fimmtudagur, 15. desember 2016

Frá Djúpavogi til Barcelona

Sjálfsævisaga Johans Cruyff. Ævisaga lærisveins hans, Pep Guardiola,
bíður lesningar.
Á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Vestur-Þýskalandi árið 1974 heillaði hollenska landsliðið, með Johan Cruyff í fararbroddi, fótboltaáhugamenn um víða veröld með glæsilegri spilamennsku og leikaðferð (taktík) sem kennd er við Total Football. Í stuttu og einfölduðu máli gengur leikaðferðin út á að allir útileikmenn liðs geti leyst allar stöður og farið úr einni stöðu í aðra án þess að leikskipulagið riðlist. Til þess að það gangi upp þurfa allir leikmenn liðsins (líka markvörðurinn) að búa yfir afbragðs tækni og miklum leikskilningi. Helsti hugmyndasmiður Total Football var þáverandi landsliðsþjálfari hollenska landsliðsins, Rinus Michels. Michels þjálfaði einnig Ajax 1965–1971 (liðið varð m.a. Evrópumeistari undir hans stjórn) og Barcelona 1971–1978. Cruyff lék undir stjórn Michels hjá báðum liðunum og beitti þessari leikaðferð líka og þróaði hana frekar þegar hann þjálfaði Ajax 1985–1988 og Barcelona 1988–1996. Hollendingurinn Frank Rijkaard og Spánverjinn Pep Guardiola, sem báðir léku undir stjórn Cruyff, bættu svo um betur þegar þeir þjálfuðu Barcelona, Rijkaard 2003–2008 og Guardiola 2008–2012. Frá þessu og mörgu öðru áhugaverðu segir Cruyff í nýútkominni sjálfsævisögu, My Turn. Eins og kunnugt er lést Cruyff í mars á þessu ári eftir baráttu við krabbamein.

Ég varð níu ára í febrúar 1974 og kominn með mikinn áhuga á boltanum, eyddi löngum stundum úti í fótbolta heima á Höfn í Hornafirði og horfði á valda kafla úr leikjum í enska boltanum í Ríkissjónvarpinu, stundum með afa Erni sem átti gamlar legghlífar og hélt með Úlfunum (Wolves). En ég man ekki eftir að hafa séð svipmyndir úr leikjum frá heimsmeistaramótinu í Vestur-Þýskalandi – man samt eftir sjónvarpsmyndum frá Olympíuleikunum í München árið 1972, til dæmis bandaríska sundgarpinum Mark Spitz og sovéska fimleikaundrabarninu Olgu Korbut. Snilli Cruyff og félaga í hollenska landsliðinu fór samt ekki fram hjá mér en það atvikaðist aðeins síðar.

Sumarið 1976 sendi UMF Sindri á Höfn lið í 5. flokki drengja til keppni á Íslandsmótinu í fótbolta í fyrsta skipti. Ég lék stöðu sweepers (libero eða sópari á íslensku) en það var djúp og nokkuð frjáls varnarstaða sem var í hávegum höfð um þær mundir og gaf leikmanninum „leyfi“ til að koma sem aukamaður inn á miðjuna þegar svo bar undir. Við mættum vel undirbúnir til leiks þegar mótið hófst, þjálfarinn okkar, Albert Eymundsson, sá til þess. Hann hafði meðal annars þjálfað unglingalandsliðið og nú var hann búinn að þjálfa okkur í undirstöðuatriðum leiksins og leikskipulagi. Við vorum að vísu reynslulausir í alvöru keppnismótum (höfðum reyndar háð marga hörkuleiki í bekkjakeppni með mótsfyrirkomulagi en það var svolítið annar handleggur) og höfðum ekki leikið æfingaleiki, enda langar vegalengdir til næstu þorpa og bæja. – Reyndar hafði ég ásamt nokkrum öðrum úr liðinu tekið þátt í tveimur æfingaleikjum með eldri drengjum í Vík í Mýrdal sumarið áður og fannst mér það þó nokkur reynsla. – En nú átti að herða okkur meira og skömmu áður en Íslandsmótið hófst fórum við til Djúpavogs og lékum æfingaleik við heimamenn (Stjörnuna, minnir mig). Á því var reyndar einn hængur því liðsbúningurinn okkar var ekki tilbúinn en Albert bjargaði málunum með því að útvega á okkur liðstreyjur til bráðabirgða. Fyrir valinu varð hin víðfræga appelsínugula hollenska landsliðstreyja. Eftir á að hyggja held ég að það hafi ekki verið tilviljun því Albert var mikill aðdáandi hollenska landsliðsins og meginlandsfótboltans yfirhöfuð, þótt hann héldi með Leeds United og vissi allt um enska boltann.

Ekki man ég hvernig æfingaleikurinn á Djúpavogi fór en ég minnist þess að mótherjar okkar gerðu svolítið gys að búningnum okkar. Mig minnir líka að völlurinn þeirra hafi verið ósléttur og í minna lagi (ekki á sama stað og núverandi völlur) en á þessum tíma léku lið í 5. flokki á velli í fullri stærð, ekki þvert á völlinn eins og síðar varð. En á Djúpavogi var að minnsta kosti grasvöllur og það skipti mestu máli því heima á Höfn vorum við vanir að leika á grasi og vildum síður leika á möl.

