Þræll í 12 ár (12 years a slave) er seigfljótandi flaumur, hún er hæg en
kraftmikil, kona lítur undan þegar svipuhöggin dynja. Verður flökurt yfir
mannvonsku, yfir því hvernig fólk er svipt mennsku sinni, hvernig það verður
‘eign’ (e. property) eins og
plantekrueigendurnir hamra á. Þrælarnir eru eign og við þá má gera hvað sem er,
eins og einn plantekruherranna segir. Kaupa, selja, hýða, nauðga, drepa – undir
hvatningarhrópum eiginkonunnar.
Myndin þykir einstaklega vel heppnuð hvað varðar sögulega nákvæmni.
Þegar ég
gekk út úr Filmhouse á Lothian Road hér í Edinborg í gærkvöldi og reyndi að melta þessa stórkostlegu mynd varð mér hugsað
til fyrirlestursins sem breski sagnfræðingurinn Catherine Hall hélt um
þrælahald á alþjóða kvennasöguþinginu í Sheffield niður í Englandi um mánaðamótin
ágúst september á síðasta ári. Hall er einn fremsti sagnfræðingur Breta, prófessor við University College
London. Eftir hana liggur fjöldi bóka og greina, einkum um femíníska sögu,
kyngervi (e. gender) og nýlendustefnu
breska heimsveldisins. Um síðasttalda efnið heyrði ég Hall tala á evrópsku
ráðstefnunni um femínískar rannsóknir í Lundi í Svíþjóð síðsumars árið 2003;
þar var heimsvaldastefna fyrri alda sett í samhengi við stöðu ‘heimsvelda’
nútímans, rætt um líkindi og hliðstæðar orðræður þá og nú. Þetta var og er
besti fyrirlestur sem ég hef heyrt, svona tilfinning þar sem maður situr fremst
á stólbrúninni og heldur í sér andanum.
Þessari mynd hnuplaði ég af netinu. Eins og
kunnugt er byggir myndin á sjálfsævisögu
Solomon Northup sem var frjáls maður hnepptur
í þrældóm í 12 ár, frá 1841–1853.
|
Í Sheffield
talaði Hall um allt annað efni, umfangsmikið rannsóknarverkni þar sem hún og
fleiri fræðimenn grafast fyrir um ýmsa þætti í þrælahaldi Breta, m.a. hvað varð
um það fé sem breska ríkið greiddi þrælaeigendum þegar þrælahald var afnumið. Með
þessu er opnað inn á sársaukafulla og ljóta sögu, eins og gert er í myndinni Þræll í 12 ár, sem Bretar hafa átt
erfitt með að horfast í augu við. ‘Við ætlum okkur’, sagði Hall í Sheffield,
‘að skrifa þrælahaldið aftur inn í söguna, koma því aftur til Bretlands.’
Þrælasala
var bönnuð í breska heimsveldinu árið 1807 en þrælahald var ekki bannað fyrr en
1833. Þegar það var gert greiddi breska ríkið skaðabætur til þrælaeigenda (þeir
þurftu að sækja um þessar bætur), alls 20 milljónir punda sem munu hafa verið
40% af útgjöldum ríkisins það ár (1833). Í dagblaðinu Guardian sagði um daginn að þetta samsvaraði 16 billjónum punda á
núvirði (ég reyni ekki að reikna það yfir í íslenskar verðlausar krónur!). Í
fyrirlestri sínum ræddi Hall um þetta út frá kynjasjónarhorni og benti á að af
þeim 47.000 kröfum sem gerðar hefðu verið um skaðabætur hefðu 41% verið frá
konum. Þetta sýndi, þvert á það sem gert hafði verið ráð fyrir, að þær áttu
plantekrur og eignir – þræla. Þær voru ekki allar passíf fórnarlömb
karlveldisins heldur tóku þátt.
Hall og
kollegar hennar hafa semsagt skoðað hvert þessar bætur, sá hluti þrælaauðsins,
fór. Hvaða fjölskyldur nutu þeirra, hvernig voru þær nýttar. Að hve miklu leyti
runnu þær út í atvinnulífið? Inn í vaxandi iðnvæðingu Bretlands? Eins og fram
kemur að ofan hefur þrælahaldið verið feimnismál í Bretlandi. Þrælahaldsfjölskyldur
hafa margar reynt að sópa þessari arfleifð undir teppið og almennt séð hafa
Bretar ekki horfst í augu við sinn hlut í þrælahaldinu. Meðal annars vegna þess
að plantekrurnar voru handan hafsins, í karabíska hafinu og víðar.
Um þetta
verkefni má lesa á heimasíðu þess og einnig horfa á Hall sjálfa kynna
verkefnið, ýmist stuttlega eða hlusta á heilan fyrirlestur. Um þetta er m.a.
rætt í áðurnefndri grein í Guardian þar
sem rætt er um þrælahaldsverkefnið í tilefni af bíómyndinni Þræll í 12 ár og rölt um í ensku
borginni Bristol þar sem ýmsar glæsibyggingar hvíla á arði af þrælasölu. Eftir
því sem segir í blaðinu er talið að bresk skip hafi flutt um þrjár milljónir
svartra frá Afríku yfir til Nýja heimsins, þar af um hálfa milljón á skipum frá
Bristol.
Hér í
Skotlandi hefur það viðhorf verið ríkjandi að Skotar eigi engan þátt í
þrælasölu og þrælahaldi Breta og þeim efnahagslegu áhrifum sem af því spratt.
Nú hefur bíóhúsið Filmhouse boðað til opins fyrirlesturs sunnudaginn 19. janúar
þar sem Tom Devine, prófessor í sagnfræði við Edinborgarháskóla, ætlar að
kollvarpa þessum hugmyndum og leitast við að skýra hvernig standi á þessu
minnisleysi – eins og segir í lýsingu.
En sjálfsagt er farið að skola undan þessu viðhorfi. Á síðasta
ári las ég frábæra nýja bók eftir Emmu Rothschild, The Inner Lives of Empires. Bókin fjallar um skoska fjölskyldu á
18. öld, bréfaskipti hennar og heimsveldi í margvíslegum skilningi. Hluti
fjölskyldunnar auðgaðist af plantekrum og þrælahaldi. Og í bókinni Saga Skotlands (A History of Scotland) segir vinsæli sjónvarpssagnfræðingurinn/fornleifafræðingurinn Neil Oliver að hlutur Skota í þrælaviðskiptunum séu þeim til eilífrar skammar. Héðan fóru skip til Afríku, sigldu með þræla til Ameríku og komu aftur til Skotlands drekkhlaðin tóbaki og öðru góssi. Á þessu auðguðust margir.
Óhætt er að
segja að kvikmyndin, sem gerð er af svörtum breskum leikstjóra Steve McQueen
(hér er nýlegt viðtal við hann í Guardian),
hafi orðið til þess að vekja enn frekari athygli á áðurnefndu verkefni
sagnfræðinganna við University College í London. Og sýnir auðvitað að
sagnfræðingar eru með puttann á púlsinum