laugardagur, 13. september 2014

Jarðeigandinn Valgerður og saga kvenna


Innlifun í Laugarnesi.
Mynd Arnþór
Í dag lét ég loksins verða af því að rölta um Laugarnesið hér í Reykjavík, lesa á upplýsingaskilti og horfa almennilega í kringum mig á þessum stað þar sem Sigríður Pálsdóttir bjó 1829–1831. Þá var hún stofustúlka hjá biskupshjónunum í Laugarnesi, þeim Valgerði Jónsdóttur og Steingrími Jónssyni. Steingrímur var tengdur fjölskyldu hennar vinaböndum og þau hjón höfðu fóstrað og menntað Pál bróður hennar frá ellefu til sautján ára aldurs. 
Á skilti við bæjarhól gamla Laugarnesbæjarins – þar sem talið er að staðið hafi bær frá landnámi, kirkja frá fornu fari og er þar að auki kirkjugarður – mátti sjá eftirfarandi: „Hannes biskup Finnsson eignaðist jörðina árið 1787 og síðan Steingrímur biskup Jónsson ...“
Femíníski sagnfræðingurinn tók andköf og upp í hugann komu síendurteknar deilur sagnfræðinga (og annarra) um hlut kvenna í sögunni og sögubókum. Við kvenna- og kynjasögufræðingar tölum oft um að skrifa þurfi konur inn í söguna en stundum finnst mér eins og þær séu skrifaðar út úr sögunni – af því þær eru þarna þótt það séu alltof margir sem ekki koma auga á þær. 
Málið er nefnilega að það var Valgerður Jónsdóttir sem átti jörðina Laugarnes. Fyrri maður Valgerðar var Hannes Finnsson biskup en hún síðari eiginkona hans. Á þeim var 32 ára aldursmunur, Valgerður var 18 ára þegar þau giftust en Hannes fimmtugur. Þau bjuggu í Skálholti og voru stórefnuð. Hannes lést eftir sjö ára hjónaband, árið 1796. Þar með varð Valgerður ein auðugasta, ef ekki auðugasta, kona landsins. Hún átti fjölda jarða á Suður- og Vesturlandi, m.a. biskupsstólinn Skálholt, Úthlíð í Biskupstungum, Engey á Kollafirði og Laugarnes, sem þá var talsvert utan þeirrar byggðar sem taldist til Reykjavíkur. Valgerður átti rekaítök víða um land og gerði um árabil út báta frá Grindavík og Þorlákshöfn. Hún átti og safnaði bókum og handritum og skrifaðist á við fjölda fólks vegna eigna sinna og umsvifa. Valgerður hefur líka verið trend-setter eða tískufyrirmynd því á Vísindavefnum segir að hún sé talin hafa orðið fyrst til þess að ganga í peysufötum hversdags skömmu fyrir 1800.
Stórmerkilegt bréfasafn hennar er á handritasafni Landsbókasafns og hefur svolítið verið notað af fræðimönnum þótt enn sé of lítið skrifað um Valgerði sjálfa.
Steingrímur Jónsson var tveimur árum eldri en Valgerður og hafði verið skrifari eiginmanns hennar í Skálholti. Leiða má alls konar líkur að því hvar og hvenær ástir tókust með þeim Valgerði og Steingrími en hann var við nám í Kaupmannahöfn um og uppúr 1800 (sumir telja að hún hafi styrkt hann fjárhagslega). Þau giftust árið 1806. Hann varð lektor Bessastaðaskóla, prófastur í Odda á Rangárvöllum og loks biskup árið 1824. Þá létu þau hjón byggja stórt steinhús í Laugarnesi, á eignarjörð hennar, og var það tilbúið 1826. 
Biskupsstofan, hús Valgerðar og Steingríms í Laugarnesi séð með augum Auguste Mayer í leiðangri Gaimards árið 1836. Húsið hélt víst hvorki vatni né vindum. Hér bjó Sigríður Pálsdóttir 1829–1831, eða þar til hún var rekin af heimilinu fyrir að stinga undan biskupsdótturinni. Myndin fengin úr Íslandsmyndir Mayers, 1986.  
Vel má halda því fram að ekkert sé rangt við textann á upplýsingaskilti Þjóðminjasafnsins í Laugarnesi því vissulega átti Hannes Finnsson Laugarnes og sem gift kona var Valgerður sett undir vald og vilja eiginmannsins Steingríms hvað fjárráð og eignir varðaði. Nema þau hafi gert með sér helmingarfélag eða á annan hátt skilgreint eigur sínar.