Þrátt fyrir reynsluleysið gekk okkur vel á Íslandsmótinu og þegar upp var staðið enduðum við í efsta sæti í Austurlandsriðli ásamt Þrótti frá Neskaupstað. Ákveðið var að liðin mættust á miðri leið og léku úrslitaleik á Staðarborg í Breiðdal, þar sem var mjög góður grasvöllur. Að loknum venjulegum leiktíma var jafnt, 2:2. Magnús Jónatansson þjálfaði Þróttara. Voru þeir Albert ekki á einu máli um til hvaða ráða skyldi grípa til að knýja fram úrslit um hvort liðið færi í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn og enginn hægðarleikur að ná í réttu mennina í höfuðstöðvum KSÍ á stundinni. Eftir mikið japl, jaml og fuður (eins og Bjarni Fel hefði orðað það) ákvað Albert að gefa eftir, því flestir leikmenn liðsins voru á leið í sumarfrí með fjölskyldum sínum, enda voru fæstir viðbúnir þessum árangri liðsins. En Albert sagði við okkur strákana að í sárabætur færi hann með okkur í æfinga- og keppnisferð til Skotlands næsta sumar. Þetta urðu mér sár vonbrigði. Ekki nóg með að við misstum af öðru tækifæri til að komast í úrslitakeppnina heldur var heil eilífð til næsta sumars og ennþá lengra til Skotlands.

Skotlandsfararnir við Fokker F-27 flugvél
Flugleiða í Reykjavík 27. júlí 1977. Í myndatexta
segir að þessi „knálegi hópur“ hafi verið í „fimmtu
deild [þ.e. 5. flokki] í knattspyrnu í tvö ár og aldrei
tapað leik.“ Þegar þetta var skrifað voru hinir elstu
í hópnum, fæddir árið 1964, komnir upp í 4. flokk.
Albert stóð við stóru orðin. Um mánaðamótin júlí/ágúst næsta sumar (1977) fór hann með 26 stráka til Glasgow, þar sem við vorum í umsjá David Moyes eldri, föður David Moyes sem nú er þekktur þjálfari á Englandi – hann var að sniglast þarna líka, lítið eldri en við. Þá var, held ég, óþekkt að jafnungir strákar og við færu í fótboltaferðir til útlanda en þarna voru líka eldri strákar úr úr 4. og 3. flokki frá Reykjavík og víðar. Þetta sama sumar unnum við Austurlandsriðilinn (þá lék ég á miðjunni) en misstum af úrslitakeppninni vegna þess að hún var á sama tíma og Skotlandsreisan! Það var svo loksins sumarið 1978 sem ég upplifði úrslitakeppni, á yngra ári í 4. flokki, eftir að við stóðum uppi sem sigurvegarar á Austurlandi. Þá fór úrslitakeppnin fram í Reykjavík og lékum við meðal annars á hinum fornfræga Melavelli. (Á sama tíma tók 5. flokkur Sindra þátt í úrslitakeppni Íslandsmótsins í Vestmannaeyjum.) Þá voru andstæðingarnir öflugri en við áttum að venjast fyrir austan en við vöktum samt athygli fyrir góða spilamennsku. Ekki veit ég hvort greina mátti áhrif frá Total Football á leik okkar en við spiluðum alla vega ekki Kick’n’Run.


Forsíðumynd Tímans. Albert þjálfari er lengst til hægri, með hönd í fatla eftir að hafa farið úr olnbogalið í leik með Sindra
gegn Austra frá Eskifirði. Albert til aðstoðar í ferðinni voru Ásta Ásgeirsdóttir, eiginkona hans, lengst til vinstri í fremstu
röð, og Ómar Imsland og Brynja Björg Bragadóttir, efst í landgöngustiganum.
Það segir sína sögu um yngri flokka starfið undir stjórn Alberts að á árunum 1976–1982 töpuðu 5. og 4. flokkur Sindra ekki leik í Íslandsmótinu á Austurlandi en þá léku þessir flokkar milli 50 og 60 leiki eystra og enduðu aðeins fimm þeirra með jafntefli. Ekki var nóg með að Albert kenndi okkur leikkerfi og tækni heldur talaði hann mikið og útskýrði fyrir okkur í smáatriðum út á hvað þetta gengi allt saman. Og hann sýndi okkur ensk fótboltatímarit og –bækur og það sem meira var, kvikmyndir sem hann pantaði að sunnan. Man ég sérstaklega eftir fræðslu- og kennslukvikmyndum frá heimsmeistaramótum, bæði í Vestur-Þýskalandi og eldri mótum. Í þessum myndum var fjallað um undirbúning liðanna og útskýrð markvarsla, varnarleikur, miðjuspil, sóknarleikur og margt fleira. Við þetta opnaðist nýr heimur og nýjar víddir á fótboltavellinum. Ég sá að utan Englands voru líka til frábærir fótboltamenn og lið, til dæmis Pele og félagar í brasilíska landsliðinu og Beckenbauer, Gerd Müller og þeir allir í vestur-þýska landsliðinu – fyrir utan þá hollensku náttúrlega. Ég sé ennþá fyrir mér klippur úr þessum myndum, til dæmis þegar Pele fékk sendingu fram völlinn og tók boltann á brjóstkassann hlaupandi aftur á bak, þannig að boltinn sveif í lágum boga yfir höfuðið á honum og hann nikkaði í boltann með hnakkanum áður en hann sneri sér við og þaut með boltann upp völlinn. Þetta voru töfrar.

