
dæmigerð fyrir það sem þá tíðkaðist, að reyna að búa til skosk nöfn á
útlendinga. Auðvitað hafa þeir ekki getað sagt Guðmundur og Paterson er
algengari útlegging hér en Petersen uppá danskan máta. Og danskur eða
íslenskur. Í Skotlandi hefur það ekki skipt máli. Kannski var jafnvel betra að
vera danskur. Fleiri upplýsingar um Guðmund var ekki að finna á National
Records. Tilfinningasamur sagnfræðingurinn komst næstum við yfir þessari færslu
og fékk hjartslátt þegar Robin upplýsti að þessi kirkjugarður væri enn til.
Honum væri að vísu skammarlega illa sinnt en þarna væri hann.
Nú var ekkert annað að gera en skipuleggja ferð í
kirkjugarðinn. Það var svo um miðjan maí síðastliðinn, á björtum en svölum
vordegi, sem við Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur lögðum af stað í leit að
kirkjugarðinum vopnaðar korti, ljósriti úr sýslumannsæfum, myndavél og
brjóstbirtu. Hrefna var þá í rannsóknarferð hér í Edinborg (og Orkneyjum og
Hjaltlandseyjum). Og það sem meira er, hún hafði líka mikinn áhuga á að hitta
sýslumanninn Guðmund, enda Pétur Þorsteinsson pabbi hans einn þeirra manna sem
unnu að framgangi Innréttinganna á Íslandi (Austurlandi) á síðari hluta 18.
aldar. Og Pétur var líka einn þeirra efnamanna sem pöntuðu sér fínerí á borð
við rauðvín, romm og rauða pelsa frá útlöndum í miðjum Móðuharðindum og Hrefna
skrifaði um stórmerkilega grein í tímaritið Sögu á síðasta ári (Saga
L:2 2012). En allavega, leiðin var greið í kirkjugarðinn sem reyndist vera
niður undir gamla hafnarsvæðinu við Leith ána. Lítill og aðþrengur, eins og
lágur hóll milli árinnar, nýlegra bygginga, bílastæða og umferðargötu.
Hér í North Leith kirkjugarðurinn var Guðmundur
Pétursson lagður til hinstu hvílu 9. ágúst 1811.
Ljósmynd Arnþór
|
Garður með legsteinum frá sextándu öld og ekkert
virðist gert til að halda honum við. Brotnir legsteinar og minnismerki lágu upp
við húsvegg – hafa líklega brotnað við rask við framkvæmdir við íbúðarhús sem
stendur eiginlega ofan í garðinum. Við gengum milli legsteina og lásum allar
læsilegar áletranir en fundum ekki sýslumanninn okkar – og ekkert skilti var að
finna sem gæti sagt okkur hvar nákvæmlega E. 80. S. 57 væri að finna. En þegar
upp var staðið skipti það ekki öllu máli. Við vissum nokkurn veginn hvar
Guðmundur væri niðurkominn. Við skáluðum fyrir karli í mildri maísólinni,
fannst það við hæfi því hann var sagður „hávaðasamur drykkjumaður“, og lásum
upphátt úr Sýslumannaæfum.
Og hver veit nema fleiri upplýsingar komi upp úr
krafsinu síðar því leitin heldur áfram. Á handritadeild Edinburgh University
Library skoðaði ég sjúkraskrár, eða innritunarbók elsta sjúkrahússins hér,
Royal Infirmary, frá 1811 í þeirri von að finna nafn Guðmundar. Þar var hann
ekki (fletti þrisvar í gegn!) og hefur því líklega dáið í heimahúsi. Enn á ég
eftir að fara á City Archives og kanna hvort það sjáist á skrám hver borgaði
fyrir grafreitinn hans og fletta í blöðum á City Library ef getið væri um
fótbrot og dauða Geordie Paterson eða Guðmundar ríka eins og Sigríður
sonardóttir hans kallaði hann í bréfi áratugum síðar.
Erla Hulda