Þegar kvensagnfræðingar hófu sögu
kvenna á loft um 1970 sem akademíska fræðigrein létu þær sig dreyma um að konur
og saga þeirra yrði sjálfsagður hluti hinnar almennu sögu. Að finna mætti
frásagnir af verkum kvenna og lífi þeirra í þykku bókunum um sögu þjóða og
heimsatburða. Og að rannsóknaraðferðir og frásagnarrammi sögunnar myndi
breytast.
Þótt margt hafi breyst á þessum
rúmlega 40 árum sem liðin eru er ljóst að enn eru konur og saga þeirra ekki
sjálfsagður hluti hinnar almennu sögu. Og ef marka má nýleg skrif má ætla að
ákveðin stöðnun, jafnvel afturhvarf hafi átt sér stað.
Umræðan snýst ekki um að ekki séu
til staðar nógu margar eða vandaðar rannsóknir á sviði kvenna- og kynjasögu
heldur er eins og þær nái þrátt fyrir allt ekki að breyta rótgrónum hugmyndum
um hvað sé alvöru sagnfræði og hverjir alvöru sagnfræðingar. Og þar með hvaða
rannsóknir það séu sem komast inn í Sögubækur með stóru essi. Jafnframt snýst
þetta um stöðu kvensagnfræðinga, og þá ekki síst sérfræðinga á sviði sögu
kvenna og kynja, við háskóla.
Nýlega stofnuðu konur í
meistaranámi í sagnfræði við Óslóarháskóla kvennahópinn Ottar Dahl. Hópurinn hefur það að markmiði að jafna kynjahlutfall í sagnfræði innan
háskólans og utan. Í grein sem þær birtu í Aftenposten 15. maí sl. eru 80% prófessora við sagnfræðideild Óslóarháskóla karlar. Þetta telja þær að endurspeglist í rannsóknaráherslum þar sem opinbera sviðið og
hið karllega séu mest áberandi. Þetta benda þær á að hafi áhrif út fyrir
sagnfræðina, á samfélagið allt og standi jafnrétti fyrir þrifum.
Til samanburðar má geta þess að
við sagnfræðina í Háskóla Íslands eru 75% fastra kennara (lektorar, dósentar,
prófessorar) karlar en ef aðeins eru taldir prófessorar eru karlarnir 86%.
Ekkert bendir til að það breytist í bráð.
Um daginn las ég svo áhugaverða grein
eftir Bonnie G. Smith um sagnritun kvennasögunnar. Smith er þekktur
kvennasögufræðingur og skrifaði fyrir sextán árum ögrandi bók um kyngervi
sagnfræðinnar, The Gender of History.
Men, Women, and Historical Practice. Í greininni (2010) fagnar Smith
framgangi kvenna- og kynjasögunnar og þeim fjölmörgu nýstárlegu rannsóknum sem
hún hefur leitt af sér en bendir engu að síður á að kvenna- og kynjasaga sé enn
ekki hluti af því sem kalla má meginstraum eða kanón sögunnar. Eins og ég hef
áður nefnt í bloggi hér eru þó til þeir karlsagnfræðingar sem kvarta hástöfum
yfir kvenkyns kollegum sínum og þeirri sögu sem þær skrifa. Smith nefnir
einmitt forvitnilegt dæmi héðan frá Bretlandi þar sem þekktur sagnfræðingur lét
hafa eftir sér árið 2009 (um leið og sýndir voru sjónvarpsþættir hans um Hinrik
áttunda) að sagan hefði verið „kvengerð“. Þá var hann að hugsa um kónginn Hinrik
sem síðustu ár hefur verið vinsælt umföllunarefni vegna kvennanna sex, sem hann
ýmist skildi við, lét höggva eða dóu frá honum. Honum var auðvitað svarað af
femínískum sagnfræðingi.
„Beste brodir ...“ Sigríður skrifar í september 1820, á níunda
afmælisdegi Þórunnar systur sinnar. Sjálf er hún ellefu vetra.
