sunnudagur, 5. janúar 2014

Hoffellsbræður

Í haust fékk ég að gjöf þrjár ljósmyndir úr dánarbúi Guðmundar afabróður míns frá Þinganesi í Nesjum í Hornafirði. Myndirnar eru af bræðrunum Jóni, Eiríki og Jóni frá Hoffelli í Nesjum. Myndir af þeim bræðrum hafa fylgt mér lengi því ég eignaðist eftirmyndir af gömlum ljósmyndum af þeim fyrir um 20 árum síðan. Þær hengu lengi uppi á heimili okkar hjóna og vöktu ævinlega athygli gesta, enda bræðurnir reffilegir og tilkomumiklir í sjón, svipmiklir með myndarlegt skegg. Það var óvænt ánægja að fá þá bræður hingað til Edinborgar.

Jón í Þinganesi (1842–1916)
Jón eldri var elstur þeirra bræðra, fæddur 1842, þá Eiríkur, fæddur 1844, en Jón yngri var fæddur 1845. Foreldrar þeirra voru Guðmundur Eiríksson, bóndi í Hoffelli, og Sigríður Jónsdóttir, eiginkona hans. Guðmundur var frá Hoffelli en Sigríður frá Hlíð í Skaftártungu.
Í grein um þá bræður, sem birtist í tímaritinu Óðni árið 1923, segir m.a.: „Þeir bræður eru allir atgerfismenn, fríðir sýnum og föngulegir á velli, hagleiksmenn miklir og vel að sjer um margt, greiðamenn og gestrisnir.“
Jón eldri kvæntist Katrínu Jónsdóttur frá Þinganesi og varð bóndi þar. Þau eignuðust fjóra syni sem upp komust. Einn þeirra var Gunnar langafi minn, svo ég upplýsi nákvæmlega um tengsl mín við þá Hoffellsbræður. Hinir þrír voru Guðmundur, Jón og Benedikt. Guðmundur og Gunnar urðu bændur á föðurleifð sinni en Guðmundur drukknaði þegar hann féll af hestbaki í Hornafjarðarfljótum árið 1909. Jón bjó lengi í Þinganesi en Benedikt dó ungur.
Jón í Hoffelli (1845–1927)
Jón yngri tók við búi í Hoffelli eftir föður sinn og þótti fyrirmyndarbóndi, hélt áfram jarðabótum sem faðir hans stóð fyrir. Jón lagði stund á söðlasmíði samhliða búskap. „Er hann minnstur þeirra bræðra að vallarsýn, en þó vel á sig kominn og hinn snyrtimannlegasti,“ segir í greininni í Óðni. Jón yngri kvæntist Halldóru Björnsdóttur frá Flugustöðum í Álftafirði. Börn þeirra voru Björn, bóndi í Dilksnesi í Nesjum, Guðmundur, bóndi í Hoffelli, Sigríður, lést ung, Hjalti, bóndi í Hólum í Nesjum, Kristín, lést ung, og Sigurbjörg í Hoffelli.
Eiríkur varð bóndi í Heinabergi á Mýrum en þaðan var eiginkona hans, Halldóra Jónsdóttir. Síðar bjuggu þau að Svínafelli í Nesjum og Meðalfelli í sömu sveit en keyptu þá jörðina Brú á Jökuldal og bjuggu þar um árabil. Eiríkur og Halldóra eignuðust fimm börn en aðeins eitt þeirra komst upp, Guðlaug. Seinni eiginmaður hennar var Elís Jónsson verslunarstjóri á Djúpavogi. Eiríkur var formaður á árabátum á Mýrum og í Nesjum, var um tíma hreppstjóri í Nesjum og á Jökuldal og gegndi fleiri trúnaðarstörfum, „enda ágætur skrifari og mjög vinsæll sem þeir bræður allir og vel metinn, alstaðar sem hann hefur átt heima,“ svo enn sé vitnað í greinina.
Þorleifur Jónsson (1864–1956), hreppstjóri í Hólum í Nesjum, getur þeirra bræðra í ævisögu sinni, sérstaklega Jóns í Þinganesi og Eiríks. Jón aðstoðaði föður Þorleifs við að endurbyggja bæinn í Hólum sumarið 1870. Þorleifur lýsir Jóni þannig (bls. 23): „Jón í Þinganesi var tígulegur, ungur maður, hár og vel limaður með dökkjarpt alskegg, snar í hreyfingum og ákveðinn. Hann var mikill smiður og mikill verkmaður. Mátti hann heita tveggja manna maki að verki, svo fljótvirkur var hann og áhugamaður hinn mesti. Hann var sérstakur greiðamaður og höfðingi í lund.“ 

Eiríkur (1844–1935) um áttrætt

Þorleifur skrifar sérstakan kafla um Eirík sem hann kynntist vel og hafði miklar mætur á. Þar segir (bls. 225): „Eiríkur var meðalmaður á hæð, en þrekvaxinn og kraftalegur. Talið var, að eigi væri þeir margir, er mætti úr hendi hans toga, ef hann halda vildi. Hann var fríður maður, hýr og svipfallegur. Skegg hafði hann mikið og fagurt, og allur var hann hinn höfðinglegasti. Eiríkur hafði góða greind, bókamaður og hagmæltur, þótt hann flíkaði því ekki mikið. Rithönd hans var frábærlega fín og vönduð, og skrifaði hann venjulega á hné sér. Þjóðhagi var hann á smíði alla, þó einkum á járn. Vinsæll var hann með afbrigðum, enda ætíð tilbúinn að greiða fyrir öðrum.“
Árið 1904 keypti Eiríkur jörðina Syðra-Fjörð í Lóni og fluttist þangað frá Jökuldal. Hann var þá orðinn ekkill. Þar bjó hann til ársins 1921. Syðri-Fjörður stendur norðan undir Vestrahorni og sér þaðan ekki til sólar mánuðum saman yfir vetrartímann. Um það orti Eiríkur þessa snilldarvísu: 
Mikaels frá messudegi
miðrar góu til
í Syðra-Firði sólin eigi
sést það tímabil.

Lengi að þreyja í þessum skugga
þykir mörgum hart,
samt er á mínum sálarglugga
sæmilega bjart.
Arnþór

Syðri-Fjörður undir Vestrahorni í byrjun apríl 2010.                                                              Ljósmynd: Arnþór




Nánar um Hoffellsbræður:
„Hoffellsbræður.“ Óðinn, 19. árg. 1.–6. tbl. 1923, bls. 21–22.
Þorleifur [Jónsson] í Hólum, Ævisaga. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar, 1954.