Saga dagsins er
svolítið persónuleg frásögn um Guðnýju langömmu mína í föðurætt. Persónuleg af því
að flest sem ég veit um Guðnýju, og segi hér, byggir á sögum sem mér voru
sagðar (eða skrifaðar) af fólki í fjölskyldunni sem þekkti hana og mundi.
Guðný fæddist árið
1862. Móðir hennar var Sigríður Halldórsdóttir 25 ára vinnukona á Laxárbakka í
Miklaholtshreppi og Guðmundur Guðmundsson 45 ára kvæntur bóndi á sama bæ.
Guðríður Magnúsdóttir kona Guðmundar var 66 ára, 21 ári eldri. Slíkur
aldursmunur var ekkert óalgengur á þessum tíma þegar ungir karlmenn kvæntust
gjarnan eldri konum, ekkjum sem áttu jarðir eða ráku bú. Gagnkvæmir hagsmunir
líklega. Sigríður hafði komið að Laxárbakka 1859 og samkvæmt sóknarmannatali
árið 1861 átti hún eina „bibl. angl.“ Líklega er þar átt við biblíu frá enska
Biblíufélaginu sem dreift var hér á landi af Ebenezer Henderson 1814–1815.
Guðný á efri árum. |
Ég veit ekki hvort
Sigríði var vísað af heimilinu þegar upp komst að hún væri barnshafandi en hún
fór að minnsta kosti í næstu sveit, Staðarsveit, þar sem hún átti sveitfesti
áður en barnið fæddist. Guðný fæddist sem fyrr segir 22. ágúst 1862, á Hóli.
Móðir hennar var við heyskap þennan dag því Guðný kom í heiminn í „fangahnappi“,
með öðrum orðum í þéttu beði af þurru heyi. Guðný og móðir hennar voru bornar
til bæjar í ábreiðu sem rifnaði undan þeim – ef til vill táknrænt á ýmsan hátt
fyrir erfiða framtíð. Sjálf mun Guðný hafa sagt með bros á vör: „Það var nú
ekki svo auðvelt að losna við okkur!“ Guðný var skírð 24. ágúst og eitt
guðforeldra var Guðmundur Sigurðsson á Álftavatni. Hann átti þá tíu ára son,
Stefán, sem kemur við sögu síðar.
Guðný Guðmundsdóttir
var flutt móðurlaus yfir á Laxárbakka í Miklaholtshreppi sama ár og hún
fæddist, kannski bara nokkurra daga. Ég veit það ekki. Hún ólst því upp hjá
föður sínum, var fyrst skráð „tökubarn“ en síðar yfirleitt „dóttir bónda“. Kona
Guðmundar hefur tekið við barninu en hún dó fáeinum árum síðar. Guðmundur
kvæntist aftur 1868, Önnu Halldórsdóttur, sem reyndist Guðnýju vel en sem gömul
kona sagði Guðný barnabarni sínu að hún hefði alltaf saknað móðurhandarinnar.
Lífsbaráttan var
hörð á þessum árum. Á Snæfellsnesi var almenn fátækt og víða matarskortur uppúr
1860 og erfitt fyrir umkomulausa vinnukonu að sjá fyrir sér og ungbarni. Laun
vinnukvenna voru lág (oft goldin í mat og fatnaði) og þær fengu að jafnaði 1/3
af launum vinnumanna, í besta falli helming og matarskammtur kvenna var minni
en karla. Þær þurftu auk þess að þjónusta vinnumenninna; draga af þeim fötin,
þurrka, þrífa og gera við. Sigríði Halldórsdóttur hefur því verið nauðugur einn
kostur að láta dótturina frá sér. En hvað varð um hana? Ég hef ekki fylgt henni
eftir ár frá ári en hún virðist hafa verið við vinnumennsku í Staðarsveit,
Miklaholtshreppi, Eyjahreppi, Kolbeinsstaðahreppi og svo á Mýrunum. Hún dó árið
1912 á Urriðaá, 75 ára. Mér er sagt að hún hafi átt erfiða ævi. Hvort og hversu
mikið samband þær mæðgur höfðu veit ég ekki – ein heimildarkona mín taldi þó að
það hefði verið eitthvað.
