föstudagur, 4. apríl 2014

Utangarðs eða innan?

Eitt af því sem stöðugt er hamrað á við íslenska fræðimenn er að þeir þurfi að skrifa greinar á ensku og birta í erlendum tímaritum, ritrýndum auðvitað, en það þýðir að ritstjórar fá tvo til þrjá fræðimenn með þekkingu á efninu til að lesa greinina yfir og meta hvort hún sé hæf til birtingar.  Og gera tillögu að breytingum. Í þessu öllu felst heilmikil vinna vegna tungumálsins en þá ekki síður í því að vinna rannsóknir sem byggjast á íslensku efni, sögulegum íslenskum veruleika, inn í alþjóðlegt rannsóknarsamhengi. Forsenda birtingar er því að skrifa okkar íslenska efni inn í norræna, evrópska eða alþjóðlega rannsóknarhefð og reyna að sannfæra þá sem lesa um að þessi saga norðan úr Atlantshafi eigi erindi út fyrir landsteinana. 
Ég hef hugsað talsvert um þetta undanfarinn áratug, bæði meðan ég var í doktorsnámi og starfaði sem slík með fólki víðsvegar úr Evrópu, en ekki síður núna þegar ég sem fullgildur fræðimaður reyni að gera mig og mínar rannsóknir gildandi í stærra samhengi en heima á Íslandi. 
Konur á íslenskum búningi árið 1847, séðar með augum Carl L. Petersen. 
Mynd tekin úr Ponzi, Ísland á 19. öld.
Sumt er auðveldara en annað í þessu efni. Ef til dæmis er fjallað um kvennahreyfinguna á Íslandi um aldamótin 1900 er fremur auðvelt að setja hana í samhengi við alþjóðlega strauma á sama tíma og þá ekki síður við rannsóknir á efninu. 
Þegar fjalla á um líf einstaklings á borð við núverandi viðfangsefni mitt, Sigríði Pálsdóttur, sem var fædd 1809 og dó 1871, verður málið svolítið snúnara af því það er ekkert sjálfgefið að hún og hennar líf eigi erindi úr landi. Nítjándu aldar kona sem lifði fremur venjulegu lífi, gerði ekkert um ævina sem telst markvert eða afgerandi. Nema jú að skrifa 250 bréf sem dreifast yfir rúmlega hálfa öld og dekka þannig mannsævi. Eða hvað? Hver segir til um það hvaða saga sé nógu merkileg til að vera sögð utan síns þjóðlega samhengis?
Þegar ég fór af stað með rannsókn á bréfaskrifum og lífi Sigríðar setti ég mér það markmið að segja sögu hennar utan Íslands og að færa rök fyrir því að rödd einnar 19. aldar konu ofan af Íslandi skipti máli í hinu stóra samhengi evrópskrar kvenna- og kynjasögu.
Tískuklæðnaður 1833. Klæðnaður sem þessi hefur ekki verið á 
hverrar konu færi uppi á Íslandi og alls ekki hentugur 
fyrir húsfreyjur í íslenskum baðstofum. Myndin tekin héðan.
Málið er nefnilega að akademísk kvenna- og kynjasaga (rúmlega 40 ára gamalt fagsvið) hefur búið sér til sína eigin stórsögu (stórsaga eru þessar stóru meginlínur sögunnar sem eru yfirleitt ríkjandi í sögulegri frásögn) sem byggir aðallega á sögu breskra kvenna með smá dassi frá Þýskalandi og Frakklandi. Þetta er auðvitað svolítil einföldum hjá mér en í meginatriðum rétt. Fræðimenn, einkum frá enskumælandi löndum, eru t.d. mjög uppteknir af því að hugsa um 19. öldina sem Viktoríutímabilið (kennt við valdatíma Viktoríu drottningar 1837–1901) sem einkenndist af vaxandi iðn- og borgvæðingu, menntun og réttindum kvenna en um leið óx mjög fiskur um hrygg hugmyndafræði sem kölluð hefur verið húshalds- eða heimilishugmyndafræði. Samkvæmt henni áttu hinar annars ágætlega menntuðu konur enskrar mið- og yfirstéttar að halda sig að mestu inni á heimilinu, vera engill hússins, svo vísað sé til vinsæls hugtaks frá þessum tíma, og búa eiginmanni sínum notalegt athvarf frá heimi hins útivinnandi (karl)manns. Fræðimenn takast reyndar á um hversu áhrifarík og almenn þessi hugmyndafræði hafi verið í raun en hún var allavega til staðar.
Allar þessar hugmyndir rötuðu í einhverju formi til Íslands en ekki endilega á sama tíma og þær voru uppi í Bretlandi eða annars staðar í iðnvæddari ríkjum. Og svo var jarðvegurinn allur annar á Íslandi og birtingarmyndir eða innleiðing hugmynda því oft með öðrum hætti. Árið 1850 voru Íslendingar til dæmis 59.000. Flestir höfðu viðurværi sitt af landbúnaði. Yfirstéttin, embættismannastéttin, var fámenn en það var einna helst hún sem gat hagað lífi sínu að einhverju leyti í samræmi við hugmyndafræðina í útlöndum. Og þó ekki. Þetta kemur til dæmis vel fram í bók Sigrúnar Pálsdóttur sagnfræðings um Þóru biskups.
