Um daginn fór ég á
sýningu í National Galleries of Scotland á vatnslitamyndum eftir enska
listmálarann Joseph Mallord William Turner (1775–1851). Verkin voru í eigu
listaverkasafnarans Henry Vaughan (1809–1899) en hann ánafnaði þau safninu með
því skilyrði að verkin yrðu höfð til sýnis öll samtímis í janúar ár hvert án
aðgangseyris. Þessi ósk Vaughans hefur verið uppfyllt frá því um aldamótin 1900.
The Falls of Clyde (1801), vatnslitamynd eftir Turner af skoskri náttúru.
Christopher Baker. J.M.W. Turner, bls. 40–41.
|
Það er við hæfi að sýna
þessar vatnslitamyndir í svartasta skammdeginu því birtan sem frá þeim stafar varpar
ljósi inn um sálargluggann. Turner var alla tíð upptekinn af birtunni í
náttúrunni og lagði sig í líma við að fanga hin fjölbreyttu blæbrigði hennar.
Samspil himins og vatns/hafs var honum einkar hugleikið, það sést til dæmis vel
á fjölmörgum verkum sem hann málaði í Feneyjum. Hann ferðaðist víða um
meginland Evrópu í leit að viðfangsefnum og líka um Skotland og Wales en aldrei
út fyrir álfuna.
The Sun of Venice (1840). Í þessari vatnslitamynd fangar Turner mistrið
sem máir út skilin milli himins og hafs í Feneyjum.
Christopher Baker. J.M.W. Turner, bls. 88–89.
|
Verk Turners eru í anda
rómantísku stefnunnar en hann var alla tíð leitandi í listsköpun sinni og með
tímanum gætti óhlutbundinna áhrifa hjá honum. Hann fór ótroðnar slóðir í túlkun
og var mikill áhrifavaldur í þróun málaralistarinnar. Ég hef nokkuð lengi verið
aðdáandi Turners og fannst magnað að standa frammi fyrir stórum og þekktum olíumálverkum
eftir hann í National Gallery í London í haust.
Það var ekki síður ánægjulegt að sjá verk Turners í National
Galleries of Scotland. Þau leiddu hugann að áhugaverðri BA-ritgerð sem Derek Karl
Mundell skrifaði við Háskóla Íslands árið 2011 um vatnslitamyndir Ásgríms
Jónssonar (1876–1958) frá tímabilinu 1904–1914. Þar bendir Derek á að í
endurminningum sínum, Myndir og minningar sem Tómas Guðmundsson skáld skráði, segi Ásgrímur frá
því að hann hafi lært mest í vatnslitamálum af því að stúdera verk Turners. Rannsókn
Dereks beindist að því að skera úr um hver af verkum Turners Ásgrímur hefði
verið líklegur til að sjá á mótunarárum sínum sem listamaður. Ég fer ekki nánar
út í það hér en vísa á ritgerð Dereks, sem er aðgengileg á Skemmunni. Get þess
þó að Ásgrímur hafði skamma viðdvöl í Edinborg árið 1897 en eins og Derek
bendir á er ólíklegt að hann hafi séð vatnslitamyndir eftir Turner þar, enda
ekki fyrr en tveimur árum síðar sem National Galleries of Scotland fékk
áðurnefnd verk hans til varðveislu.
Ásgrímur málaði mikið í
Skaftafellssýslum árin 1910–1912, meðal annars á mínum heimaslóðum, í
Hornafirði, sumarið 1912. Í kafla um hornfirska myndlistarmenn í Sögu Hafnar get ég lítillega um heimsókn
Ásgríms til Hornafjarðar. Þar studdist ég meðal annars við dagbók langafa míns,
Gunnars Jónssonar, bónda í Þinganesi í Nesjum, en hann var leiðsögumaður
Ásgríms í Hornafirði. Dagbókin er að vísu fáorð um listamanninn. Þó má ýmislegt
af henni ráða um ferðir hans og veðráttuna en veðrið hlýtur alltaf að vera
áhrifavaldur á sýn listamanna á náttúruna og jafnvel vinnuaðstæður. Mér fannst
gaman að geta miðlað þessum upplýsingum til Dereks þegar hann hafði samband við
mig snemma árs 2011 en hann var þá að vinna að ritgerð sinni.
