Skammt neðan við Princes Street hér í
Edinborg, aðeins niður með Leith Walk, liggur stutt gata sem heitir Elm Row. Í
húsi númer 13 bjó íslensk-danska amtmannsdóttirin Ágústa Johnsen um 1870 og
fékkst við kennslu.
Ágústa (f. 1821) var alin upp á Íslandi og í
Danmörku, dóttir Gríms Jónssonar amtmanns á Möðruvöllum og eiginkonu hans
Birgitte. Hún var vel menntuð á sinnar tíðar vísu, lærði m.a. ensku, frönsku og
þýsku, sögu, skrift, landafræði og reikning auk hannyrða og kristinfræði.
Ágústa og systir hennar Þóra voru hjá föður sínum á
Möðruvöllum síðustu tvö árin sem hann lifði, 1847-1849, en eftir andlát hans þurftu
þær að finna sér annan samastað og sjá sér farborða. Úr varð að þær fóru suður
til Bessastaða en þar bjó föðursystir þeirra, Ingibjörg Jónsdóttir.
Þóra fór fljótlega til Kaupmannahafnar en Ágústa var
áfram á Bessastöðum og kenndi barnabörnum Ingibjargar. Haustið 1851 fluttist
hún til Reykjavíkur og kom á fót stúlknaskóla (oftast er talað um stúlkur og
stúlknaskóla en stundum börn og því ekki útilokað að drengir hafi líka notið
kennslunnar). Þar lærðu stúlkur ýmsar hannyrðir en einnig tungumál eins og
dönsku og þýsku, kristindóm og landafræði. Þóra kom aftur til Íslands sumarið
1852 og rak þá skólann með systur sinni. Allt að 20–30 stúlkur sóttu skólann 1852–1853.
Flestar voru þær dætur embættismanna og hinna betur settu. Líklega var einnig í
boði einkakennsla því Sigríður Pálsdóttir, þá í Hraungerði, skrifar Páli bróður
sínum á Stapa í mars 1854: „Gunna mín var um tíma í sumar fyrir sunnan að læra
smávegis handiðnir hjá dætrum amtmanns sál. Gríms, þær eru 2 í Reykjavík og
lifa á að kenna börnum.“ Gunna var yngsta dóttir Sigríðar og var fimmtán ára
sumarið 1853. Lifa á að kenna börnum.
Mér sýnist Ágústa og þær systur fyrstu konurnar íslensku sem höfðu viðurværi
sitt af kennslu.
Ágústa og Þóra bjuggu í svokölluðu Dillonshúsi á
horni Suðurgötu og Túngötu og þar var skólinn einnig. Húsið átti Madame Siri
Ottesen sem hafði lifibrauð sitt af veitingasölu og leigu herbergja. Þótt allar
þrjár hafi haft viðurværi sitt af sjálfstæðum atvinnurekstri eru þær titlaðar í
samræmi við hjúskaparstöðu, eins og tíðkaðist. Systurnar eru frökenar en Madame Ottesen ekkja.
Horft til Edinborgarkastala frá Grassmarket 1860.
Mynd af facebókarsíðu Lost Edinburgh.
|
Umsagnir um systurnar gefa til kynna að þær hafi þótt
gáfaðar og vel menntaðar, sem þær örugglega voru á íslenskan mælikvarða. Enda
dáðust frændkonur þeirra mjög að þeim. Ingibjörg á Bessastöðum segir til dæmis
í bréfum til Gríms Thomsen sonar síns að þær séu efnilegustu stúlkur sem hún
hafi hitt og um Ágústu að hvað gáfurnar snerti ætti „hún víst fáa sína líka.“
Guðrún Þorgrímsdóttir, dóttir Ingibjargar, bætti um betur í bréfi til Gríms
bróður síns og sagði Ágústu líka Grími í gáfum! Og kannski voru þau
gáfumannapar um tíma, Grímur og frændkonan Ágústa, því heimildir gefa til kynna
að einhverjar tilfinningar hafi verið í spilunum og Grímur sært hana
hjartasári.
En rekstur litla stúlknaskólans gekk illa.