Þegar Guðný
Guðmundsdóttir á Laxárbakka var 12 ára skrifaði presturinn í húsvitjunarbók að
hún væri farin að læra kverið, eins og lög gerðu ráð fyrir. Ári síðar er Guðný
sögð vel læs og að hún hagaði sér vel. Árið 1876 var hún fermd með vitnisburði
um góða hegðun og kunnáttu.
Lærdómi var að öðru
leyti ekki haldið að henni enda hafði hún orð á því síðar á ævinni að henni
þætti unga kynslóðin lánsöm að fá að ganga á skóla. Á 19. öld gekk menntun
barna í aðalatriðum út á að kenna lestur og kristindóm. Skrift og reikningur
voru listir sem taldar voru óþarfi fyrir alþýðufólk. Það voru þó einkum stúlkur
sem ekki fengu að læra að skrifa – og hvað um Guðnýju? Skrift lærði hún með
sjálfsnámi, það var góðhjartaður vinnumaður á Laxárbakka sem gaf henni
forskrift á blaði. Ekki var heldur sjálfgefið að nóg væri af pappír og
skriffærum og því óhjákvæmilegt að spyrja hvar hún hafi æft skriftina. „Nógur
var sandurinn og snjórinn“, sagði hún gömul kona. Í æviminningum annarra kvenna
leynast frásagnir af stúlkum sem æfðu stafagerðina með broddstaf á ís eða með
krítarmola á fjöl í fjósi. Sjálf fór ég að skæla þegar ég fékk langt bréf frá
föðursystur minni þar sem hún sagði mér þessa sögu og fleiri af Guðnýju. Þá var
ég að ljúka MA-ritgerð um konur á 19. öld og saga langömmu minnar passaði inn í
mynstrið, eitt saumspor til viðbótar.
Gengið úr Skógarnesfjöru í átt til fjalla. - Ljósmynd Arnþór |
Eins og önnur 19.
aldar börn þurfti Guðný að vinna og sem lítil stúlka vakti hún yfir túninu á
Laxárbakka nótt eftir nótt. Engin skepna mátti bíta það dýrmæta gras sem þar
óx. Guðnýju var bannað að fara inn í bæ til þess að hlýja sér eða næla sér í
matarbita – kannski ótti við að hún myndi sofna, eða að kindurnar kæmust í
túnið rétt á meðan. Og henni var sagt að í hólum og klettum væru vættir sem
tækju hana kæmist féð í túnið. Guðný grét meðan nóttin leið: „Engar mjúkar
móðurhendur máttu strjúka votan vanga“, sagði hún dótturdóttur sinni löngu
síðar og hughreysti þegar sú hin sama átti að fara að vaka yfir túni.
Samkvæmt kirkjubókum
var Guðný heima á Laxárbakka til 1889 en þá fór hún í vinnumennsku að
Skógarnesi í sama hreppi. En árið 1891 fór hún frá gylltum sandfjörunum upp
undir fjallsrætur og gerðist vinnukona á Borg. Þar bjuggu þá Stefán Guðmundsson
hreppstjóri og kona hans Guðrún Ólafsdóttir. Þau höfðu flust þangað úr
Staðarsveit rúmum tíu árum fyrr. Þau áttu þá eina dóttur Þorbjörgu Kristínu, en
höfðu misst tvo drengi á fyrsta ári og dóttirin Stefanía fæddist ári eftir að
Guðný kom að Borg.
Hvers konar samband
myndaðist milli þeirra Guðnýjar og Stefáns vitum við ekki – hann er sagður hafa
verið sagður fríður maður, vinsæll. Það sem við vitum er að úr varð barn því
hinn 20. janúar 1897 (21. janúar segir kirkjubókin) fæddi Guðný Guðmundsdóttir
vinnukona á Borg stúlkubarn sem Stefán Guðmundsson var faðir að. Nú fór öðru
vísi en þegar Guðný fæddist því ekki voru þær mæðgur skildar að, heldur voru
þær áfram á Borg. Litla stúlkan var skírð þann 20. febrúar og gefið nafnið
Anna. Hún er föðuramma mín.
