laugardagur, 12. október 2013

Súffragetturnar og handhafar sannleikans


Um daginn las ég grein í breska fræðitímaritinu Women’s History Review þar sem femíníski sagnfræðingurinn June Purvis, prófessor við háskólann í Portsmouth í Englandi, ræðir um það hvernig saga breskrar kvennabaráttu hefur verið skrifuð. Eða um þann hluta hennar sem snýr að súffragettunum bresku, kvenréttindafélaginu Women’s Political and Social Union (WSPU) sem stofnað var árið 1903 af Emmeline Pankhurst. Emmeline og dóttir hennar Christabel Pankhurst stýrðu félaginu.   
WSPU var fyrst og fremst félagsskapur milli- og yfirstéttarkvenna þótt konur úr öðrum hópum hins stéttskipta Bretlands hafi einnig tekið þátt. Aðalbaráttumálið var kosningaréttur kvenna. Heitið súffragettur eða „suffragettes“ uppá ensku er dregið af orðinu „suffrage”, sem þýðir kosningaréttur. Súffragetta þýðir því kona sem berst fyrir kosningarétti en vísar einkum til þeirra kvenna sem voru í WSPU og beittu róttækum aðferðum í baráttu sinni fyrir mannréttindum.
Þetta póstkort keypti ég á alþjóðakvennasöguráðstefnunni
í Sheffield í lok ágúst. Kvenréttindakonur í Manchester 
fagna komu Christabel Pankhurst árið 1909. 
Til að byrja með voru það framíköll á pólitískum karlafundum og mótmælagöngur en þegar fram í sótti bættust við íkveikjur, skemmdir á póstkössum, rúðubrot, innrásir á þingfundi og fleira sem ekki þótti hæfa í bresku samfélagi háttvísinnar. Og þær hlekkjuðu sig við grindverk. Oft enduðu mótmæli í ofbeldisfullum uppákomum þar sem konur voru teknar fastar og stungið í steininn í lengri og skemmri tíma. Þá gripu þær til hungurverkfalla sem enduðu með enn meira ofbeldi því ofan í þær var þvingaður matur á svo harkalegan hátt að sumar biðu þess aldrei bætur. Þó held ég ekkert dauðsfall hafi orðið í þessari baráttu nema þegar súffragettan Emily Wilding Davison fleygði sér fyrir veðhlaupahest konungs í þágu málstaðarins (kosningaréttur kvenna) á Derby-veðreiðunum árið 1913. Fyrir vikið varð Davison í senn píslarvottur og táknmynd öfgafullrar kvenréttindakonu. Fræðimenn eru reyndar ekki á einu máli um það hvort Davison hafi ætlað að henda sér fyrir hestinn eða stöðva hann með því að grípa í beislistaumana. 
June Purvis er meðal þeirra fræðimanna sem hefur rannsakað og skrifað um sögu súffragettanna en þessi saga hefur verið umdeild og túlkuð með ýmsum hætti. Margar konur úr hreyfingunni gáfu út minningar sínar og skrifuðu um baráttuna og á áttunda áratugnum tók sagnfræðingurinn Brian Harrison viðtöl við á annað hundrað konur sem höfðu tekið þátt. Þessi viðtöl eru nú varðveitt á kvennabókasafninu í London, The Women’s Library, og voru efniviður í þátt á BBC4 um súffragetturnar fyrr á þessu ári. Sá þáttur vakti mikla athygli. 
Purvis bendir á að megin heimildin um starfsemi súffragettanna hafi verið bók sem önnur dóttir Emmeline, Sylvia Pankhurst, gaf út en þar birtist mjög neikvæð mynd af hreyfingunni, móður hennar og systur, Emmeline og Christabel. Sjálf var Sylvía sósíalisti og starfaði að kvenréttindamálinu innan verkalýðshreyfingarinnar eftir að hún sneri baki við hreyfingu móður sinnar. 
Bók June Purvis um Emmeline Pankhurst.
Myndin á kápunni er fræg, þar heldur
lögregluþjónn á Emmeline en við hlið þeirra
stikar karlmaður sem vandar henni ekki 
kveðjurnar. 