Skólagjaldið þótti hátt og sjálfsagt má einnig kenna um skilningsleysi á gildi
menntunar og almennri vantrú og andúð á menntun kvenna. Í nóvember 1854
skrifaði Ingibjörg á Bessastöðum Grími að stúlknaskólinn væri „að sálast“. Enda
eru Ágústa og Þóra ekki meðal íbúa að Túngötu 1 í desember 1854 og virðast hafa
farið til Kaupmannahafnar.
Þóra kom fljótlega aftur til Íslands og bjó hjá
föðursystur sinni á Bessastöðum þar til hún giftist Páli Melsteð árið 1859. Hún
stofnaði síðar Kvennaskólann í Reykjavík (1874) ásamt Páli.
Ágústa virðist hafa fengist við eða hugsað sér að
starfa við kennslu því varðveist hefur meðmælabréf á dönsku, skrifað af séra
Ásmundi Jónssyni, þá prófasti í Odda (eiginmanni frændkonu hennar, Guðrúnar
Þorgrímsdóttur) þar sem hann segir hana hafa við góðan orðstýr kennt börnum úr
„bestu fjölskyldum“ Reykjavíkur „lestur, fagur- og réttritun, reikning,
trúfræði, sögu, landafræði, frönsku, ensku, ásamt kvenlegum handiðnum“.
Jafnframt að Ágústa væri sérlega vel fallin til kennslu. Af þessu verður varla
annað ráðið en Ágústa hafi ætlað að starfa sem kennslukona ytra. Kristmundur
Bjarnason, sem hefur skrifað um Grím amtmann og fjölskyldu hans, segir að
Ágústa hafi á þessum tíma leitað sér lækninga við augnsjúkdómi.
Til Reykjavíkur kemur Ágústa aftur ekki síðar en 1865
og er þá skráð til heimilis í Aðalstræti 3, þar sem hún er ekki aðeins titluð
fröken heldur fær hún einnig stöðuheitið „kennir mál“ í sálnaregistrum
Dómkirkjunnar í Reykjavík.
Vorið 1865 skrifaði Þórdís Thorstensen í Reykjavík
vinkonu sinni, Jakobínu Jónsdóttur á Hólmum í Reyðarfirði: „Fröken Augusta
Johnsen var hjer hjá mér í gjærkveldi, jeg var að óska með sjálfri mjer, að þú
hefðir verið horfin [hingað] líka, jeg er viss um að þú gætir vel liðið hana,
hún er svo góð og gáfuð stúlka.“
Sjálf þráði Jakobína, þá þrítug, fátt meira en
menntun og framfarir og fór af þeim sökum suður til Reykjavíkur haustið 1865. Enda
Reykjavík staðurinn sem „hugsar og ályktar“, eins og bróðir hennar Sigfús
Jónsson skrifaði í bréfi.
Í nóvember 1865 skrifar Jakobína systur sinni að hún
sæki „tíma í Frönsku hjá Fröken Augustu 2 í viku“. Áður hafði hún lært smávegis
í þessu fagra tungumáli hjá frændkonu sinni austur á Reyðarfirði. Bína kunni
ákaflega vel við fröken Ágústu, sem var henni „undur góð“. Eftir hálft ár í
Reykjavík skrifar hún:
„Hvergi hefi jeg komið eins opt og til fröken Augustu
bæði þegar jeg hefi tíma hjá henni og svo opt á kveldin stund og stund, til að
njóta viðræða hennar sem eru bæði skemtilegar og mjög uppbyggilegar; hún hefir
verið mjer sjerlega góð, og mjer þykir sannl. væntum að hafa fengið að þekkja
hana. Hún safnar að sjer mörgum úngum stúlkum sem flestar hafa lært hjá henni,
svo þar er stundum húsfyllir og glatt á hjalla: Í vetr hefir hún eitthvað 14
Eleva.“
Af þessu má sjá að Ágústa stóð fyrir einhvers konar ‘salon’
þar sem stúlkur og konur áttu „skemtilegar“ og „uppbyggilegar“ samræður.
Mademoiselle A. Johnson boðið á ball um borð í Pandore. |
Ágústa tilheyrði heimi heldra fólksins og varðveist
hefur boðskort þar sem Mademoiselle A. Johnson er boðið til kvöldverðar og dansiballs
um borð í franska herskipinu Pandore sunnudaginn 19. ágúst 1866. Samskonar
boðskort Jakobínu Jónsdóttur frá 1866 og raunar einnig 1867 eru og varðveitt.
