laugardagur, 15. mars 2014

Aðdráttarafl eldgosa

Lítil og „saklaus“ eldgos á Íslandi eru stundum kölluð túristagos. Það getur til dæmis átt við um eldgosið á Fimmvörðuhálsi í mars 2010. Gosið ógnaði ekki mannabyggð og tiltölulega þægilegt var að virða það fyrir sér úr öruggri fjarlægð (ef á annað borð er hægt að tala um að eitthvað sé öruggt þegar eldgos eru annars vegar). Minnti svolítið á gömlu rómantísku landslagsmálverkin sem lýsa ægifegurð, þ.e. fögru og tilkomumiklu landslagi þar sem áhorfandinn skynjaði jafnframt ógnina sem í náttúrunni býr. 

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi, 26. mars 2010.                                                                              Ljósmynd Arnþór



Öðru máli gildir um eldgosið sem hófst í Eyjafjallajökli í apríl sama ár. Þótt vissulega hafi verið auðvelt að virða gosið fyrir sér úr fjarlægð, þá var það mjög kraftmikið og byggð í nágrenninu stafaði ógn af því. Eldgosið setti líka millilandaflug úr skorðum eins og frægt er. Slíkt gos er annað og meira en túristagos. En hin gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun um eldgosið og afleiðingar þess vakti mikla athygli á Íslandi og því á gosið áreiðanlega sinn þátt í sívaxandi ferðamannastraumi til landsins. 

Eldgosið í Eyjafjallajökli séð frá Hellu, 17. apríl 2010.                                                         Ljósmynd Arnþór

Aðdráttarafl íslenskra eldgosa er ekki nýtt fyrirbæri. Um aldir var Hekla alræmd um alla Evrópu vegna stórgosa. Askan frá þeim barst stundum austur yfir Atlantsála og þar trúðu margir því að fjallið væri inngangur að helvíti. Erlendir ferðamenn sóttust eftir því að sjá Heklu, kanna umhverfi fjallsins og sumir gerðust svo djarfir að reyna uppgöngu á það.
Undanfarna áratugi hefur Hekla gosið tíðar en fyrr á öldum og gosin líkst túristagosum. Þau hafa að vísu byrjað með látum en að fáum dögum liðnum hefur allur kraftur verið úr gosunum og þau síðan fljótlega fjarað út. Síðasta stórgos í Heklu varð árið 1947 en þá var liðin rúm ein öld frá þar síðasta stórgosi. Það hófst haustið 1845 og stóð fram á næsta ár. Þessi tvö gos voru sannarlega engin túristagos en höfðu samt sem áður töluvert aðdráttarafl. Í sendibréfi sem Árni Helgason, prófastur í Görðum á Álftanesi, sendi vini sínum Bjarna Þorsteinssyni, amtmanni á Stapa á Snæfellsnesi, 28. september 1845, segir meðal annars:
„Fréttir eru engar hér nema Heklugosið, sem dregur að sér alla upplýsta menn úr kaupstöðum vorum og suma tvisvar, svo bændur eystra eru farnir að kveina undan átroðningi, enda þykir þeim ekki tilefni til lystiferða, þegar bjargræði þeirra er að eyðileggjast.“ (Biskupinn í Görðum, bls. 226.) Síðar í sama bréfi segir Árni: „Eftir vissum embættismanni hefir borizt hingað sú hans ósk, að Hekla logaði í þrjú ár, og þá skyldi Ísland komast á legg, því þá mundi hálf Norðurálfan koma hingað til að sjá hennar dýrð og eyða hér sínu fé.“ (Biskupinn í Görðum, bls. 227.) 
Teikning úr handriti Odds Erlendssonar á Þúfu í Landsveit
um eldgosið í Heklu 1845–1846.
Þessi lýsing gæti allt eins átt við um ákefðina sem grípur fólk þegar eldgos verða á Suðurlandi nú á dögum. Landsmenn (kaupstaðarbúar aðallega!) þeysa austur yfir fjall til að virða ósköpin fyrir sér og ferðaþjónustufyrirtæki leggja á ráðin um hvernig þau geti gert sér mat úr atburðunum.
Arnþór

Heimildir:
Biskupinn í Görðum. Sendibréf 1810–1853. Íslenzk sendibréf II. Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1959.

Um frægð Heklu og aðdráttarafl hennar á ferðamenn fyrr á öldum má lesa í bók Sumarliða Ísleifssonar, Ísland, framandi land. Reykjavík: Mál og menning, 1996.