Greinarhöfundur á Camp Nou, heimavelli Barcelona, 16. ágúst 2008, fyrir
leik heimamanna og argentíska liðsins Boca Juniors, skömmu áður en La
Liga hófst. Barcelona vann leikinn 2:1. Eiður Smári Gudjohnsen var í
byrjunarliðinu hjá Barcelona og átti góðan leik. Pep Guardiola var nýlega
orðinn þjálfari liðsins.
Ég hef alltaf horft mikið á fótbolta, síðasta áratuginn og rúmlega það mest á spænska boltann og meistaradeildina, sérstaklega Barcelona og spænsku liðin – kannski í og með vegna áhrifa frá hollensk landsliðstreyjunni sem við klæddumst á Djúpavogi forðum og þeirri grunnþjálfun sem við fengum hjá Albert. Hvað um það, að mínu áliti fyrirfinnst ekki fallegri fótbolti en sá sem byggir á arfleifð Rinus Michels og Johans Cruyff.




Heimildir
Albert Eymundsson, „Knattspyrnan á Höfn“, Ungmennasambandið Úlfljótur 50 ára. Afmælisrit. Án útgáfustaðar: Ungmennasambandið Úlfljótur, 1983, bls. 100–104.
„Á leið til Skotlands“, Tíminn 28. júlí 1977, bls. 1.
„Báðir þjálfararnir lágu eftir í valnum“, Dagblaðið 20. júlí 1977, bls. 12.
Johan Cruyff, My Turn. The Autobiography. London: Macmillan, 2016.
„Strákarnir á Hornafirði vildu heldur Skotlandsferð en úrslitaleik“,  Dagblaðið 29. júlí 1977, bls. 24.



