![]() |
Í Kvinnohistoriskt Museum. Mikill fjöldi fólks var við
formlega opnun þess laugardaginn 22. nóvember 2014.
|
„Nýtt sjónarhorn á söguna, samtíð og framtíð“, segir í
kynningarbæklingi um Kvinnohistoriskt Museum, kvennasögusafnið, sem opnað var hér í Umeå í Svíþjóð í gær. Safnið er í nýju og stóru menningarhúsi, Väven
(Vefurinn), í miðbænum, við ána Ume. Þar hefur kvennasögusafnið heila 700
fermetra í þessu 15.000 fermetra húsi. Raunar myndu sumir vilja að það hefði
ekki svo mikið sem einn fermetri því sú ákvörðun að hafa kvennasögusafn í
húsinu var mjög umdeild.
Fljótlega
eftir að ég kom hingað út rakst ég á fríblað í hverfisbúðinni minni með
risafyrirsögninni „Skrifar söguna“ og mynd af konu. Í ljós kom að þetta var
forstöðukona hins nýja safns sem þar svaraði spurningum blaðsins um
kvennasögusafnið. Það var sagt hið fyrsta sinnar tegundar og að því væri ætlað
að rjúfa þá þögn sem verið hefði og væri um sögu kvenna. Það ætti að vera
mótvægi við karllæga áherslu hefðbundinna safna sem enn hefðu ekki losað sig
undan áherslum 19. aldar á stríð og stjórnmál þar sem karlar réðu ríkjum.
Kvennasögusafnið kæmi með nýjar áherslur og nýjar sögur, fjallaði um
karlmennsku og kvenleika – og því væri ætlað að sýna að söguritun, það að
skrifa sögu, snérist um vald.
Sem
sagnfræðingur með sérfræðiþekkingu á sögu kvenna og kynja og fyrrum
forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands fannst mér þetta gríðarlega spennandi og velti
fyrir mér hvað yrði sýnt/gert í þessu nýja safni. Því var greinilega ekki ætlað
að geyma skjöl og handrit, að varðveita og skrá sögu kvenna, eins og safninu
heima á Íslandi. Það greindi sig líka frá kvennasögusafninu, eða fremur
kvennabókasafninu sem stofnað var í Gautaborg 1958, og öðrum söfnum sem kennd
hafa verið við sögu kvenna (svo sem Fawcett safninu í Lundúnum).
![]() |
Hrópandi þögn ... kynningarspjald fyrir sýningu um aldur, konur og sögu. |
Það
var því með nokkurri eftirvæntingu sem ég gekk inn í Väven í gær til þess að skoða kvennasögusafnið, ásamt þremur sænskum konum.
Í
stuttu máli sagt þá er ég enn að melta það sem ég sá og heyrði og veit ekki enn
hvort mér finnst þetta í heild góð sýning, sem hún sannarlega er að hluta, eða
hvort hún slær á of marga strengi gamalla viðhorfa og söguskoðunnar. Fyrir utan
bækur í hillum eru nú tvær sýningar í kvennasögusafninu. Sú sem ég skoðaði
fyrst kallast „Hrópandi þögn“ og snýst um konur, aldur og útilokun frá sögunni.
Fyrstu
áhrifin af því að ganga í salinn voru frábær því við blasti „Frænkulegheit“
(Tantfullness) eftir listakonuna Susanna Arwins – frænkuher. Þetta er, með orðum listakonunnar, virðingarvottur við ömmu
hennar og „systur“ hennar. Konur sem höfðu áhrif á samfélagið þótt þær væru
þöglar í bakgrunni – þær tákna visku og kraft eldri kvenna, þangað sem yngri
konur ættu að sækja kraft og fyrirmyndir.
Í salnum var einnig hljóðlistaverk sem fór eiginlega
fyrir ofan garð og neðan sökum mannfjölda og kannski tungumálsins líka. Og á
tveimur skjám brá fyrir myndskeiðum af konum, eldri konum. Andliti, augum,
höndum. Það náði heldur ekki alveg til mín.
