Sjálfsævisaga Johans Cruyff. Ævisaga lærisveins hans, Pep Guardiola,
bíður lesningar.
|
Ég varð níu ára í
febrúar 1974 og kominn með mikinn áhuga á boltanum, eyddi löngum stundum úti í
fótbolta heima á Höfn í Hornafirði og horfði á valda kafla úr leikjum í enska boltanum
í Ríkissjónvarpinu, stundum með afa Erni sem átti gamlar legghlífar og hélt með
Úlfunum (Wolves). En ég man ekki eftir að hafa séð svipmyndir úr leikjum frá
heimsmeistaramótinu í Vestur-Þýskalandi – man samt eftir sjónvarpsmyndum frá
Olympíuleikunum í München árið 1972, til dæmis bandaríska sundgarpinum Mark
Spitz og sovéska fimleikaundrabarninu Olgu Korbut. Snilli Cruyff og félaga í
hollenska landsliðinu fór samt ekki fram hjá mér en það atvikaðist aðeins
síðar.
Sumarið 1976 sendi
UMF Sindri á Höfn lið í 5. flokki drengja til keppni á Íslandsmótinu í fótbolta
í fyrsta skipti. Ég lék stöðu sweepers (libero eða sópari á íslensku) en það
var djúp og nokkuð frjáls varnarstaða sem var í hávegum höfð um þær mundir og
gaf leikmanninum „leyfi“ til að koma sem aukamaður inn á miðjuna þegar svo bar
undir. Við mættum vel undirbúnir til leiks þegar mótið hófst, þjálfarinn okkar,
Albert Eymundsson, sá til þess. Hann hafði meðal annars þjálfað
unglingalandsliðið og nú var hann búinn að þjálfa okkur í undirstöðuatriðum
leiksins og leikskipulagi. Við vorum að vísu reynslulausir í alvöru
keppnismótum (höfðum reyndar háð marga hörkuleiki í bekkjakeppni með
mótsfyrirkomulagi en það var svolítið annar handleggur – eða fótleggur) og höfðum ekki leikið
æfingaleiki, enda langar vegalengdir til næstu þorpa og bæja. – Reyndar hafði
ég ásamt nokkrum öðrum úr liðinu tekið þátt í tveimur æfingaleikjum með eldri
drengjum í Vík í Mýrdal sumarið áður og fannst mér það þó nokkur reynsla. – En
nú átti að herða okkur meira og skömmu áður en Íslandsmótið hófst fórum við til
Djúpavogs og lékum æfingaleik við heimamenn (Stjörnuna, minnir mig). Á því var
reyndar einn hængur því liðsbúningurinn okkar var ekki tilbúinn en Albert
bjargaði málunum með því að útvega á okkur liðstreyjur til bráðabirgða. Fyrir
valinu varð hin víðfræga appelsínugula hollenska landsliðstreyja. Eftir á að
hyggja held ég að það hafi ekki verið tilviljun því Albert var mikill aðdáandi
hollenska landsliðsins og meginlandsfótboltans yfirhöfuð, þótt hann héldi með
Leeds United og vissi allt um enska boltann.
Ekki man ég
hvernig æfingaleikurinn á Djúpavogi fór en ég minnist þess að mótherjar okkar
gerðu svolítið gys að búningnum okkar. Mig minnir líka að völlurinn þeirra hafi
verið ósléttur og í minna lagi (ekki á sama stað og núverandi völlur) en á
þessum tíma léku lið í 5. flokki á velli í fullri stærð, ekki þvert á völlinn
eins og síðar varð. En á Djúpavogi var að minnsta kosti grasvöllur og það
skipti mestu máli því heima á Höfn vorum við vanir að leika á grasi og vildum
síður leika á möl.
Þrátt fyrir
reynsluleysið gekk okkur vel á Íslandsmótinu og þegar upp var staðið enduðum
við í efsta sæti í Austurlandsriðli ásamt Þrótti frá Neskaupstað. Ákveðið var
að liðin mættust á miðri leið og léku úrslitaleik á Staðarborg í Breiðdal, þar
sem var mjög góður grasvöllur. Að loknum venjulegum leiktíma var jafnt, 2:2.
Magnús Jónatansson þjálfaði Þróttara. Voru þeir Albert ekki á einu máli um til
hvaða ráða skyldi grípa til að knýja fram úrslit um hvort liðið færi í úrslitakeppnina
um Íslandsmeistaratitilinn og enginn hægðarleikur að ná í réttu mennina í
höfuðstöðvum KSÍ á stundinni. Eftir mikið japl, jaml og fuður (eins og Bjarni
Fel hefði orðað það) ákvað Albert að gefa eftir, því flestir leikmenn liðsins
voru á leið í sumarfrí með fjölskyldum sínum, enda voru fæstir viðbúnir þessum
árangri liðsins. En Albert sagði við okkur strákana að í sárabætur færi hann
með okkur í æfinga- og keppnisferð til Skotlands næsta sumar. Þetta urðu mér
sár vonbrigði. Ekki nóg með að við misstum af öðru tækifæri til að komast í
úrslitakeppnina heldur var heil eilífð til næsta sumars og ennþá lengra til
Skotlands.