Sýnishorn úr dagbók Gunnars Jónssonar, bónda í Þinganesi, 15. júní 1912. Þá hefur Gunnar sótt Ásgrím suður að
Vagnsstöðum í Suðursveit en þangað fór Gunnar með málarann viku áður.
|
Ásgrímur er ekki margorður um Hornafjarðarreisu sína í
endurminningum sínum og ekki heldur í þeim blaðaviðtölum sem ég hef séð. Í grein um sýningu Listasafns Íslands á vatnslitamyndum Ásgríms
árið 1994 segir Bragi Ásgeirsson, myndlistamaður og gagnrýnandi Morgunblaðsins, að árin 1910–1912 hafa verið „lykilár á ferli
Ásgríms sem vatnslitamálara og einkum er árið 1912 þungt á metum, svo sem
nokkrar myndir á sýningunni eru til vitnis um. … Við þurfum einungis að
staðnæmast við myndina „Sólarlag við Hornafjörð“ til að sannfærast um að
eitthvað mikið var að ske í íslenzkri myndlist við tilurð myndarinnar. Eitthvað
sem aldrei áður hafði gerst og var nýtt og ferskt …“
Vatnslitamyndir Ásgríms
úr Skaftafellssýslum eru sannarlega einstakar. Eins og Turner túlkar hann meistaralega
samspil vatns/sjávar, lofts og ljóss um leið og hann gerir fjallahringnum skil.
Eins og Derek bendir á fann Ásgrímur sínar eigin Feneyjar í íslensku landslagi,
ekki síst á láglendinu í Skaftafellssýslum þar sem landið var víða umflotið
vatni.
Það má benda á fleiri
vinkla í sambandi við verk Ásgríms og Turners. Í erindi sem Jónas Jónsson frá
Hriflu flutti á samkomu Vestur-Íslendinga árið 1938 fjallaði hann meðal annars
um fjölbreytta fegurð íslenskra sveita og þá „einkennilegu draumkenndu fegurð“
sem honum fannst einkenna hin skóglausu og beru íslensku fjöll. Síðan sagði
Jónas orðrétt: „Mesti málari Englands, Turner, hefir málað á ógleymanlegan hátt
hitamóðu og mistrið, sem bræðir saman jörð, himin og haf á Englandi. Einn af
mestu málurum Íslands, Ásgrímur Jónsson, hefir á sama hátt túlkað hinn
gagnstæða þátt í fegurð Íslands, hin undursamlegu einkenni hins tæra, gagnsæja
skygnis, og hin óteljandi, hugljúfu blæbrigði sem skína með margfaldri fegurð í
þessu gegnsæja, svala andrúmslofti.“
Þótt samanburður
Jónasar á Turner og Ásgrími sé allt annar en Dereks er skemmtilegt og engin
tilviljun að hann skuli nefna meistarana í sömu andrá. Jónas var mikill aðdáandi
enskrar menningar og dvaldi oft á Englandi í utanferðum sínum, eins og lesa má
um í ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson sagnfræðing. En hvað sem öllum
samlíkingum líður fer ekki á milli mála að Turner og Ásgrímur túlkuðu
snilldarlega samspil láðs og lagar í vatnslitamyndum sínum.
Arnþór
Heimildir:
Arnþór Gunnarsson. Saga Hafnar í Hornfirði. 1940–1975.
Síðara bindi. Hornafirði: Sveitarfélagið Hornfjörður, 2000.
Baker, Christopher. J.M.W. Turner. The Vaughan Bequest.
Edinburgh: National Galleries of Scotland, 2008.
Bragi Ásgeirsson. Sá
gagnsæi strengur. Morgunblaðið 8.
febrúar 1994, bls. 10.
Derek Karl Mundell.
Ásgrímur Jónsson. The early watercolours 1904–1914. Ritgerð til B.A. prófs í
listfræði við Háskóla Íslands, maí 2011.
Í landi birtunnar. Myndir Ásgríms Jónssonar úr Skaftafellssýslum. [Reykjavík]: Listasafn Íslands, 1999.
Jónas Jónsson. Minni
Íslands. Heimskringla 3. ágúst 1938,
bls. 4.
Tómas Guðmundsson. Myndir og minningar. Reykjavík: Almenna
bókafélagið, 1956.