sunnudagur, 23. nóvember 2014

Gömul saga eða ný. Hugleiðing um konur, sögu og framsetningu

Í Kvinnohistoriskt Museum. Mikill fjöldi fólks var við
formlega opnun þess laugardaginn 22. nóvember 2014.
„Nýtt sjónarhorn á söguna, samtíð og framtíð“, segir í kynningarbæklingi um Kvinnohistoriskt Museum, kvennasögusafnið, sem opnað var hér í Umeå í Svíþjóð í gær. Safnið er í nýju og stóru menningarhúsi, Väven (Vefurinn), í miðbænum, við ána Ume. Þar hefur kvennasögusafnið heila 700 fermetra í þessu 15.000 fermetra húsi. Raunar myndu sumir vilja að það hefði ekki svo mikið sem einn fermetri því sú ákvörðun að hafa kvennasögusafn í húsinu var mjög umdeild. 
Fljótlega eftir að ég kom hingað út rakst ég á fríblað í hverfisbúðinni minni með risafyrirsögninni „Skrifar söguna“ og mynd af konu. Í ljós kom að þetta var forstöðukona hins nýja safns sem þar svaraði spurningum blaðsins um kvennasögusafnið. Það var sagt hið fyrsta sinnar tegundar og að því væri ætlað að rjúfa þá þögn sem verið hefði og væri um sögu kvenna. Það ætti að vera mótvægi við karllæga áherslu hefðbundinna safna sem enn hefðu ekki losað sig undan áherslum 19. aldar á stríð og stjórnmál þar sem karlar réðu ríkjum. Kvennasögusafnið kæmi með nýjar áherslur og nýjar sögur, fjallaði um karlmennsku og kvenleika – og því væri ætlað að sýna að söguritun, það að skrifa sögu, snérist um vald.
Sem sagnfræðingur með sérfræðiþekkingu á sögu kvenna og kynja og fyrrum forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands fannst mér þetta gríðarlega spennandi og velti fyrir mér hvað yrði sýnt/gert í þessu nýja safni. Því var greinilega ekki ætlað að geyma skjöl og handrit, að varðveita og skrá sögu kvenna, eins og safninu heima á Íslandi. Það greindi sig líka frá kvennasögusafninu, eða fremur kvennabókasafninu sem stofnað var í Gautaborg 1958, og öðrum söfnum sem kennd hafa verið við sögu kvenna (svo sem Fawcett safninu í Lundúnum).
Hrópandi þögn ... kynningarspjald fyrir sýningu um aldur, konur og sögu. 
Það var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég gekk inn í Väven í gær til þess að skoða kvennasögusafnið, ásamt þremur sænskum konum.
Í stuttu máli sagt þá er ég enn að melta það sem ég sá og heyrði og veit ekki enn hvort mér finnst þetta í heild góð sýning, sem hún sannarlega er að hluta, eða hvort hún slær á of marga strengi gamalla viðhorfa og söguskoðunnar. Fyrir utan bækur í hillum eru nú tvær sýningar í kvennasögusafninu. Sú sem ég skoðaði fyrst kallast „Hrópandi þögn“ og snýst um konur, aldur og útilokun frá sögunni.
Fyrstu áhrifin af því að ganga í salinn voru frábær því við blasti „Frænkulegheit“ (Tantfullness) eftir listakonuna Susanna Arwins – frænkuher. Þetta er, með orðum listakonunnar, virðingarvottur við ömmu hennar og „systur“ hennar. Konur sem höfðu áhrif á samfélagið þótt þær væru þöglar í bakgrunni – þær tákna visku og kraft eldri kvenna, þangað sem yngri konur ættu að sækja kraft og fyrirmyndir. 
Frábært listaverk: Frænkuherinn. Minnir á allar þær konur sem við vitum ekki af, heyrðum aldrei í eða heyrum aldrei af. Og augljós skírskotun í terracotta herinn, kínversku stytturnar frægu. Nema í stað vopna eru það handtöskur og bros.
Í salnum var einnig hljóðlistaverk sem fór eiginlega fyrir ofan garð og neðan sökum mannfjölda og kannski tungumálsins líka. Og á tveimur skjám brá fyrir myndskeiðum af konum, eldri konum. Andliti, augum, höndum. Það náði heldur ekki alveg til mín.
Loks voru það textarnir, ofgnótt texta með tilvitnunum í fræðitexta og konur þar sem fjallað var um aldur og upplifanir, útlokun og breytingar. Að minnsta kosti sýndist mér það af því sem ég las því þetta var einfaldlega alltof mikið. Hversu góðar þessar tilvitnanir eru skiptir ekki máli ef sýningargesturinn fær nóg, hættir að nenna að lesa. Mér (og samferðakonum mínum) fannst vanta eitthvað með þessum textum.
Annað sjónarhorn á frænkuherinn. Og hér 
(og á myndinni að ofan) sjást textaspjöldin 
umræddu hangandi úr loftinu.
Og uppsetningin – mér fannst eins og ég væri stödd í myndasögublaði með textabrotum inni í skýjum og rúnnuðum formum. Þegar hér var komið sögu var ein sænsku kvennanna orðin mjög pirruð – hún var hrifin af frænkunum en fannst þessi textasýning fyrir neðan allar hellur. Við hinar vorum sammála um að það væri allavega ekki það sem við bjuggumst við. Nokkur vonbrigði. Hvað á þessi sýning að segja? Er hún nýstárleg, ögrandi, ný saga?
Þrjár okkar fóru svo í gegnum hina sýningu safnsins og það var þar sem sagnfræðingurinn fór að velta fyrir sér á hvaða hugmyndafræði, á hvaða söguskoðun, safnið væri byggt. Sýningin heitir (í lauslegri þýðingu) „Rætur flókinnar sögu. Svört saga um vald og kyn, sögu ogsjálfsmynd“. Fyrirfram vissi ég ekki inn á hvers konar sýningu ég væri að fara og það mótaði auðvitað upplifun mína. Þar að auki byggir þessi sýning að verulegu leyti á töluðu orði. Þar reyndi því á sænskuskilninginn sem er ekki hundrað prósent!
Gestum er hleypt inn á sýninguna í tíu manna hópum. Sýningarrýmið er skemmtilega uppsett sem skógur, dimmur og drungalegur, en hér og þar má finna rjóður með sófum, lömpum og sjónvarpsskjám. Þar birtast grímuklæddir karlar og einstaka konur sem leiða gesti í sannleikann um kynjaskekkju sögunnar – um karllega sagnritun. Grímunum er raunar kastað undir lok ferðarinnar sem er auðvitað táknrænt.