- Mynd Erla Hulda
|
Á vefsíðunni Herstoria, þar sem akademískir
sagnfræðingar í Bretlandi skrifa um sögu kvenna, mátti nú í maí finna grein um
hlut kvenna í sögubókum (kennslubókum). Þar kemur fram að hlutur kvennasögu er
slakur í þessum bókum og þekking nemenda ekki upp á marga fiska. Sem minnir mig
á umræðu sem varð á Íslandi fyrir örfáum árum um það hve fáar konur voru í
nýjum kennslubókum fyrir efri stig grunnskóla. Um málið var m.a. fjallað á
málþingi við Háskóla Íslands. Í umræðu á vefmiðlum, póstlista sagnfræðinga og
víðar kom fram það viðhorf að kennslubækur sem þessar endurspegluðu bara ‘fortíðina
eins og hún var’ því þá hefðu karlar ráðið ríkjum. Að skrifa annars konar sögu
væri afskræming á fortíðinni og ‘raunveruleika’ hennar.
Þeir sem svona
hugsa eru auðvitað fastir í gömlum viðhorfum – sjá ekki að stundum þarf að
stokka hlutina upp og horfa á fortíðina út frá nýju sjónarhorni. Um daginn
birtist á vefsíðunni Reviews in History umfjöllun um nýja bók (2013) um
eftirmála kosningaréttar kvenna í Bretlandi eftir fyrra stríð. Bókin fær afar
lofsamlega umfjöllun enda virðist hún hrista upp í viðteknum skoðunum. Ritdómarinn
segir beinlínis að allir þeir bresku sagnfræðingar sem fást við breska
samtímasögu ættu að lesa og melta innihald þessarar bókar og velta fyrir sér af
hverju konur og kyngervi hafi ekki fengið meira pláss í þeirra eigin verkum. Lokaorðin
eru: „... þessi bók sýnir að það er ekki lengur réttlætanlegt að fela sig á bak
við heimildaskort heldur þarf í þess stað að spyrja réttu spurninganna.“
Það er einmitt þetta með
spurningarnar. Á síðasta ári fékk ég orðsendingu frá handritadeild
Landsbókasafns þar sem einn starfsmanna hafði óvænt rekist á tvö bréf frá
systrunum Sigríði Pálsdóttur og Þórunni Pálsdóttur á Hallfreðarstöðum. Þessi
bréf voru ekki skráð með öðrum bréfum þeirra til bróður síns Páls Pálssonar
skrifara og stúdents á Arnarstapa. Bréfin hefur Páll bundið inn í bók ásamt
ýmsum mikilvægum skjölum er varða hann sjálfan og fjölskyldu hans. Í
handritaskrá Landsbókasafns skrifar fræðimaðurinn Páll Eggert Ólason eftirfarandi:
„Aftast eru ættartölubrot, einkum ættmenna Páls stúdents, og fáein marklítil
bréf til hans frá systrum hans.“ (Handritaskrá
II, 55)
Fáein marklítil bréf ... - mynd Erla Hulda |
Handritaskráin kom út árið 1927
og endurspeglar gamlar hugmyndir, sem þó lifa enn, um verðugleika og sögulegt
mikilvægi þar sem lítið pláss er fyrir konur, hvað þá börn. Konur og handrit
þeirra, hvort sem um er að ræða bréf eða önnur handrit, voru illa eða ekki
skráð í elstu handritaskránum. Sjálf hef ég margoft rekið mig á þessa staðreynd
við leit í skránum og nýlegar rannsóknir á verkum kvenna hafa enn frekar leitt
þetta í ljós, til dæmis rannsókn Guðnýjar Hallgrímsdóttur á sjálfsævisögu
Guðrúnar Kétilsdóttur og doktorsritgerð Guðrúnar Ingólfsdóttur. Þessar
rannsóknir hafa sýnt að mörg „marklítil“ bréf og handrit eru full af mikilvægum
upplýsingum um fortíðina, viðhorf fólks til samtíma síns og hvernig það lifði
lífi sínu. Bréf systranna Þórunnar og Sigríðar eru engin undantekning.