Þegar við sagnfræðingar skoðum okkar sögu í samhengi við meginstraumana í iðnvæddum löndum 19. aldar lítum við gjarnan á þau sem normið og okkur sem frávikið. Á þann hátt verðum við ómeðvitað jaðarland, jaðarsaga (e. marginal) eða kannski bara utangarðs, sem er svolítið skemmtilegt gamalt orð þótt merking þess sé kannski önnur en ég reyni að færa í orð hér. Það er því ekki nóg með að við séum bókstaflega á jaðri hins byggilega heims landfræðilega heldur einnig þegar kemur að sögu lands og þjóðar. Og þetta er mjög áberandi þegar hlustað er á fyrirlestra engilsaxneskra fræðimanna: Þau tala alltaf eins og sagan sem þau segja sé meginstraumurinn; eins og þau þurfi aldrei að útskýra staðhætti, fólksfjölda, mishröðun og allt þetta sem við, fráviksfólkið, erum svo vön að gera. Og þegar ég hef rætt þetta við þau yfir kaffibolla verða þau hissa af því þau hafa bara aldrei hugsað út í forréttindastöðu sína. Heldur ekki tungumálið (enskuna). Það hefur eiginlega komið mér meira á óvart.
Málfríður Einarsdóttir í Reykjavík. Máluð í
sínu fínasta pússi af Auguste Mayer í 
leiðangri Gaimards 1836. Hún þótti fögur.
Mynd tekin úr Ponzi, Ísland á 19. öld.
Þetta kann þó að vera að breytast því meðal evrópskra kvenna- og kynjasögufræðinga er vaxandi vitund um að sú saga sem hefur verið kynnt sem saga evrópskra kvenna sé aðeins saga afmarkaðs hluta og eigi ekki endilega að vera „normið”. Stórir hlutar Evrópu verða útundan í þessari sögu: lönd, héruð, „jaðrar“, þar sem reynsla kvenna (og karla) var með öðrum hætti en meginstraumssagan gerir ráð fyrir. Þetta er m.a. rætt í bók Routledge útgáfunnar um sögu kvenna í Evrópu frá 1700, The Routledge History of Women in Europe. Þá hefur breski sagnfræðingurinn Lynn Abrams rætt um reynslu sína af því annars vegar að skrifa nokkurs konar evrópska stórsögu kvenna, The Making of Modern Woman (frábær bók) og hins vegar sögu kvenna á Hjaltlandseyjum, þar sem hún upplifði ósamræmi milli hinna stórsögulegu lína (borgaralegu reynslunnar) og veruleika kvenna á Hjaltlandseyjum að fornu og nýju (konurnar þar pössuðu t.d. alls ekki inn í hugmyndafræði Viktoríutímans). Þetta þýddi samt ekki, skrifar hún í grein um efnið, að tíminn hafi staðið kyrr á Hjaltlandseyjum. Þvert á móti. Þetta var einfaldlega önnur saga, önnur reynsla. Og þessar raddir þurfa að heyrast segir hún í grein sinni í Gender & History og á ekki að skoða sem jaðarsettar miðað við einhverja miðju eða kjarna. 
Það eru meðal annars þessi skrif sem hafa orðið mér hvati til að vinna með venjulega íslenska 19. aldar konu í erlendu samhengi og ræða um hana og hennar reynslu eins og hún, og saga Íslands í stóru og smáu, skipti máli fyrir evrópska sögu. Abrams segir í áðurnefndri grein að hún hafi stundum fundið fyrir óöryggi í Hjaltlandseyjarannsókn sinni af því hún steig út fyrir þægindarammann, út fyrir stórsöguna – og þurfti að takast á við annars konar frásagnir og reynslur en hún var vön í rannsóknum sínum á sögu kvenna. Mér hefur sjálfri fundist að þessu væri eiginlega öfugt farið hjá mér, að það væri áskorun að fjalla um konu eins og Sigríði í hinu stórsögulega samhengi og færa rök fyrir því að rödd hennar skipti máli.
Útrás okkar Sigríðar síðustu misseri hefur þó sýnt mér að fólk í útlöndum hefur áhuga á sögu frá Íslandi og fræðilegum vangaveltum um jaðar og miðju, um mismunandi reynslur og því hvernig konur (og karlar) uppi á Íslandi lifðu lífi sínu á 19. öld.
                                                                       Edinborg, Erla Hulda

Rafrænn aðgangur (landsaðgangur) í gegnum www.leitir.is:
Lynn Abrams, „The Unseamed Picture: Conflicting Narratives of Women in the Moderen European past“, Gender & History, 20:3 (2008), bls. 628–643.