Stefán á Borg. - Ljósmynd Óskar & Vignir. |
Tár hljóta að hafa
flætt þessa daga. Þær hafa báðar átt erfiðar stundir, eiginkonan Guðrún og
vinnukonan Guðný. Hvort sem í því fólst einhver sátt eða ekki þá varð Guðrún vanfær
fáeinum vikum eftir fæðingu Önnu litlu og eignaðist dótturina Halldóru 22.
desember 1897. Þær voru semsagt jafnöldrur hálfsysturnar Halldóra og Anna þótt
ellefu mánuðir skildu þær að.
Guðný er áfram á
Borg og í sóknarmannatali (og manntali 1901) er Anna aðeins skráð dóttir bónda.
Engin leið að sjá að hún sé dóttir Guðnýjar vissi kona ekki betur.
Árið 1900 (1.
september) giftist Guðný þá 38 ára Pétri Helgasyni vinnumanni frá Hjallasandi (Hellissandi),
þá 25 ára. Annar tveggja svaramanna er Stefán bóndi á Borg. Pétur er ekki
skráður á Borg árið 1900 en árið 1901 eru þau Guðný skráð þar í húsmennsku.
Guðný og Pétur
eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu lengst af á Borg, á heimili Stefáns barnsföður
hennar og þar sá Guðný að mestu um heimilið. Guðrún, eiginkona Stefáns lést
árið 1913 en Stefán 1925. Anna, dóttir Guðnýjar og Stefáns giftist Ásgrími afa
mínum árið 1916, og þau bjuggu á Borg. Þegar elsti sonur Guðnýjar og Péturs kvæntist
árið 1933 og hóf búskap í Gröf í
Miklaholtshreppi fluttust þau til hans.
Dregnar hafa verið
upp fyrir mig svipmyndir af Guðnýju með prjónana og krakkana í kringum sig í
rökkrinu, segjandi sögur og ævintýri, rímur og kvæði. Hún var fluggreind og
minnug var mér sagt en einnig að svo virtist sem hún hefði alltaf fundið til
þess að hafa stigið út fyrir þann siðferðislega ramma sem fólki er settur og
eignast barn með giftum húsbónda sínum (og ekki bara hún heldur var hún sjálf
slíkt barn).
Hún átti alltaf
kandísmola í pilsvasanum og klippti bita af honum með sykurskærunum og gaf
þakklátri ömmustelpu sem minntist hennar löngu síðar í bréfi skrifuðu á
afmælisdegi Guðnýjar, 22. ágúst 1995: „Í dag hefði amma Guðný átt afmælisdag.
Hún hafði það nú ekki alltaf títt í lífinu. Dáist meir og meir að henni og
hennar dugnaði eftir sem tíminn líður. Ég var nú elsta barnabarnið og auðvitað
það barnið sem kyntist henni mest. Og ennþá man eg margt sem hún sagði mér og
kendi mér.“
Í erfiljóði sem til
er um Guðnýju kemur fram að sumum þótti Guðný „hrjúf og köld“ á yfirborðinu en
að í raun hafi hlýjan ríkt í huga hennar og hjarta. Hún var trygg vinum sínum,
veglynd og heiðarleg, vinnusöm og viljasterk. Ég á í fórum mínum tvö síðustu
bréfin sem Guðný skrifaði dótturdóttur sinni árið 1949. Þessi bréf bera vott um
mikinn kærleik og hlýju, enda var hún, með orðum viðtakanda þessara bréfa „ein
af þeim sem allt vildu til betri vegar færa“. Hún hefur því ekki dvalið við
erfiðleikana.
Guðný Guðmundsdóttir
dó 7. mars 1950 og er jörðuð á Fáskrúðarbakka. Um það bil ári áður skrifaði hún
dótturdóttur sinni sem búsett var erlendis: „ef þið komið til landsins og eg
verð dáin þá bið eg ykkur að krossa yfir gröfinni minni.“
Ég hef því bætt
Guðnýju í þann stóra hóp frændgarðs og ástvina sem ég krossa yfir þegar ég
vitja þeirra í kirkjugarðinum í sveitinni heima.
* Flest af því sem hér er sagt kom fram í nokkuð lengri pistli sem ég flutti á ættarmóti afkomenda Guðnýjar í júní árið 2010.