föstudagur, 21. mars 2014

Elskað of mikið? Sagnfræðingurinn í verki sínu

Gömul sendibréf eru heillandi vitnisburður um horfinn tíma; um atburði og einstaklinga, um hugmyndir og hugarheim. Það sem í þeim stendur er ekki endilega sannleikur heldur sjónarhorn og stundum sviðsetningar – jafnvel lygi og blekkingar.
Baldvin Einarsson grét örlög sín og Kristrúnar,
sem hann elskaði, í þessu bréfi til föður hennar, 
séra Jóns Jónssonar á Grenjaðarstað. „Æ! Elskaði 
faðir! Hvað vil eg vera að orðlengja þetta framar, 
þér haldið kannski að það sé skrum, og þó nei 
þér eruð ekki svo grimmur, tárin sem hafa klest 
blekið í bréfinu, tárin sem ekki hafa þornað á 
meðan eg hefi skrifað yður.“ 
Bréf hafa tilfinningaleg áhrif og það er auðvelt að hrífast með eða fyllast andúð á bréfritara. Jafnvel fyrir sagnfræðinginn sem les löngu síðar. Stundum verður nándin næstum óþægileg og engin furða að því hafi stundum verið líkt við gægjur að fást við svo persónulegar heimildir – og ganga jafn nærri persónu og fylgir ritun á ævisögu. 
Sjálf hef ég roðnað á skjalasöfnum, t.d. þar sem „rauðu eikurnar í vangaskógi” karlmanns liðu niður dalinn milli brjósta elskunnar hans árið 1836, og þegar önnur kona í örvæntingu velti fyrir sér í bréfi til eiginmannsins í Kaupmannahöfn, á sjöunda áratugi nítjándu aldar, hvort hann gældi við brjóst kvenna þar eins og við hennar. Um leið er þetta svo óendanlega fagurt. Tilfinningar eins og ást og afbrýði eru einhvern veginn tímalausar.
Augun hafa fyllst tárum þegar dauðann ber að garði. „En það er nú komið fyrir mér eins og forföður okkar gamla Eygli (að mjög er of tregt tungu að hræra) þú trúir ekki hvað ónít ég hef verið að bera af mér söknuð eptir Jórunni litlu“, skrifar Sigríður Pálsdóttir árið 1854 þegar dauðinn hafði sótt hana heim eina ferðina enn. Nú til að sækja Jórunni yngstu dóttur hennar sem var komin fjórtán vikur á annað ár. Nógu oft hafði samt sjúkdóma og dauða borið að í lífi hennar. 
Og reiðin hefur fyllt hugann – eins og þegar Baldvin Einarsson svíkur sína huldumey á Íslandi fyrir danska fegurð, en heldur áfram að skrifa eldheit ástarbréf þar sem hann þráir það eitt að þau séu saman. En reiðin víkur fyrir samúð og skilningi. Hver er ég að dæma? Um það hef ég fjallaði í grein þar sem társtokkið bréf Baldvins varð að óþægilegri heimild sem lét ekki að stjórn og setti mig úr tilfinningalegu og fræðilegu jafnvægi. 
Svo eru það allar konurnar sem láta sig dreyma um eitthvað annað en samfélag 19. aldar bauð þeim, og skrifa um menntun og bækur. Láta sig dreyma um að þær hefðu fæðst drengir, því þá hefðu þær átt raunverulega möguleika á menntun og öðru lífsstarfi en móður- og húsmóðurhlutverkinu. Konur sem létu sig kvenfrelsi varða. Hjarta mitt hefur slegið með þeim og ég velt því fyrir mér hvort ég sjái mig í þeim eða þær í mér. Er það blóð formæðra minna sem hefur þessi áhrif?
Og bréfin sem slík eru eins og hlutir sem ég handfjatla um leið og ég hugsa um fólkið sem eitt sinn sat við borð eða með fjöl á hnjánum og skrifaði. Það fór líka höndum um bréfið, dýfði penna í blek og dró upp orð. Braut blaðið saman, skrifaði utan á til ástvinar. Fræðimenn fjalla einmitt í vaxandi mæli um bréf sem hluti, sem gripi úr fortíðinni.