Albert stóð við
stóru orðin. Um mánaðamótin júlí/ágúst næsta sumar (1977) fór hann með 26
stráka til Glasgow, þar sem við vorum í umsjá David Moyes eldri, föður David
Moyes sem nú er þekktur þjálfari á Englandi – hann var að sniglast þarna líka,
lítið eldri en við. Þá var, held ég, óþekkt að jafnungir strákar og við færu í
fótboltaferðir til útlanda en þarna voru líka eldri strákar úr úr 4. og 3.
flokki frá Reykjavík og víðar. Þetta sama sumar unnum við Austurlandsriðilinn (þá
lék ég á miðjunni) en misstum af úrslitakeppninni vegna þess að hún var á sama
tíma og Skotlandsreisan! Það var svo loksins sumarið 1978 sem ég upplifði
úrslitakeppni, á yngra ári í 4. flokki, eftir að við stóðum uppi sem
sigurvegarar á Austurlandi. Þá fór úrslitakeppnin fram í Reykjavík og lékum við
meðal annars á hinum fornfræga Melavelli. (Á sama tíma tók 5. flokkur Sindra
þátt í úrslitakeppni Íslandsmótsins í Vestmannaeyjum.) Þá voru andstæðingarnir
öflugri en við áttum að venjast fyrir austan en við vöktum samt athygli fyrir
góða spilamennsku. Ekki veit ég hvort greina mátti áhrif frá Total Football á
leik okkar en við spiluðum alla vega ekki Kick’n’Run.
Það segir sína
sögu um yngri flokka starfið undir stjórn Alberts að á árunum 1976–1982 töpuðu
5. og 4. flokkur Sindra ekki leik í Íslandsmótinu á Austurlandi en þá léku
þessir flokkar milli 50 og 60 leiki eystra og enduðu aðeins fimm þeirra með
jafntefli. Ekki var nóg með að Albert kenndi okkur leikkerfi og tækni heldur
talaði hann mikið og útskýrði fyrir okkur í smáatriðum út á hvað þetta gengi
allt saman. Og hann sýndi okkur ensk fótboltatímarit og –bækur og það sem meira
var, kvikmyndir sem hann pantaði að sunnan. Man ég sérstaklega eftir fræðslu-
og kennslukvikmyndum frá heimsmeistaramótum, bæði í Vestur-Þýskalandi og eldri mótum.
Í þessum myndum var fjallað um undirbúning liðanna og útskýrð markvarsla, varnarleikur,
miðjuspil, sóknarleikur og margt fleira. Við þetta opnaðist nýr heimur og nýjar
víddir á fótboltavellinum. Ég sá að utan Englands voru líka til frábærir
fótboltamenn og lið, til dæmis Pele og félagar í brasilíska landsliðinu og
Beckenbauer, Gerd Müller og þeir allir í vestur-þýska landsliðinu – fyrir utan
þá hollensku náttúrlega. Ég sé ennþá fyrir mér klippur úr þessum myndum, til
dæmis þegar Pele fékk sendingu fram völlinn og tók boltann á brjóstkassann
hlaupandi aftur á bak, þannig að boltinn sveif í lágum boga yfir höfuðið á
honum og hann nikkaði í boltann með hnakkanum áður en hann sneri sér við og
þaut með boltann upp völlinn. Þetta voru töfrar.
Ég hef alltaf
horft mikið á fótbolta, síðasta áratuginn og rúmlega það mest á spænska boltann
og meistaradeildina, sérstaklega Barcelona og spænsku liðin – kannski í og með vegna
áhrifa frá hollensku landsliðstreyjunni sem við klæddumst á Djúpavogi forðum og
þeirri grunnþjálfun sem við fengum hjá Albert. Hvað um það, að mínu áliti fyrirfinnst
ekki fallegri fótbolti en sá sem byggir á arfleifð Rinus Michels og Johans
Cruyff.
Heimildir
Albert Eymundsson, „Knattspyrnan á Höfn“, Ungmennasambandið Úlfljótur 50 ára.
Afmælisrit. Án útgáfustaðar: Ungmennasambandið Úlfljótur, 1983, bls.
100–104.
„Á leið til Skotlands“, Tíminn
28. júlí 1977, bls. 1.
„Báðir þjálfararnir lágu eftir í valnum“, Dagblaðið 20. júlí 1977, bls. 12.
Johan Cruyff, My Turn.
The Autobiography. London: Macmillan, 2016.
„Strákarnir á Hornafirði vildu heldur Skotlandsferð en
úrslitaleik“, Dagblaðið 29. júlí 1977, bls. 24.