Eru konur á eilífum hlaupum undan úlfinum? Aldrei
gerendur, alltaf fórnarlömb?
Þessi skógarferð byggist á Rauðhettu og úlfinum og birtist Rauðhetta sjálf á fyrsta skjánum og leiðir gesti af stað. Þeir rekast svo á fláráða ljóta úlfinn í mynd karlmannsins þar sem hann birtist á sjónvarpsskjánum (oft tveir á sitthvorum skjánum og eiga þá í samtali) og vélar um að skrifa konur út úr sögunni eða ræðir hvað þær eru ófullkomnar og ómögulegar; konur hafa ekki rökhugsun; kona er ófullkominn karlmaður o.s.frv. Þarna eru margir góðir sprettir og gagnrýnin á karllæga söguritun hvöss. Hún á sannarlega rétt á sér eins og ég hef skrifað um nokkrum sinnum á þessu bloggi. Og í skóginum má finna áhugavert og þarft myndband um intersex – um að kannski sé ekki svo auðvelt að greina fólk niður í kyn eftir allt saman. Einn þráðanna sem dreginn er í gegn í þessum sal er semsagt hin menningarlega og félagslega mótun kyns.
En það var samt eitthvað sem olli mér óþægindum eða kannski undrun, eitthvað sem mér fannst rangt hvað sem líður mínum annars ákveðnu skoðunum á kynjaslagsíðu sagnfræðinnar. Skýringin er held ég að mér fannst ég hafa hoppað aftur til áttunda áratugarins þegar kvensagnfræðingar leituðu að konum í sögunni, reyndu að fylla upp í götin, rjúfa þögnina, endurskrifa söguna. Og þær leituðu logandi ljósi að rótum kvennakúgunar – hverjar voru sögulegar rætur þess að karlar kúguðu konur (að karlar hötuðu konur, svo ég vísi til titils á þekktri sænskri skáldsögu). Mér fannst einfaldlega áherslan í þessari sýningu, sú orðræða sem byggt var á, of svarthvít jafnvel þótt látið sé í veðri vaka (í titli sýningarinnar) að sögulegar rætur kynjaskekkjunnar í sögunni séu flóknar. Og sýningin sagði mér ekkert nýtt, opnaði ekki augu mín fyrir neinu.
Orðin sem karlmönnum voru lögð í munn eru öll frá þeim komin, það vantar ekki. Orð og skoðanir sem hafa gengið aftur og aftur í sögunni. Franski (ítalski) rithöfundurinn, sagnfræðingurinn, heimspekingurinn Christine de Pizan ræðir og afbyggir einmitt skoðanir sem þessar í sinni frábæru bók Borg kvennanna, The Book of the City of Ladies, svo kom út um 1405. Sem getur auðvitað sagt okkur að við séum enn að berjast við sömu drekana. 
Vel sagt maður! Skrifum konurnar út úr sögunni - þær voru hvort eð er 
alltaf í eldhúsinu. Gerðu ekkert merkilegt ...
En ég velti því semsagt fyrir mér hvort þetta sé sýning sem byggi á og sé í takt við nýjustu rannsóknir og fræðilegar vangaveltur um það hvort og hvernig hægt sé að skrifa konur inn í hina almennu sögu. Um þetta er mikið skrifað víða erlendis núna, um það hvernig á að „kynja“ þjóðarsögur, og ég hef vikið að í sumum fyrri pistlum mínum.
Samferðakonur mínar, sem hvorug er sagnfræðingur, voru líka mjög hugsandi eftir gönguna í gegnum skóginn. Hvaða sögu eða söguskoðun er verið að setja fram þarna? Önnur þeirra hafði svipaða tilfinningu og ég, fannst eitthvað gamaldags og skakkt án þess að auðvelt væri að festa hendur á því. Hin var undrandi á Rauðhettulíkingunni, þeirri hugmynd að ungar stúlkur væru villtar í skóginum og ekki síður að þær konur sem komu við sögu í myndböndunum voru fremur passífar.
Kvennasögusafnið hér í Ume ætlar sér örugglega að vera ögrandi, vekja til umhugsunar og kannski er markmiðinu einmitt náð með því að ein útlensk kona sest niður og reynir að færa upplifunina í orð. Þessi fyrsta heimsókn virkaði samt þannig á mig að önnur sýningin væri fremur flöt (að undanskildum frænkunum) og að hin byggði á gamaldags sýn.
Sagan er flókið fyrirbæri. Hún byggir á túlkun, sjónarhorni, framsetningu. Við sagnfræðingar eigum stundum svolítið erfitt með að samþykkja það hvernig sagan er notuð af stjórnmálamönnum, einkaaðilum og jafnvel söfnum því oft er farið frjálslega með vitnisburð fortíðar. En þá má spyrja eins og bandaríski sagnfræðingurinn Natalie Zemon Davis: „Hver á söguna?“ Við sagnfræðingar erum ekki ein um að matreiða söguna eða móta söguskoðun fólks.
Ég er spennt að heyra hvaða viðtökur safnið fær og ætla sjálf að fara aftur fljótlega og sjá hvort sýningarnar hafa þá önnur áhrif. Mér finnst nefnilega svolítið leiðinlegt að hafa upplifað sýninguna á þennan hátt – finnst næstum eins og ég hafi gerst sek um svik við söguna, við kynsystur mínar, við það sem drífur mig áfram.
Svo má ekki gleyma því að Rauðhetta lék á úlfinn, fyllti maga hans af grjóti og drekkti honum.
                                                                                                               Umeå, Erla Hulda
Hér, á mótum sýninganna tveggja, þagnarinnar og rótanna, birtist óvænt Emmeline Pankhurst, súffragettan breska í fangi lögregluþjóns. Þessa mynd má m.a. sjá í einu blogginu mínu þar sem hún prýðir kápu á ævisögu Pankhurst. Kannski á hún að vera táknmynd kvenréttindabaráttunnar. En mér fannst sú söguskoðun sem sett er fram í textanum ansi einföld og ekki í  samræmi við nýjustu rannsóknir í kvenna- og kynjasögu. Ekki heldur þær sænsku eins og ég hef heyrt þær og lesið.