Loks voru það textarnir, ofgnótt texta með
tilvitnunum í fræðitexta og konur þar sem fjallað var um aldur og upplifanir,
útlokun og breytingar. Að minnsta kosti sýndist mér það af því sem ég las því
þetta var einfaldlega alltof mikið. Hversu góðar þessar tilvitnanir eru skiptir
ekki máli ef sýningargesturinn fær nóg, hættir að nenna að lesa. Mér (og
samferðakonum mínum) fannst vanta eitthvað með þessum textum.
![]() |
Annað sjónarhorn á frænkuherinn. Og hér
(og á myndinni að ofan) sjást textaspjöldin
umræddu hangandi úr loftinu.
|
Og uppsetningin – mér fannst eins og ég væri stödd í
myndasögublaði með textabrotum inni í skýjum og rúnnuðum formum. Þegar hér var
komið sögu var ein sænsku kvennanna orðin mjög pirruð – hún var hrifin af
frænkunum en fannst þessi textasýning fyrir neðan allar hellur. Við hinar vorum
sammála um að það væri allavega ekki það sem við bjuggumst við. Nokkur vonbrigði.
Hvað á þessi sýning að segja? Er hún nýstárleg, ögrandi, ný saga?
Þrjár okkar fóru svo í gegnum hina sýningu safnsins
og það var þar sem sagnfræðingurinn fór að velta fyrir sér á hvaða
hugmyndafræði, á hvaða söguskoðun, safnið væri byggt. Sýningin heitir (í
lauslegri þýðingu) „Rætur flókinnar sögu. Svört saga um vald og kyn, sögu ogsjálfsmynd“. Fyrirfram vissi ég ekki inn á hvers konar sýningu ég væri að fara
og það mótaði auðvitað upplifun mína. Þar að auki byggir þessi sýning að
verulegu leyti á töluðu orði. Þar reyndi því á sænskuskilninginn sem er ekki
hundrað prósent!
Gestum er hleypt inn á sýninguna í tíu manna hópum.
Sýningarrýmið er skemmtilega uppsett sem skógur, dimmur og drungalegur, en hér
og þar má finna rjóður með sófum, lömpum og sjónvarpsskjám. Þar birtast
grímuklæddir karlar og einstaka konur sem leiða gesti í sannleikann um
kynjaskekkju sögunnar – um karllega sagnritun. Grímunum er raunar kastað undir lok
ferðarinnar sem er auðvitað táknrænt.
![]() |
Eru konur á eilífum hlaupum undan úlfinum? Aldrei gerendur, alltaf fórnarlömb? |
Þessi skógarferð byggist á Rauðhettu og úlfinum og birtist
Rauðhetta sjálf á fyrsta skjánum og leiðir gesti af stað. Þeir rekast svo á fláráða
ljóta úlfinn í mynd karlmannsins þar sem hann birtist á sjónvarpsskjánum (oft
tveir á sitthvorum skjánum og eiga þá í samtali) og vélar um að skrifa konur út
úr sögunni eða ræðir hvað þær eru ófullkomnar og ómögulegar; konur hafa ekki
rökhugsun; kona er ófullkominn karlmaður o.s.frv. Þarna eru margir góðir
sprettir og gagnrýnin á karllæga söguritun hvöss. Hún á sannarlega rétt á sér
eins og ég hef skrifað um nokkrum sinnum á þessu bloggi. Og í skóginum má finna
áhugavert og þarft myndband um intersex – um að kannski sé ekki svo auðvelt að
greina fólk niður í kyn eftir allt saman. Einn þráðanna sem dreginn er í gegn í þessum sal er semsagt hin menningarlega og félagslega mótun kyns.
En það var samt eitthvað sem olli mér óþægindum eða
kannski undrun, eitthvað sem mér fannst rangt hvað sem líður mínum annars
ákveðnu skoðunum á kynjaslagsíðu sagnfræðinnar. Skýringin er held ég að mér
fannst ég hafa hoppað aftur til áttunda áratugarins þegar kvensagnfræðingar
leituðu að konum í sögunni, reyndu að fylla upp í götin, rjúfa þögnina,
endurskrifa söguna. Og þær leituðu logandi ljósi að rótum kvennakúgunar –
hverjar voru sögulegar rætur þess að karlar kúguðu konur (að karlar hötuðu
konur, svo ég vísi til titils á þekktri sænskri skáldsögu). Mér fannst einfaldlega
áherslan í þessari sýningu, sú orðræða sem byggt var á, of svarthvít jafnvel
þótt látið sé í veðri vaka (í titli sýningarinnar) að sögulegar rætur
kynjaskekkjunnar í sögunni séu flóknar. Og sýningin sagði mér ekkert nýtt, opnaði ekki augu mín fyrir neinu.