Purvis segir snemma hafi borið á neikvæðu viðhorfi sagnfræðinga í garð súffragettanna, bæði marxískra kvennasögufræðinga á borð við Sheilu Rowbotham (stórnafn í femínískri sögu) sem taki afstöðu með Sylviu Pankhurst gegn hinni borgaralegu hreyfingu sem súffragetturnar sannarlega voru þótt þær beittu óhefðbundnum aðgerðum í baráttu sinni (eða óhefðbundnum aðgerðum fyrir konur). En einkum hefur borið á andúð karlkyns sagnfræðinga og birtist hún í fordæmingu á baráttuaðferðum súffragettanna, skilningsleysi gagnvart kröfum kvenna um jafnrétti og háðsglósum um útlit, kynhegðun og kynhneigð. Þessi söguskoðun var m.a. mótuð í bók eftir Georg Dangerfield þegar árið 1935 og hefur lifað ágætu lífi í verkum margra karlkyns sagnfræðinga. Kynsveltar konur er t.d. það sem David Mitchell skrifar árið 1977 í ævisögu um Christabel Pankhurst og jafnvel kynferðislega afbrigðilegar. Þar heldur hann því fram að Christabel hafi þráð móður sína kynferðislega (fyrir utan að hafa verið kaldrifjuð, metnaðargjörn og sturluð). Mitchell telur að konurnar hafi raunverulega þráð að „gripið“ væri í þær; að lögreglumenn, þingverðir og aðrir sem tókust á við þær myndu grípa um brjóst þeirra, fara með hendi undir pilsins, rífa fötin utan af þeim. Purvis segir að þótt vissulega séu þessi orð Mitchells öfgakennd þá leggi hann áherslu á það sama og aðrir karlsagnfræðingar sem skrifa frá þessu karllega sjónarhorni (masculinist perspective), sem sé það að þessar konur hafi verið fáránlegar, öðruvísi og einhvern veginn á skjön við allt sem eðlilegt þótti.
Þess má geta hér að í samtímablöðum íslenskum voru súffragetturnar gjarnan kallaðar „pilsvargar“ og fréttir af þeim yfirhöfuð neikvæðar. Þetta gekk svo langt að Bríet Bjarnhéðinsdóttir sá sig tilneydda til að rita langa grein um breska kvennabaráttu, súffragetturnar og sögulegt samhengi aðgerða þeirra í Kvennablaðið árið 1913 (Kvennablaðið 19. mars og 19. apríl 1913). 
Annað póstkort keypt á ráðstefnunni í Sheffield. Pilsvargur 
að störfum á skopmynd frá 1853. Eins og sjá má fara 
kynhlutverkin í algert rugl þegar kona kemst á þing og 
leggur stund á skriftir
Nýrri dæmi um þetta karllega viðhorf eru skrif sagnfræðinganna Christopher Bearman og Martin Pugh frá því nú í upphafi 21. aldarinnar. Bearman skrifaði um ofbeldi súffragettanna, sem hann fordæmdi og líkti við hryðjuverkamenn samtímans. Og hann gerði lítið úr rannsóknarniðurstöðum femínískra fræðimanna á borð við Purvis sem hann taldi ekki komast að „réttri“ niðurstöðu í rannsóknum sínum og væru reknar áfram af pólitískum markmiðum. Purvis var fengin til að bregðast við skrifum hans í tímariti BBC (BBC History Magazine 8:2 2007) og þar gagnrýndi hún Bearman m.a. fyrir að reyna á engan hátt að skilja það samfélagslega samhengi sem baráttuaðferðir súffragettanna (og ofbeldi) var sprottið úr eða þær hindranir og þá samfélagsgerð sem súffragetturnar og aðrar baráttukonur þessa tíma voru að reyna að brjóta upp. Og hún benti á að andstætt því sem gerðist í sjálfsmorðárásum nútímans hefðu súffragetturnar engan drepið. (Deilan snérist m.a. um það hvort forystukonur súffragettanna hefðu samþykkt eða verið andsnúnar og yfirhöfuð vitað af sumum þeirra skemmdarverka sem súffragetturnar stóðu fyrir).