Það sem stakk mig var að auðkona, valdskona, á borð við Valgerði, sem kemur með Laugarnes inn í hjónabandið, átti tvo biskupa fyrir eiginmenn og lifði þá báða, lagði með handritum sínum (og eiginmannanna) grunninn að því sem í dag er handritasafn Landsbókasafns, væri skrifuð svo auðveldlega út úr sögunni. Og upp í hugann komu áðurnefndar deilur um það hvort konur og saga kvenna væri yfirhöfuð eitthvað til að tala um. 
Í Laugarnesi.  Mynd Arnþór
Haustið 2011 deildu sagnfræðingar á póstlista sínum Gammabrekku um skýrslu um hlut kvenna í sögubókum á miðstigi í grunnskóla. Skýrslan byggði að verulegu leyti á talningu á nöfnum kvenna og karla, og um slíka aðferðafræði má vissulega deila, en  fram kom að konur báru mjög skarðan hlut frá borði. Um 60 skeyti voru skrifuð á listann af 19 körlum og fimm konum. Karlarnir skrifuðu 53 skeyti en konurnar sjö. Á sínum tíma sló það mig hve margir (karlar) voru tilbúnir til að dæma rannsóknina marklausa vegna aðferðafræðinnar og að í allri vandlætingunni drukknaði vandamálið sjálft: Að konur væru skrifaðar út úr sumum þeirra kennslubóka sem bornar væru á borð fyrir börn í grunnskólum. Sagt var að það væri gamaldags að nafngreina fólk, að einstaklingurinn skiptir engu máli fyrir sögulega framvindu – það væru stærri ferlar í gangi. Og sjá mátti þá skoðun (einnig í opinberri umræðu um skýrsluna) að sögubækur með karlaslagsíðu væru jú aðeins birtingarmynd þess veruleika sem var, konur hefðu bara því miður ekki ráðið neinu fyrr á tíð og haft fá tækifæri til að gera sig gildandi, litlar eða engar heimildir væru til um þær og væri einhverjum konum (nafngreindum) troðið inn í SÖGUNA væri sagan ekki sýnd eins og „hún raunverulega var“ (svo vísað sé til sívinsæls frasa Leopold von Ranke). Í þessu birtist viðhorf sem einnig sást í umræðu á Gammabrekku vorið 2010 þegar tekist var á um það hvort kynjasaga væri verðugt viðfangsefni í hinni vinsælu hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands.  Þar kom m.a. fram sú skoðun að kynjasaga væri þröngt fagsvið, og þeir karlar sem væru hlynntir kynjasögu væru „laskaðir af pólitískri“ rétthugsun samtímans og fylgdu okkur femínísku kvensagnfræðingunum í „auðmýkt“.
Hin bráðskemmtilega hausatalning og hugleiðingar Vilborgar 
Dagbjartsdóttur á barnasíðu Þjóðviljans 10. nóvember 1974.
Stundum finnst mér ótrúlega lítið hafa breyst frá því fyrir 40 árum þegar skáldkonan Vilborg Dagbjartsdóttir  framkvæmdi hina alræmdu hausatalningu konur versus karlar á ljósmyndum í Íslandssögubók  fyrir unglinga. Þá spurði hún: „Vorum við kannski aldrei til?“
Það felst áskorun í því að beita sjónarhorni kyngervis í sögu og kynjasagan er áskorun, hún ögrar viðteknum sannindum um sögulegt mikilvægi, um hreyfiafl sögunnar, hvað og hver sé þess verðugur að verða hluti af hinni almennu sögu.
Fráleitt er að halda því fram að konum sé „troðið“ inn í söguna þótt þeirra sé getið sérstaklega, hvort sem um er að ræða valdskonur eins og Valgerði Jónsdóttur eða óþekktar vinnukonur. Þær eru þarna rétt eins og karlarnir, við þurfum bara að vera viljug til þess að sjá þær og til þess þarf að breyta því sjónarhorni sem við höfum á söguna og hvað það er sem skiptir máli.
                                              
                                                                                           Reykjavík, Erla Hulda

Áhugasömum um Laugarnes og fólkið sem þar hefur búið er bent á bók Þorgríms Gestssonar, Mannlíf við Sund. Býlið, byggðin og borgin, [1998], 2010.

Engin Valgerður hér.   Mynd Arnþór