Orðin sem karlmönnum voru lögð í munn eru öll frá
þeim komin, það vantar ekki. Orð og skoðanir sem hafa gengið aftur og aftur í
sögunni. Franski (ítalski) rithöfundurinn, sagnfræðingurinn, heimspekingurinn Christine
de Pizan ræðir og afbyggir einmitt skoðanir sem þessar í sinni frábæru bók Borg kvennanna, The Book of the City of Ladies, svo kom út um 1405. Sem getur
auðvitað sagt okkur að við séum enn að berjast við sömu drekana.
![]() |
Vel sagt maður! Skrifum konurnar út úr sögunni - þær voru hvort eð er
alltaf í eldhúsinu. Gerðu ekkert merkilegt ...
|
En ég velti því semsagt fyrir mér hvort þetta sé sýning
sem byggi á og sé í takt við nýjustu rannsóknir og fræðilegar vangaveltur um
það hvort og hvernig hægt sé að skrifa konur inn í hina almennu sögu. Um þetta
er mikið skrifað víða erlendis núna, um það hvernig á að „kynja“ þjóðarsögur,
og ég hef vikið að í sumum fyrri pistlum mínum.
Samferðakonur mínar, sem hvorug er sagnfræðingur,
voru líka mjög hugsandi eftir gönguna í gegnum skóginn. Hvaða sögu eða
söguskoðun er verið að setja fram þarna? Önnur þeirra hafði svipaða tilfinningu
og ég, fannst eitthvað gamaldags og skakkt án þess að auðvelt væri að festa
hendur á því. Hin var undrandi á Rauðhettulíkingunni, þeirri hugmynd að ungar
stúlkur væru villtar í skóginum og ekki síður að þær konur sem komu við sögu í
myndböndunum voru fremur passífar.
Kvennasögusafnið hér í Ume ætlar sér örugglega að
vera ögrandi, vekja til umhugsunar og kannski er markmiðinu einmitt náð með því
að ein útlensk kona sest niður og reynir að færa upplifunina í orð. Þessi
fyrsta heimsókn virkaði samt þannig á mig að önnur sýningin væri fremur flöt (að
undanskildum frænkunum) og að hin byggði á gamaldags sýn.
Sagan er flókið fyrirbæri. Hún byggir á túlkun,
sjónarhorni, framsetningu. Við sagnfræðingar eigum stundum svolítið erfitt með
að samþykkja það hvernig sagan er notuð af stjórnmálamönnum, einkaaðilum og
jafnvel söfnum því oft er farið frjálslega með vitnisburð fortíðar. En þá má spyrja
eins og bandaríski sagnfræðingurinn Natalie Zemon Davis: „Hver á söguna?“ Við sagnfræðingar
erum ekki ein um að matreiða söguna eða móta söguskoðun fólks.
Ég er spennt að heyra hvaða viðtökur safnið fær og
ætla sjálf að fara aftur fljótlega og sjá hvort sýningarnar hafa þá önnur
áhrif. Mér finnst nefnilega svolítið leiðinlegt að hafa upplifað sýninguna á þennan hátt – finnst næstum eins og ég hafi gerst sek um svik við söguna, við kynsystur mínar, við það sem drífur mig áfram.
Svo má ekki gleyma því að Rauðhetta lék á úlfinn,
fyllti maga hans af grjóti og drekkti honum.
Umeå, Erla Hulda
![]() |
Hér, á mótum sýninganna tveggja, þagnarinnar og rótanna, birtist óvænt Emmeline Pankhurst, súffragettan breska í fangi lögregluþjóns. Þessa mynd má m.a. sjá í einu blogginu mínu þar sem hún prýðir kápu á ævisögu Pankhurst. Kannski á hún að vera táknmynd kvenréttindabaráttunnar. En mér fannst sú söguskoðun sem sett er fram í textanum ansi einföld og ekki í samræmi við nýjustu rannsóknir í kvenna- og kynjasögu. Ekki heldur þær sænsku eins og ég hef heyrt þær og lesið.
|