Þessi deila um „rétta“ túlkun sögulegra atburða náði hámarki í hótunum Bearman í garð Purvis þar sem hann í bréfi minnti hana á  að hún hefði „skyldum að gegna sem ábyrgðarfullur sagnfræðingur við breskan háskóla“; og þar sem hún þægi laun frá hinu opinbera ætti hún að hugsa sinn gang. Ef hún héldi áfram að „fylgja femínískri stefnuskrá þá væri það opinbert hneyksli sem yrði rætt við yfirmenn hennar.“ Bearman gerði alvöru úr hótun sinni og og reyndi að fá yfirmenn Purvis til að aga hana – án árangurs.
Martin Pugh er þekktur sagnfræðingur í sögu Bretlands á fyrri hluta 20. aldar en hefur líkt og fleiri áhrifamiklir karlsagnfræðingar gert lítið úr eða jafnvel sniðgengið rannsóknir femínískra fræðimanna og kýs að draga upp neikvæða mynd af súffragettunum þar sem kynhneigð, samkynhneigðar ástir og meint kynhegðun eru notaðar til þess að gera lítið úr súffragettunum og baráttumálum þeirra. Pugh gefur lítið fyrir konur eins og Purvis og þau tókust hart á um mismunandi túlkanir á síðum blaða og tímarita. Og karlabandalagið stóð fyrir sínu því mitt í þessum fræðilegu átökum (fyrir um áratug) sótti Purvis um inngöngu í „Klúbb ævisöguhöfunda“ (Biographer’s Club) enda búin að skrifa mikinn doðrant um Emmeline Pankhurst. Hún fékk neitun og skýringin var sú, þegar hún leitaði eftir henni, að Pugh mætti þar á fundi – og að heyrst hefði að hún væri „til vandræða“. Formaðurinn sem svaraði henni var reyndist vera umboðsmaður Pugh. 
„Atkvæðisrétt handa konum“ (Votes for Women),
slagorð súffragettanna. Ekki stendur til að þurrka 
leirtauið með þessu dýrindis viskustykki sem ég 
keypti í Sheffield heldur verður það veggskraut á 
skrifstofunni minni ef ég fæ einhvern tímann stöðu 
hjá Háskóla Íslands. Ef ekki fer það á vegginn 
í eldhúsinu og minnir mig á að festast ekki 'bak
við eldavélina'.
Þessi veruleiki sem Purvis lýsir er raunar hluti af stærra vandamáli fræðanna sem er viðhorf fræðasamfélagsins  til rannsókna og verka eftir konur sem eru minna metnar og sniðgengnar í vísindasamfélaginu. Og hve erfitt getur reynst fyrir þær að fá viðurkenningu rannsókna sinna í heimi þar sem enn eru karlmenn sem telja sig 'handhafa sannleikans'. Fyrir um hálfum öðrum áratug vakti mikla athygli rannsókn sænsku fræðikvennanna Vold og Wennerås sem komust að því að konum var mismunað kerfisbundið í rannsóknarsjóðum, þ.e. rannsóknir merktar körlum fengu frekar úthlutað rannsóknarfé en rannsóknir kvenna. (Sjá hér smávegis um þetta á íslensku). 
Og það allra nýjasta mátti lesa nýlega í Washington Post þar sem fjallað var um sláandi niðurstöður rannsóknar á fjölda tilvísana í fræðigreinar eftir konur og karla. Í stuttu máli þá kom fram að á móti hverri tilvísun í greinar eftir karla var vísað 0.7 sinnum til kvenna – og það sem meira er: Frekar var vísað til greina sem í raun voru eftir konur ef kynið var órætt, þ.e. meiri líkur voru á að vísað væri í grein eftir E.H. Halldórs en Erlu Huldu Halldórsdóttur.
En það er efni í aðra grein ...
Erla Hulda

Grein June Purvis er því miður ekki aðgengileg á Íslandi, áskrift að tímaritinu var hætt fyrir meira en áratug. En hér er tilvísunin: June Purvis (2013), „Gendering the Historiography of the Suffragette Movement in Edwardian Britain: some reflections“, Women's History Review, 22:4, 576-590, DOI: 10.1080/09612025.2012.751768