sunnudagur, 19. október 2014

Þórunn, Guðlaug eða Málmfríður?

Í síðustu færslu ræddi ég aðeins um kvennasögu og „gleymsku“ og stöðu kvenna í sagnfræði og sagnritun. Hér er ein lítil dæmisaga um slíkt.
Fyrir fáeinum vikum var ég að lesa útfararræðuna sem séra Árni Þorsteinsson í Kirkjubæ las yfir sýslumanninum Páli Guðmundssyni þegar hann var jarðaður seint í september eða byrjun október 1815. Páll var pabbi Sigríðar (1809–1871) sem hefur verið rannsóknarefni mitt undanfarin misseri.
Líkræða eftir sýslumann sál. 
Pál Guðmundsson
Páll var ljúfmenni (eitthvað annað en faðir hans Guðmundur Pétursson og afi Pétur Þorsteinsson sem báðir voru harðir í horn að taka – ef marka má sögur). En af því séra Árni hafði orð á að ýmislegt hafi verið Páli mótdrægt í ungdæmi hans fór ég að blaða í gögnunum mínum og ýmsum skrám til að rifja upp hvenær mamma hans hefði dáið og hvað þau hefðu þá verið mörg alsystkinin. Síðar bættust við mörg systkini samfeðra því faðir hans kvæntist aftur árið 1780, þá systurdóttur sinni talsvert mikið yngri. Um Guðmund Pétursson sýslumann skrifaði ég hér.
En fyrri kona Guðmundar, Þórunn Pálsdóttir, dó semsagt frá þremur ungum börnum og eiginmanni árið 1785. Páll var elstur, átta ára, fæddur 1777. Sigurður bróðir hans, sem ég þekki vel úr bréfum fjölskyldunnar, var aðeins tveggja ára, fæddur árið 1783. Og svo ein stúlka, Þórunn. Í íslenzkum æviskrám Páls Eggerts Ólasonar (II. bindi, bls. 176) stendur eftirfarandi: „Börn þeirra, er upp komust: Páll sýslumaður á Hallfreðarstöðum í Tungu, Þórunn f.k. síra Björns Vigfússonar á Eiðum, Sigurður stúdent á Eyjólfsstöðum á Völlum.“
Þórunn … hvað skyldi hafa orðið um hana hugsaði ég með mér af því ég minntist þess ekki að hafa séð talað um hana í bréfum kvennanna á Hallfreðarstöðum 1817–1829, þeirra Sigríðar, Þórunnar systur hennar, ömmu hennar Sigríðar Ørum og móður Malene Jensdóttur. Ýmsar aðrar frændkonur voru aftur á móti nefndar. Nafn séra Björns á Eiðum þekkti ég líka úr heimildunum, þýski læknirinn Thienemann hafði heimsótt hann á ferð sinni um Austurland í júlí 1821 og fengið hjá honum súkkulaði (að drekka). Séra Björn átti stórt bókasafn og þar var að finna ýmis læknisfræðileg verk að sögn Thienemann, enda stundaði hann lækningar eins og svo margir íslenskir prestar á þessum tíma. Og ég mundi að til séra Björns var leitað þegar Malene Jensdóttir, ekkja Páls sýslumanns, lá banaleguna í maí árið 1824. Þá treysti hann sér ekki til að gera neitt.
Íslenzkar æviskrár eru nú tiltölulega fáorðar um konur en ég fletti upp á Birni Vigfússyni (I. bindi, bls. 253). Þar segir: „Kona 1 (29. sept. 1801): Guðlaug (f. um 1779, d. 14. sept. 1802) Guðmundsdóttir sýslumanns í Krossavík, Péturssonar (hún hafði átt barn í lausaleik, en fekk 17. maí 1800 uppreisn og leyfi til að giftast manni andlegrar stéttar).“
Sýslumannaæfir í Tímariti Jóns Péturssonar 1871. Guðmundur Pétursson  
sýslumaður í Krossavík og börn hans. Sýslumannaæfir komu svo út í 
nokkrum bindum snemma á 20. öld.
Guðlaug? Og þessi áhugaverða saga innan sviga.
Þar sem ég sat við tölvuna var ekkert annað að gera en fletta upp á Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar eins og þær birtust í Tímariti Jóns Péturssonar háyfirdómara árið 1870. Þar segir um börn Guðmundar Péturssonar: „Páll, Sigurður, Málmfríður dó ógipt.“ Sýslumannsdóttirin var nú komin með þrjú ólík nöfn í jafnmörgum heimildum: Þórunn, Guðlaug, Málmfríður! Og hér er hún ógift.  
En Jón Pétursson leysir snarlega úr þessu neðanmáls og leiðréttir nafnið: „Þórunn kona síra Björns á Eyðum [svo] var enn fyrri konu barn Guðmundar.“  (Sbr. Tímarit, 3. árg. 1. tbl. 1871, bls. 70).
Hún hét því Þórunn og var fædd 1779, missti móður sína þegar hún var sex ára. Varð hált á siðferðisbrautinni og eignaðist barn utan hjónabands. Hún var því syndug kona en fékk uppreisn æru, fyrirgefningu hins guðlega valds, svo hún mætti giftast presti en dó eftir um það bil eins árs hjónaband, 23 ára.
Í sjálfu sér ekki sanngjarnt að álykta mikið um nafnabrengl sem þessi, jafnvel þótt þreföld séu. Nöfn karla hafa líka misfarist og þau gleymst. En nöfn kvenna og staðreyndir um líf þeirra og kjör hafa oftar farið forgörðum, m.a. af því upplýsingum um þær var síður haldað til haga eða safnað saman. Í Íslenzkum æviskrám er til að mynda mun minna sagt um dætur en syni, helst hverjum þær hafi gifst og þá verður kona að vona að eiginmanninn sé að finna í æviskránum.
Og svo gerum við villur sjálf, fræðimennirnir, við getum skrifað vitlaust upp úr heimildum eða sést yfir eitthvað í fljótræði. Þegar ég dró fram ættartöfluspjaldið sem ég setti saman fyrir tveimur árum eða svo til að reyna að skilja þessi flóknu vensl fólksins á Héraði og í Vopnafirði um og uppúr 1800 sá ég að þar hafði ég hripað niður nafnið á systur Páls Guðmundssonar: Málmfríður!   
Þessi litla saga sýnir líka hvað heimildir eru hvikular og að það getur kostað mörg handtök að ráða fram úr einu „smáatriði“ sem skilar sér svo kannski aldrei beint inn í þann texta sem í smíðum er. 
                                                                  Reykjavík,   Erla Hulda