Kannski dugði nemendafjöldinn ekki Ágústu til að hafa
í sig og á. Kannski leiddist henni í Reykjavík. Að minnsta kosti fer hún þaðan,
líklega þegar árið 1867, hingað til Edinborgar og fékkst við kennslu. Óljóst er
hvort það var við stofnun eða einkakennsla.
Ágústa skrifar mági sínum Páli Melsteð frá Edinborg í
maí árið 1868. Því miður segir hún ekkert um starf sitt, en nefnir „nemendur“
sína í framhjáhlaupi. Samhengið gefur til kynna skóla. Bréfið fjallar annars um
hvað póstþjónustan sé erfið því bréf eru tolluð þegar þau koma úr skipunum og
heilmikil fyrirhöfn að fá þau afhent. Ágústa segir til dæmis frá því að þegar
hún sótti eina bréfið sem hún fékk með síðasta skipi vildi afgreiðslumaðurinn
einhverja sönnun þess að hún væri raunverulega viðtakandinn, reif það upp og
dró upp ljósmynd og spurði hvort hún þekkti þá sem á myndinni væri? Jú, það var
nú bara hún frú Havstein, sem skrifaði bréfið og sendi mynd af sér. Best er,
skrifaði Ágústa, að biðja einhvern farþega fyrir bréf í staðinn fyrir að standa
í svona veseni og aukakostnaði. Og besti Páll, skrifaðu. Utanáskriftin er Miss
E.G.A. Johnsen, 12 Antigua Street, Leith Walk, at Mrs Youngs, Edinburgh.
Antigua Street númer 12 er ofarlega við Leith Walk,
næstum beint á móti Elm Row. Á vef National Library er hægt að skoða Scottish Post Office Directories, en í það rit var hægt, gegn gjaldi, að skrá sig og
atvinnu sína. Ekki tókst mér að finna Ágústu en 1868–1869 skráir sig þar Georg
Young, sem höndlaði með járnvöru (iron
monger). Líklega hefur Ágústa leigt herbergi hjá honum og konu hans, frú
Young.
Stillansar og veggjakrot en þó er hér staðið
í sporum Ágústu á 13 Elm Row í maí 2013.
Ljósmynd Hrefna Róbertsdóttir
|
Á 13 Elm Row er Ágústa samkvæmt manntali 2. apríl
1871. Þar er hún skráð sem E. G. Augusta Johnston, leigjandi, 48 ára, kennir
tungumál, frá Danmörku. Í húsinu býr Edinborgarinn James Thomsen
kaupmaður/bakari ásamt eiginkonu, dóttur og vinnukonu. Annað
heimili hélt Barbara Mackay frá Orkneyjum, með eina vinnukonu, og hafði atvinnu
af því að leigja út herbergi. Líklega
hefur Ágústa leigt hjá henni eins og þrír aðrir íbúar hússins sem eru skráðir
leigjendur (lodger). Það eru
Íslendingurinn Sveinbjörn Sveinbjörnsson, sem kennir tónlist (og lesa má um í
öðru bloggi), danskur karlmaður og Skoti frá Fife (hér handan Forth fjarðarins).
Skjalaverðinum sem fann Ágústu fyrir mig í manntalinu fannst svolítið merkileg
þessi samsetning á fólki í húsinu. Hann sagði mér líka að húsið var byggt 1821
og að um það leyti sem Ágústa bjó á Elm Row hefði verið talsverð uppbygging á
svæðinu þar í kring – millistéttin að koma sér þar fyrir og ýtti þar með
verkalýðnum og ‘slömminu’ lengra í áttina niður til Leith.
En Ágústa var í samneyti við fínt fólk, kannski hún
hafi kennt dætrum heldra fólks eða efri millistéttar. Að minnsta kosti komst
hún í fín boð því varðveist hefur boðskort þar sem Miss Johnston er boðið eina
kvöldstund til greifynjunnar af Stair í tilefni af afmæli Viktoríu drottingar Englands.
