laugardagur, 30. nóvember 2013

Á upprunastað íslenska þjóðsöngsins

Það er nokkuð útbreidd venja hér í Edinborg (og eflaust víðar Skotlandi) að fólk í þjónustustörfum gefi sér smátíma til að spjalla um daginn og veginn við viðskiptavinina á meðan þeir eru afgreiddir. Nokkuð sem maður er ekki vanur heima á Íslandi en hér þykir þetta sjálfsögð kurteisi. Ekkert nema gott eitt um það að segja. Ég lendi nokkuð oft í þessu og er þá ósjaldan spurður hvort ég sé á ferðalagi eða beinlínis hvaðan ég sé. Þegar ég segist vera frá Íslandi fer fólk stundum að segja mér frá einhverju sem það veit um land og þjóð, eitthvað sem það hefur heyrt eða lesið og þykir merkilegt og áhugavert. Fólk notar þá jafnvel tækifærið til að spyrja nánar út í viðkomandi atriði, t.d. um eldfjöllin eða hvort það sé virkilega þannig að húshitun með jarðhita sé ókeypis á Íslandi.
Í haust sagði afgreiðslumaður á kassa í stórmarkaði mér frá því, þegar hann komst að því hvaðan ég væri, að íslenski þjóðsöngurinn hefði verið saminn hér í Edinborg. Höfundurinn, Íslendingur að nafni Sveinbjörn Sveinbjörnsson, hefði búið í borginni þegar hann samdi lagið. Það kom mér skemmtilega á óvart að Sveinbjörn hefði samið lagið hér í borg og lét ég það í ljós. Afgreiðslumaðurinn færðist í aukana og tók að útskýra fyrir mér hvar í borginni tónskáldið hefði búið og að utan á húsinu þar sem hann bjó væri minningarskjöldur með áletrun um þetta. Ég þakkaði kærlega fyrir spjallið og kvaddi með þökkum, kominn með hálfgert samviskubit yfir röðinni sem hafði myndast fyrir aftan mig. 
London Street í New Town hverfinu í Edinborg. Íbúð Sveinbjörns var hægra megin í götunni. - Ljósmynd: Arnþór.


Nokkrum vikum síðar leitaði ég uppi húsið þar sem Sveinbjörn bjó. Það er í London Street, götu í New Town hverfinu. New Town byggðist upp á árunum 1765–1850 og er á heimsminjaskrá UNESCO (eins og Old Town hverfið), þykir einstaklega vel varðveitt dæmi um georgískan arkítektúr og skipulag. Sveinbjörn hefur greinilega búið innan um vel stæða borgara.
Utan á húsinu eru tveir minningarskildir. Á öðrum er textinn á íslensku, á hinum er ensk útgáfa sama texta. Íslenska áletrunin er svona:
ÍSLENSKI ÞJÓÐSÖNGURINN
“Ó GUÐ VORS LANDS”
LAGIÐ OG HLUTI LJÓÐSINS
VAR SAMINN Í ÞESSU HÚSI
ÁRIÐ 1874 AF
SVEINBIRNI SVEINBJÖRNSSYNI
OG MATTHÍASI JOCHUMSSYNI
1974
Þegar ég hafði tekið myndir af skjöldunum bar að unga konu með barn í kerru. Hún spurði hvort ég væri íslenskur. Ég játti því og spurði á móti hvort algengt væri að Íslendingar kæmu að húsinu. Hún sagði svo vera og tók sem dæmi að einu sinni þegar hún var heima við hefði hún heyrt söng fyrir utan. Þá stóð tíu manna íslenskur kór í tröppunum og söng þjóðsönginn! Ég spurði hana hvort hún vissi hvar nákvæmlega í húsinu Sveinbjörn hefði búið. Hún sagði að á hans tíma hefði þetta verið ein íbúð frá kjallara og upp úr en núna væru þarna nokkrar íbúðir. Hún sagðist búa í stórri íbúð á einni hæðinni, þannig að þetta hefðu verið mjög vegleg húsakynni hér áður fyrr. Þá hefðu eigendurnir líka haft þjónustufólk. Ég horfði undrandi upp eftir hæðunum fjórum og svo niður á kjallarahæðina, samtals fimm hæðir, og hugsaði með mér að Sveinbjörn hlyti að hafa verið vel stæður. 

Húsið þar sem Sveinbjörn bjó. Minningarskildirnir sjást hægra megin við 
hurðina sem er neðarlega fyrir miðri mynd. - Ljósmynd: Arnþór.
Áður en konan fór inn í húsið benti hún mér á að í The Georgian House við Charlotte Square, í vesturenda hverfisins, væri hægt að skoða íbúð eins og þær litu út á 19. öld. Ég tók stefnuna á torgið og fann umrædda íbúð. Hún hefur verið gerð upp í því sem næst upprunalegri mynd eða eins og hún leit út um og upp úr aldamótunum 1800. Hafi íbúð Sveinbjörns verið eitthvað í líkingu við þessa hefur ekki væst um hann og fjölskyldu hans.
Fjölskyldan sem fyrst bjó í sýningaríbúðinni í við Charlotte Square var mjög auðug. Heimasæturnar fengu góða menntun bæði í hagnýtum greinum og listum til þess að þær yrðu álitlegir kvenkostir. Þær lærðu m.a. hljóðfæraleik. Kannski Sveinbjörn hafi á sínum tíma kennt ungum stúlkum úr efri stéttum að leika á píanó. 
Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld
(1847–1927)
Í lesefni sem ég fann um Sveinbjörn á netinu komst ég að því að hann kom fyrst til Edinborgar þegar hann sigldi utan til náms í Kaupmannahöfn árið 1868. Eins og svo margir heillaðist hann af borginni og þar settist hann að fljótlega að loknu námi í tónsmíðum. Sveinbjörn starfaði sem píanókennari og komst vel af þá tæpu hálfa öld sem hann bjó  í Edinborg.
Sveinbjörn samdi þjóðsönginn árið 1873. Tildrögin voru þau að árið eftir stóð til að minnast þess með hátíðarhöldum að 1000 ár væru liðin frá landnámi Ingólfs Arnarsonar. Séra Matthías Jochumsson dvaldi um tíma hjá Sveinbirni í Edinborg árið 1873. Þar samdi hann fyrsta erindi sálmsins „Ó Guð vors lands“ og bað tónskáldið um að semja við það lag. Það gerði Sveinbjörn en Matthías lauk við að semja sálminn eftir að hann var kominn suður til London. Lag og ljóð voru síðan flutt við messu í Dómkirkjunni í Reykjavík 2. ágúst 1874. Það var frumflutningur verðandi þjóðsöngs Íslendinga.
Arnþór

Á netinu er m.a. þetta lesefni um Sveinbjörn:
Birgir Thorlacius, Íslenski þjóðsöngurinn.

Bendi líka á grein eftir Jón Þórarinsson, SveinbjörnSveinbjörnsson og þjóðsöngurinn. Andvari 1. tbl. 99. árg. 1974, bls. 53–57.