Örlítil viðbót um nafnamálið dularfulla:
Við lestur á uppskrift og skiptum á dánarbúi sýslumannsins Guðmundar Péturssonar í Krossavík, 1812 og 1813, sá ég að tiltekin eru fjögur börn hans af fyrra hjónabandi: Synirnir herra Páll sýslumaður og stúdíósus Sigurður og dæturnar Þórunn sáluga, sem lét eftir sig dótturina Önnu sem  nú er þá erfingi móður sinnar (og einnig ömmu og langömmu), og jómfrú Málmfríður.  Í ofangreindum heimildum slær því saman systrunum Þórunni og Málmfríði. Önnur dó ung. Hin er jómfrú. Hver Guðlaug var í þessu samhengi er jafnóráðið og fyrr.
Frekari eftirgrennslan um jómfrú Málmfríði bíður betri tíma.
               Umeå 20. nóvember 2014, ehh
Svolítið óreiðukennd tilraun til þess að skilja tengsl þessa sýslumanna og prófasta í Norður-Múlasýslu. Þetta fólk giftist ekki úrættis segir kona í bréfi uppúr 1820. „Málmfríður“ er ofarlega til hægri. 

laugardagur, 13. september 2014

Jarðeigandinn Valgerður og saga kvenna


Innlifun í Laugarnesi.
Mynd Arnþór
Í dag lét ég loksins verða af því að rölta um Laugarnesið hér í Reykjavík, lesa á upplýsingaskilti og horfa almennilega í kringum mig á þessum stað þar sem Sigríður Pálsdóttir bjó 1829–1831. Þá var hún stofustúlka hjá biskupshjónunum í Laugarnesi, þeim Valgerði Jónsdóttur og Steingrími Jónssyni. Steingrímur var tengdur fjölskyldu hennar vinaböndum og þau hjón höfðu fóstrað og menntað Pál bróður hennar frá ellefu til sautján ára aldurs. 
Á skilti við bæjarhól gamla Laugarnesbæjarins – þar sem talið er að staðið hafi bær frá landnámi, kirkja frá fornu fari og er þar að auki kirkjugarður – mátti sjá eftirfarandi: „Hannes biskup Finnsson eignaðist jörðina árið 1787 og síðan Steingrímur biskup Jónsson ...“
Femíníski sagnfræðingurinn tók andköf og upp í hugann komu síendurteknar deilur sagnfræðinga (og annarra) um hlut kvenna í sögunni og sögubókum. Við kvenna- og kynjasögufræðingar tölum oft um að skrifa þurfi konur inn í söguna en stundum finnst mér eins og þær séu skrifaðar út úr sögunni – af því þær eru þarna þótt það séu alltof margir sem ekki koma auga á þær. 
Málið er nefnilega að það var Valgerður Jónsdóttir sem átti jörðina Laugarnes. Fyrri maður Valgerðar var Hannes Finnsson biskup en hún síðari eiginkona hans. Á þeim var 32 ára aldursmunur, Valgerður var 18 ára þegar þau giftust en Hannes fimmtugur. Þau bjuggu í Skálholti og voru stórefnuð. Hannes lést eftir sjö ára hjónaband, árið 1796. Þar með varð Valgerður ein auðugasta, ef ekki auðugasta, kona landsins. Hún átti fjölda jarða á Suður- og Vesturlandi, m.a. biskupsstólinn Skálholt, Úthlíð í Biskupstungum, Engey á Kollafirði og Laugarnes, sem þá var talsvert utan þeirrar byggðar sem taldist til Reykjavíkur. Valgerður átti rekaítök víða um land og gerði um árabil út báta frá Grindavík og Þorlákshöfn. Hún átti og safnaði bókum og handritum og skrifaðist á við fjölda fólks vegna eigna sinna og umsvifa. Valgerður hefur líka verið trend-setter eða tískufyrirmynd því á Vísindavefnum segir að hún sé talin hafa orðið fyrst til þess að ganga í peysufötum hversdags skömmu fyrir 1800.
Stórmerkilegt bréfasafn hennar er á handritasafni Landsbókasafns og hefur svolítið verið notað af fræðimönnum þótt enn sé of lítið skrifað um Valgerði sjálfa.
Steingrímur Jónsson var tveimur árum eldri en Valgerður og hafði verið skrifari eiginmanns hennar í Skálholti. Leiða má alls konar líkur að því hvar og hvenær ástir tókust með þeim Valgerði og Steingrími en hann var við nám í Kaupmannahöfn um og uppúr 1800 (sumir telja að hún hafi styrkt hann fjárhagslega). Þau giftust árið 1806. Hann varð lektor Bessastaðaskóla, prófastur í Odda á Rangárvöllum og loks biskup árið 1824. Þá létu þau hjón byggja stórt steinhús í Laugarnesi, á eignarjörð hennar, og var það tilbúið 1826. 
Biskupsstofan, hús Valgerðar og Steingríms í Laugarnesi séð með augum Auguste Mayer í leiðangri Gaimards árið 1836. Húsið hélt víst hvorki vatni né vindum. Hér bjó Sigríður Pálsdóttir 1829–1831, eða þar til hún var rekin af heimilinu fyrir að stinga undan biskupsdótturinni. Myndin fengin úr Íslandsmyndir Mayers, 1986.  
