Í bókinni A History of Scotland, sem minnst var á
í síðasta bloggi, segir höfundurinn, Neil Oliver, að því hafi oft verið haldið
fram í skoskum sagnfræðiverkum (síður þó í nýlegum) að skoskir kaupmenn hafi
ekki hagnast með beinum hætti af þrælahaldi. Skotar voru vissulega ekki
jafnmikið í þrælaviðskiptum og Englendingar og margar aðrar Evrópuþjóðir en samt
liggur ljóst fyrir að stórfelldur hagnaður Skota af viðskiptum með tóbak, sykur
og bómull byggði á vinnu þræla á átjándu og nítjándu öld.
Eftir sameiningu skoska
konungsdæmisins og hins enska árið 1707 naut Skotland góðs af efnahagslegum
uppgangi í breska heimsveldinu og nýjum viðskiptatækifærum vítt og breytt um
heiminn. Þessi vöxtur hvíldi að miklu leyti á bökum svartra Afríkubrúa sem
hnepptir voru í ánauð og fluttir nauðugir yfir Atlantshaf til að þræla á
plantekrum í Nýja heiminum. Skosk kaupskip sigldu suður til Afríku, fluttu
þaðan þræla til Vestur-Indía og Norður-Ameríku, sigldu síðan hlaðin tóbaki,
sykri, bómull, kryddi og öðrum hráefnum til Skotlands þar sem þau voru
fullunnin til sölu á mörkuðum heima og erlendis. Á þessum viðskiptaþríhyrningi
auðguðust margir skoskir viðskiptamenn gríðarlega. Glasgow var miðstöð viðskiptanna
og bera götur í borginni nöfn manna sem auðguðust á viðskiptunum. Og líka nöfn eins og Tobago
Street og Jamaica Street. Karabíska eyjan Jamaica var ein helsta auðsuppspretta
breskra athafnamanna (þar með taldra skoskra) á átjándu og nítjándu öld. Þar má
finna leifar plantekra sem bera skosk nöfn á borð við Argyle, Glasgow og Glen
Islay.
Það er svo annað mál að
þessi mikli auður dreifðist misjafnlega um samfélagið. Meiri hluti Skota
bjó áfram við fátækt og margir þurftu að vinna baki brotnu til að framfleyta
sér og sínum, til að mynda í kolanámum. Það var þeirra þrældómur.
Í síðustu viku sótti ég
fyrirlestur ungs fræðimanns, dr. Michaels Morris, við Edinborgarháskóla þar sem
hann fjallaði um aðild Skota að þrælahaldinu: „Scotland and the Caribbean:
Recovering the Memory of Slavery across two Atlantic Archipelagos“. Morris
benti á að þjóðaratkvæðagreiðslan í september næstkomandi (þá greiða Skotar
atkvæði um hvort þeir vilji vera áfram í breska ríkjasambandinu eða stofna
sjálfstætt ríki) gæfi tilefni til endurskoðunar og endurmats á ýmsum þáttum í
sögu Skotlands, meðal annars þátttöku Skota í þrælahaldinu.
Arnþór
Heimild:
Oliver, Neil. A History of Scotland. London: Phoenix,
2009.
Sjá einnig:
Crowford, Robert. On Glasgow and Edinburgh. London:
Harward University Press, 2013.
Devine, T.M. Scotland’s Empire. The Origins of Global
Diaspora. London: Penguin, 2004.
Bendi líka á þessa
vefsíðu: http://www.scotland.gov.uk/Publications/2007/03/23121622/4