laugardagur, 29. mars 2014

Samfélagsleg uppbygging – samfélagslegt niðurbrot

Framan af tuttugustu öld var Ísland eftirbátur annarra Vesturlanda (sem við berum okkur gjarnan saman við) á mörgum sviðum. Landið hafði nánast misst af iðnbyltingunni á nítjándu öld og stóðst ekki samjöfnuð við þessi ríki í lífsgæðum. Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari urðu straumhvörf. Peningar streymdu inn í landið og atvinnulífið tók við sér. Áratugina eftir stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944 snerust íslensk stjórnmál meira og minna um að vinna upp forskotið sem samanburðarlöndin höfðu; að efla atvinnulífið og byggja jafnframt upp grunnstoðir samfélagsins og skapa þannig velferðarkerfi til hagsbóta fyrir allar stéttir. Kannski var það þetta markmið sem öðru fremur sameinaði þjóðina[1] hvað sem leið ólíkri afstöðu til hersetunnar og aðildar að Atlantshafsbandalaginu, stéttaskiptingu (sem vissulega var til staðar þótt hún væri ekki jafnáberandi og víða annars staðar), togstreitu þéttbýlis og dreifbýlis / höfuðborgar og landsbyggðar, kynjamisrétti og öðrum þáttum sem sundra. Um land allt, til sjávar og sveita, var verk að vinna. Fjölga þurfti læknum og efla heilbrigðisþjónustu, fjölga kennurum og reisa skólahús, byggja sundlaugar, samkomuhús og leikskóla, steypa götur, brúa ár, bæta hafnir, leggja flugbrautir o.s.frv. Þessi verkefni settu allir stjórnmálaflokkar á oddinn þótt forgangsröðin væri stundum misjöfn. Eftir að hafa rannsakað og skrifað sögu byggðarlags, Hafnar í Hornafirði, tel ég mig hafa þokkalega tilfinningu fyrir þessu, enda eru byggðarlög að sumu leyti (en alls ekki öllu) smækkuð mynd af þjóðfélagi.

Þegar Íslendingar fögnuðu 50 ára afmæli lýðveldisins á Þingvöllum 17. júní 1994 virtust stjórnmálamenn og aðrir sem til máls tóku, eða stungu niður penna, tiltölulega sáttir við þann árangur sem náðst hafði frá stofnun lýðveldisins. Og Íslendingar tóku stoltir á móti fjölmörgum erlendum gestum sem samfögnuðu þeim á þessum tímamótum. (Sjá t.d. Morgunblaðið 19. júní 1994 en þar segir ítarlega frá hátíðinni á Þingvöllum.) Íslendingum hafði svo gott sem tekist (ekki þó einum og óstuddum eins og stundum má ætla af umræðunni) að byggja upp grunnstoðir samfélagsins og komast í hóp þeirra þjóða sem bjuggu við hvað best lífskjör.
Að viðhalda og efla velferðarkerfið krefst stöðugt nýrrar tækni og betri menntunar. Það er út af fyrir sig verðugt verkefni sem ætti alltaf að hafa forgang. En fljótlega eftir 50 ára afmælið fóru menn að keppast við að skara eld að eigin köku sem aldrei fyrr. Á sama tíma hefur virðingin fyrir velferðarkerfinu hnignað, menn finna því jafnvel allt til foráttu, telja það ýta undir aumingjaskap, hefta frelsi einstaklings til að gera það sem honum þóknast o.s.frv.
Núna, tveimur áratugum eftir 50 ára lýðveldisafmælið, er ekki laust við að sjálfsmynd þjóðarinnar sé orðin svolítið sködduð. Eftir einkavæðingu bankana og síðan hrun þeirra er hagkerfið í höftum á ný og grunnstoðir samfélagsins eru byrjaðar að molna vegna fjárskorts og óeiningar um rekstur þeirra. Bandaríski herinn er farinn af landi brott og Ísland er því ekki lengur í pólitísku og efnahagslegu skjóli risaveldisins, eins og þegar lýðveldið var stofnað og lengst af síðan.
Samfélagslegt niðurbrot er ekki eitthvað sem menn ætla sér en getur samt sem áður átt sér stað ef illa tekst til um mótun framtíðarstefnu. Það stefndi enginn að bankahruninu en það varð engu að síður að veruleika.
Arnþór



[1] Vissulega mætti nefna önnur atriði eins og baráttuna fyrir útfærslu landhelginnar og að endurheimta handritin frá Dönum, samanber athyglisverða grein eftir Svanhildi Óskarsdóttur á vefsíðu Tímarits máls og menningar, 24. mars sl.