laugardagur, 5. október 2013

Leið til að nálgast söguna

Á leið minni í Inverleith-garðinn um síðustu helgi varð á vegi mínum gamall maður. Hann ýtti á undan sér vagni með stóru líkani af herskipi. Hann fór fetið. Ég gat ekki leynt forvitni minni og við tókum tal saman.
Gamli maðurinn með skipslíkanið sitt.
Hann sagðist hafa smíðað skipið sjálfur, það væri eftirlíking af bresku herskipi úr heimsstyrjöldinni fyrri. Núna ætlaði hann að hitta félaga sína í klúbbi áhugamanna um skipsmódel, þeir hittast reglulega við tjörnina í garðinum. Ég rölti þangað með honum. Hann sagðist vera sagnfræðingur klúbbsins, hafði tekið saman sögu hans, hún spannaði næstum 130 ár. Lengst af hefði þessi sama tjörn verið „leikvöllur“ félagsmanna enda hefði hún verið búin til fyrir þessa tómstundaiðju. Aftur á móti hefðu skipin breyst. Í gamla daga hefðu allir átt seglskip en núna væru þau flest rafknúin.

Tjörnin í Inverleith-garðinum. Í baksýn er borgarfjallið,
Arthur's Seat.
Á tjörninni og tjarnarbakkanum gat að líta módel af ýmsum stærðum og gerðum, allt frá hraðbátum til gamalla sögufrægra skipa. „Spíttbátadeildin“ hafði lagt undir sig stærstan hluta tjarnarinnar og var búin að afmarka þar keppnisbraut með baujum. „Hæglátadeildin“ gerði sér að góðu eitt „hornið“ á tjörninni.
Að smíða og sigla eftirlíkingum af gömlum skipum er ein leið til að nálgast söguna og lifa sig inn í hana.
Arnþór


Frá þessu hjólaskipi bárust ljúfir tónar. Skipsbandið var að leika fyrir farþegana
sem spókuðu sig á þilfarinu.

Svanirnir létu skipaumferðina ekki raska ró sinni.
Líkön af herskipum voru áberandi. Fremst er þýskur kafbátur.