Óneitanlega svolítið skemmtilegt. Snöggt gúggl leiddi í ljós að greifynjan hét
Louisa Jane Henrietta Emily de Franquetot og var frönsk. Hún var gift John Hamilton Dalrymple, jarlinum
of Stair, efnamanni og nokkuð háttsettum í skoskri pólitík ef marka má netið.
Miss Johnston er boðið í heimsóknartíma/boð
greifynjunnar af Stair 27. maí kl. 9–11,
til heiðurs drottingunni.
|
Að öðru leyti er lítið vitað um störf Ágústu. Í
bréfasafni Þóru systur hennar og Páls Melsteð er ekki margt sem varpar ljósi á
líf hennar hér. Þóra mun hafa brennt eitthvað af bréfum, því miður.
Þóra Melsteð systir Ágústu brá sér til
Kaupmannahafnar sumarið 1870 til að tala máli kvennaskóla við áhrifafólk. Páll
skrifaði konu sinni frá Reykjavík í júlí og taldi upp mögulegar skipaferðir
heim til Íslands og hvatti hana eindregið til að taka skip sem kæmi við í
Skotlandi: „ ... þangað ættir þú
endilega að koma, því öll sú fegurð, sem þar kvað vera, hlýtur að gleðja þig
fyr og síðar. ... Augusta verður farin að öllum líkindum í Nov. frá Edinborg.
En að koma þángað meðan hún er, er dobbelt interessant fyrir þig.“
Þóra fór að ráðum Páls og stoppaði hjá systur sinni.
En Ágústa fór ekki frá Edinborg haustið 1870 eins og Páll gerir ráð fyrir, sbr.
manntalið hér að ofan. Kristmundur Bjarnason segir að það hafi verið 1871. Hann
segir jafnframt að þá hafi sjón hennar hrakað mjög sem hafi gert það að verkum
að hún átti kost á fáum störfum í Kaupmannahöfn.
Úr rættist þegar hún fékk inni í jómfrúrklaustrinu
Christiandal Kloster á Sjálandi árið 1872 og varð þar forstöðukona. Þetta var
ekki hefðbundið klaustur heldur einskonar heimili hátt á þriðja tug heldri
jómfrúa. Þarna naut Ágústa sín við stjórnun og störf en heilsu hennar hélt
áfram að hraka og um 1875 bættist við einhvers konar lömun sem gerði henni
erfitt um vik að sinna nokkurri vinnu. Hún skrifar sjálf í bréfi að það eina
sem hún geti gert með höndum sínum sé að skrifa. Og best sé einfaldlega að
liggja í rúminu.
Fröken Ágústa dó 1. apríl 1878. John bróðir hennar
rétt náði til hennar, kom í hraði frá Kaupmannahöfn, klukkustund áður en hún
dó. Þá var hún nánast án meðvitundar og þekkti hann ekki. Prestur hafði þjónustað
hana um miðjan dag og þá hafði hún brosað við stóra Íslandskortinu sem hékk
ofan við rúmið hennar. Þessa síðustu klukkustund sat John með hendi hennar í
sinni.
Ágústa var jörðuð 9. apríl, lögð í eikarmálaða kistu
sem skreytt var krönsum, krossum og skrautfléttum. Viðstödd voru jómfrúrnar og
vildarvinir Ágústu, af systkinum hennar bræðurnir John og Júlíus, einnig
Emilie, eiginkona Johns og kærasta vinkona Þóru. Hún skrifaði mágkonu sinni
ítarlega lýsingu á dauða Ágústu og jarðarförinni. Og sagði henni að hún hefði
pantað krans í nafni þeirra systra sem ekki komust til jarðarfararinnar, Þóru
og Nínu.