Vel má halda því fram að ekkert sé rangt við textann á upplýsingaskilti Þjóðminjasafnsins í Laugarnesi því vissulega átti Hannes Finnsson Laugarnes og sem gift kona var Valgerður sett undir vald og vilja eiginmannsins Steingríms hvað fjárráð og eignir varðaði. Nema þau hafi gert með sér helmingarfélag eða á annan hátt skilgreint eigur sínar.
Það sem stakk mig var að auðkona, valdskona, á borð við Valgerði, sem kemur með Laugarnes inn í hjónabandið, átti tvo biskupa fyrir eiginmenn og lifði þá báða, lagði með handritum sínum (og eiginmannanna) grunninn að því sem í dag er handritasafn Landsbókasafns, væri skrifuð svo auðveldlega út úr sögunni. Og upp í hugann komu áðurnefndar deilur um það hvort konur og saga kvenna væri yfirhöfuð eitthvað til að tala um. 
Í Laugarnesi.  Mynd Arnþór
Haustið 2011 deildu sagnfræðingar á póstlista sínum Gammabrekku um skýrslu um hlut kvenna í sögubókum á miðstigi í grunnskóla. Skýrslan byggði að verulegu leyti á talningu á nöfnum kvenna og karla, og um slíka aðferðafræði má vissulega deila, en  fram kom að konur báru mjög skarðan hlut frá borði. Um 60 skeyti voru skrifuð á listann af 19 körlum og fimm konum. Karlarnir skrifuðu 53 skeyti en konurnar sjö. Á sínum tíma sló það mig hve margir (karlar) voru tilbúnir til að dæma rannsóknina marklausa vegna aðferðafræðinnar og að í allri vandlætingunni drukknaði vandamálið sjálft: Að konur væru skrifaðar út úr sumum þeirra kennslubóka sem bornar væru á borð fyrir börn í grunnskólum. Sagt var að það væri gamaldags að nafngreina fólk, að einstaklingurinn skiptir engu máli fyrir sögulega framvindu – það væru stærri ferlar í gangi. Og sjá mátti þá skoðun (einnig í opinberri umræðu um skýrsluna) að sögubækur með karlaslagsíðu væru jú aðeins birtingarmynd þess veruleika sem var, konur hefðu bara því miður ekki ráðið neinu fyrr á tíð og haft fá tækifæri til að gera sig gildandi, litlar eða engar heimildir væru til um þær og væri einhverjum konum (nafngreindum) troðið inn í SÖGUNA væri sagan ekki sýnd eins og „hún raunverulega var“ (svo vísað sé til sívinsæls frasa Leopold von Ranke). Í þessu birtist viðhorf sem einnig sást í umræðu á Gammabrekku vorið 2010 þegar tekist var á um það hvort kynjasaga væri verðugt viðfangsefni í hinni vinsælu hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands.  Þar kom m.a. fram sú skoðun að kynjasaga væri þröngt fagsvið, og þeir karlar sem væru hlynntir kynjasögu væru „laskaðir af pólitískri“ rétthugsun samtímans og fylgdu okkur femínísku kvensagnfræðingunum í „auðmýkt“.
Hin bráðskemmtilega hausatalning og hugleiðingar Vilborgar 
Dagbjartsdóttur á barnasíðu Þjóðviljans 10. nóvember 1974.
Stundum finnst mér ótrúlega lítið hafa breyst frá því fyrir 40 árum þegar skáldkonan Vilborg Dagbjartsdóttir  framkvæmdi hina alræmdu hausatalningu konur versus karlar á ljósmyndum í Íslandssögubók  fyrir unglinga. Þá spurði hún: „Vorum við kannski aldrei til?“
Það felst áskorun í því að beita sjónarhorni kyngervis í sögu og kynjasagan er áskorun, hún ögrar viðteknum sannindum um sögulegt mikilvægi, um hreyfiafl sögunnar, hvað og hver sé þess verðugur að verða hluti af hinni almennu sögu.
Fráleitt er að halda því fram að konum sé „troðið“ inn í söguna þótt þeirra sé getið sérstaklega, hvort sem um er að ræða valdskonur eins og Valgerði Jónsdóttur eða óþekktar vinnukonur. Þær eru þarna rétt eins og karlarnir, við þurfum bara að vera viljug til þess að sjá þær og til þess þarf að breyta því sjónarhorni sem við höfum á söguna og hvað það er sem skiptir máli.
                                              
                                                                                           Reykjavík, Erla Hulda

Áhugasömum um Laugarnes og fólkið sem þar hefur búið er bent á bók Þorgríms Gestssonar, Mannlíf við Sund. Býlið, byggðin og borgin, [1998], 2010.

Engin Valgerður hér.   Mynd Arnþór