Þórunn skrifar:
elsku legi brodir
Nu er af mæli mitt i dag og eg 9 ára sem er 17 September eg kann ei neitt ad klora en eg ætla ad bæta mig ad læra þad i vetur so eg geti skrifad þier. lifdu sem best eg kann oska þin
elskandi sistir
Þorunn Pals dottir
Sigríður skrifar:
Besti bróðir
Eg þacka þier firir þin 2 Kiær komin til skrif nu kiemst eg ei til ad skrifa langt þvi nu er verid ad heia i blanni og fer eg a milli en eg er sein ad skrifa eg var 11 vetra nærst lidid vor þann 17 Maii en Siggeir brodir ockar 5 vetra i Sumar þann 12 Juli eg ma nu ei vera lengur ad þvi eg er so sein og hefi ei tekid a penna sidan i vor og heldur enginn ad segia meir til en ef eg lifi i vetur skal eg bæta mig. firirgefdu nu besti brodir þettad ljota Klor og vertu æfinlega sæll þin
elskandi Sistir Sigrídur Pals dottir
heima
Þetta er annað sendibréfið sem
Sigríður skrifaði eigin hendi, höndin er jöfn og áferðafalleg og henni hefur
farið talsvert fram frá því hún skrifaði sjálf í fyrsta sinn á bakhlið bréfs
ömmu sinnar níu mánuðum fyrr. Þó hefur hún ekki „tekið á penna“ frá því um
vorið. Sumarið var annatími, bæði fyrir börn og fullorðna, og lítill tími fyrir
skriftaræfingar. Fyrir utan að móðir þeirra var sífellt veik og gat illa sagt
þeim til. Þórunn er skemur á veg komin og þetta er fyrsta bréfið sem hún
skrifar sjálf. Eins og sjá má í viðbótinni (sjá mynd) sem amma þeirra Sigríður
Ørum skrifaði neðan við bréf Þórunnar gekk henni betur með krít. Bréfið er stutt,
höndin barnsleg og erfiðið við að skrifa og eiga við fjaðurpennann skína í
gegn. Stafirnir eru ójafnir og nokkrar blekklessur eru á þessu arkarbroti.
Bréfin eru vitnisburður um
lærdómsferli systranna, bæði efnislega og sem gripir. Og þegar þau eru skoðuð í
samhengi við það félagslega og menningarlega umhverfi sem systurnar bjuggu í opna
þau mikilvæga sýn inn í löngu horfinn heim sem byggði á stigveldi stéttar og
stöðu – og kyns og kyngervis. Tvö marklítil bréf?
Edinborg, Erla Hulda
Edinborg, Erla Hulda
Helstu heimildir aðrar en þær sem hlekkjað er á:
Lbs 230 8vo. Handritið (bókin) þar sem finna má umrædd bréf systranna Sigríðar og Þórunnar.
Bonnie G. Smith, „Women’s
History. A Retrospective from the United States“, Signs: Journal of Women in Culture and Society, vol. 35, no. 3,
bls. 723–747.
Guðný Hallgrímsdóttir, Sagan af Guðrúnu Ketilsdóttur.
Einsögurannsókn á ævi 18. aldar vinnukonu. Sýnisbók íslenskrar
alþýðumenningar 16. Reykjavík: Háskólaúgáfan, 2013.
Guðrún Ingólfsdóttir, „Í hverri bók er
mannsandi.“ Handritasyrpur — bókmenning, þekking og sjálfsmynd karla og kvenna
á 18. öld.
Reykjavík: Bókmennta- og listfræðastofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan,
2011.
Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins. Samið hefur Páll Eggert
Ólason. II. bindi. Reykjavík, 1927, bls. 55.