Í útfararræðu séra Ólafs Waage er gefin nokkur innsýn
í líf Ágústu. Hún hafði, sagði hann, frá náttúrunnar hendi fremur þungt sinni
og dvaldi oftar við dekkri hliðar lífsins en hinar bjartari. Hún hafði frá unga
aldri reynt mótlæti í lífinu en hann hefur fögur orð um dugnað hennar, skýra
skynsemi, kröftugan vilja og atorkusemi sem hafi gert henni kleift að vinna
verk sín. Og presturinn bætti við svolitlu kvennapólitísku sjónarhorni því hann
sagði að í mörg ár hefði hún staðið ein í heiminum, tilneydd til að sjá sjálfri
sér farborða með vinnu og þannig þurft að búa við þá óvissu sem svo oft fylgdi
kjörum ógiftra kvenna. Þessi orð eru auðvitað lituð af því viðhorfi að hið
‘rétta’ var að giftast – góður eiginmaður sá konu sinni og börnum farborða.
Á hinn bóginn dáðist fólk að dugmiklum og atorkusömum
konum og þannig var um Ágústu, hún naut virðingar fyrir störf sín, segir í
útfarræðunni. Og hennar er minnst í tveimur íslenskum blöðum Ísafold og Þjóðólfi, samhljóða texti sem systir hennar Þóra og mágurinn Páll
hafa vafalaust sent inn. Þar eru helstu æviatriði, sagt frá barnaskólanum, sem
hafi verið henni til sóma, jafnframt að hún hafi haft „góðar gáfur, var
hjartagóð, drenglynd og tápmikil, og eflaust fær til mikils starfs og
framkvæmda, ef lífsstaða hennar hefði leyft.“
Ágústa í Edinborg 1867–1871/2. |
„Þú hefðir átt að verða drengur í brók“, sagði bróðir
Jakobínu Jónsdóttur við hana um það leyti sem hún fór suður til að læra frönsku
og eitthvað fleira hjá Ágústu árið 1865. Kannski einhverjum hafi flogið hið
sama í hug um Ágústu – sem drengur, sem karlmanni, hefðu henni verið fleiri
vegir færir. En sem kona ruddi hún braut fyrir aðrar konur. Hún kenndi ungum
stúlkum og konum fögur tungumál, hannyrðir og landafræði. Hún kenndi þeim vitsmunalegar
samræður.
Þegar Ágústa dó átti hún fjölmargar bækur sem skipt
var á milli ættingja samkvæmt tilmælum hennar sjálfrar. Enskar bækur og
íslenskar, örugglega franskar líka, Íslendingasögur, þjóðsögur. Sjálfsmynd
Ágústu var tengd bókum. Á þeim tveimur ljósmyndum sem ég hef séð af henni er
hún með bækur. Í
bók Kristmundar um Grím föður hennar (bls. 377) er mynd af Ágústu þar sem hún
situr við borð og tyllir olnboga vinstri handar á bók, í þeirri hægri heldur
hún á opinni bók. Í doktorsritgerðinni minni birti ég mynd af Ágústu sem tekin
var hér í Edinborg en varðveitt á Þjóðminjasafni. Þar situr hún við skrifpúlt
með penna í hönd, tilbúin að festa hugsanir sínar á blað. Á púltinu liggja
bækur. Ágústa var kona bóka, vits og þekkingar og átti sinn þátt í að skapa
íslensku nútímakonuna.
Edinborg,
Erla Hulda
* Ágústa er í heimildum skrifuð Johnsen, Johnson,
Johnsson, Johnston. Ég hef yfirleitt notað það fyrstnefnda.
Helstu heimildir:
Skjöl á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn en
einnig eftirfarandi prentuð rit:
Erla Hulda Halldórsdóttir, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903.
Reykjavík: Sagnfræðistofnun/RIKK/Háskólaútgáfan, 2011, bls. 110–117, 171–173, 272.
Erla Hulda Halldórsdóttir, „Framfaravonir og
veruleiki Jakobínu Jónsdóttur“, Kvennaslóðir.
Rit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi. Ritstj. Anna
Agnarsdóttir, o.fl. Reykjavík: Kvennasögusafn Íslands, 2001, bls. 162–174.
Guðrún P. Helgadóttir, „Þóra Melsteð“. Kvennaskólinn í Reykjavík 1874–1974.
Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1974.
Kristmundur Bjarnason, „Frá börnum amtmannsins á Einbúasetrinu“, Andvari 134 (2009),
bls. 163–195.
Kristmundur Bjarnason, Amtmaðurinn á Einbúasetrinu. Ævisaga Gríms Jónssonar. Reykjavík:
Iðunn, 2008.