Ein af þekktustu byggingum
Edinborgar er án efa St Giles dómkirkjan sem stendur við High Street (sem er
partur af Royal Mile), skammt fyrir neðan Edinborgarkastala. Þarna hefur staðið
kirkja í um 900 ár en núverandi kirkja er frá ofanverðri fjórtándu öld. Þetta er
stór bygging og mikilfengleg. Fyrir utan trúarlegar athafnir er kirkjan
vettvangur tónleika og flesta daga liggur þangað stöðugur straumur ferðamanna. Eins
og gefur að skilja koma margir gestanna af trúarlegum ástæðum en eflaust líka
vegna áhuga á sögu og byggingarlist, enn aðrir virðast rangla inn fyrir
tilviljun eða leita þangað skjóls undan óvæntum regnskúrum.
St Giles dómkirkjan í Edinborg. Stóri steindi glugginn yfir aðaldyrunum fyrir miðri mynd er eftir Leif Breiðfjörð.
|
Glugginn er enginn smásmíði, 970x480 cm. Fyrir neðan hann má sjá annað verk
eftir Leif, þil úr bláu gleri fyrir innan aðaldyrnar. - Ljósmyndir: Arnþór
|
Leifur stundaði á sínum
tíma nám í The Edinburgh College of Art. Verk hans prýða fjölmargar kirkjur og
aðrar byggingar á Íslandi og víðar um lönd.
Arnþór
Heimildir:
Halldór Björn Runólfsson, Gluggi Leifs í móðurkirkju Skotlands. Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1985, bls. 12–14.
Marshall, Rosalind K., St Giles’. The Dramatic Story of a Great Church and its People. Edinburgh: Saint Andrews Press, 2009.