Gengið á vit Kristrúnar Jónsdóttur og Hallgríms 
Jónssonar á Hólmum í Reyðarfirði. Hún var stúlkan hans 
Baldvins en hann með rauðar eikur í vangaskógi sínum. 
Ljósmynd, Arnþór
Enn ein leið til fortíðar, þar sem þó er engin fortíð í sjálfu sér, er heimsókn á sögustaði, þar sem hægt er að horfa af bæjarhlaðinu til sömu fjalla og hún fyrir hundrað og fimmtíu árum eða tvöhundruð. Hlusta á árniðinn. Setjast í grasið og skrifa nokkur orð, fá innblástur. Rölta um kirkjugarða og skoða leiði. Skæla jafnvel smávegis yfir örlögum. 
En þetta felur auðvitað allt í sér hættu á samsömun við fólkið sem er til rannsóknar, jafnvel þótt hundrað ár skilji að og samfélög þeirra og okkar séu gerólík.
Meðal þeirra sem hefur fjallað á vekjandi og skemmtilegan hátt um ævisagnaritun og „sagnfræðinga sem elska of mikið“ er bandaríski sagnfræðingurinn Jill Lepore sem veltir því fyrir sér í grein hvort aðferðir einsögunnar (e. microhistory) henti betur til þess að rannsaka líf einstaklings og skrifa ævisögu en aðferð hinnar hefðbundnu ævisögu. Lepore tekur þetta efni til umfjöllunar af því, segir hún, að ævisöguritarar (sagnfræðingar) séu frægir að endemum fyrir að verða ástfangnir af viðfangsefni sínu. Sjálf lýsir hún á myndrænan (og örugglega stílfærðan) hátt því þegar hún sat á skjalasafni að rannsaka gögn orðabókarhöfundarins bandaríska  frá 19. öld, Noah Websters, og rakst á lokk úr hári hans. Áður en hún vissi af sat hún í hálfgerðum transi og strauk hárlokkinn uppfull af tilfinningum í garð Websters. 
Það eru reyndar ekki allir sagnfræðingar sem hafa áhyggjur af þessu. Þeir trúa að þeir geti staðið utan við fortíðina og láti ekki glepjast af gömlum tilfinningum eða framsetningu í bréfum. Hvað þá að hætta sé á samsömun við viðfangsefni sitt. Ég tel aftur á móti að á því sé hætta og að okkur beri skylda til að horfast í augu við hana og vinna með hana, ekki aðeins við ævisöguritun eða þegar unnið er með sendibréf heldur í sagnfræðirannsóknum almennt.
    Hjá Sigríði Pálsdóttur á Breiðabólstað í Fljótshlíð fyrir nokkrum árum.         
                                                              Ljósmynd, Hrafnhildur Loftsdóttir

Þetta er ekki sagnfræði segja kannski einhverjir en fyrir mína parta er þetta akkúrat sagnfræði. Vitund um og umræða um það hvernig við vinnum rannsóknir, hvað hefur áhrif á okkur og hvernig við förum með þær tilfinningar skiptir máli; hvaða leið við förum í ferð okkar til fortíðar.
Við erum aldrei fullkomlega hlutlaus

Edinborg,   Erla Hulda


Áhugasömum um meira er t.d. bent á eftirtalin rit:
Erla Hulda Halldórsdóttir, „Baldvin’s Tear. The Materiality of the Past.“ Making Sense, Crafting History. Practices of Producing Historical Meaning. Ritstj. Izabella Agardi, Berteke Waaldijk, Carla Salvaterra. Pisa: Plus-Pisa University Press, 2010, bls. 207–219. Aðgengileg rafrænt á slóðinni: http://ehlee.humnet.unipi.it/books5/4/12.pdf
Jill Lepore, „Historians Who Love Too Much: Reflections on Microhistory and Biography“, The Journal of American History, Vol. 88 No. 1, June 2001, bls. 129–144. (Rafræn áskrift á Háskólabókasfni, sjá www.leitir.is)