Í
síðustu færslu ræddi ég aðeins um kvennasögu og „gleymsku“ og stöðu kvenna í
sagnfræði og sagnritun. Hér er ein lítil dæmisaga um slíkt.
Fyrir
fáeinum vikum var ég að lesa útfararræðuna sem séra Árni Þorsteinsson í
Kirkjubæ las yfir sýslumanninum Páli Guðmundssyni þegar hann var jarðaður seint
í september eða byrjun október 1815. Páll var pabbi Sigríðar (1809–1871) sem
hefur verið rannsóknarefni mitt undanfarin misseri.
Líkræða eftir sýslumann sál.
Pál Guðmundsson
|
Páll
var ljúfmenni (eitthvað annað en faðir hans Guðmundur Pétursson og afi Pétur
Þorsteinsson sem báðir voru harðir í horn að taka – ef marka má sögur). En af
því séra Árni hafði orð á að ýmislegt hafi verið Páli mótdrægt í ungdæmi hans fór
ég að blaða í gögnunum mínum og ýmsum skrám til að rifja upp hvenær mamma hans
hefði dáið og hvað þau hefðu þá verið mörg alsystkinin. Síðar bættust við mörg
systkini samfeðra því faðir hans kvæntist aftur árið 1780, þá systurdóttur
sinni talsvert mikið yngri. Um Guðmund Pétursson sýslumann skrifaði ég hér.
En
fyrri kona Guðmundar, Þórunn Pálsdóttir, dó semsagt frá þremur ungum börnum og
eiginmanni árið 1785. Páll var elstur, átta ára, fæddur 1777. Sigurður bróðir
hans, sem ég þekki vel úr bréfum fjölskyldunnar, var aðeins tveggja ára, fæddur
árið 1783. Og svo ein stúlka, Þórunn. Í íslenzkum æviskrám Páls Eggerts
Ólasonar (II. bindi, bls. 176) stendur eftirfarandi: „Börn þeirra, er upp
komust: Páll sýslumaður á Hallfreðarstöðum í Tungu, Þórunn f.k. síra Björns
Vigfússonar á Eiðum, Sigurður stúdent á Eyjólfsstöðum á Völlum.“
Þórunn
… hvað skyldi hafa orðið um hana hugsaði ég með mér af því ég minntist þess
ekki að hafa séð talað um hana í bréfum kvennanna á Hallfreðarstöðum 1817–1829,
þeirra Sigríðar, Þórunnar systur hennar, ömmu hennar Sigríðar Ørum og móður
Malene Jensdóttur. Ýmsar aðrar frændkonur voru aftur á móti nefndar. Nafn séra Björns
á Eiðum þekkti ég líka úr heimildunum, þýski læknirinn Thienemann hafði
heimsótt hann á ferð sinni um Austurland í júlí 1821 og fengið hjá honum
súkkulaði (að drekka). Séra Björn átti stórt bókasafn og þar var að finna ýmis
læknisfræðileg verk að sögn Thienemann, enda stundaði hann lækningar eins og
svo margir íslenskir prestar á þessum tíma. Og ég mundi að til séra Björns var
leitað þegar Malene Jensdóttir, ekkja Páls sýslumanns, lá banaleguna í maí árið
1824. Þá treysti hann sér ekki til að gera neitt.
Íslenzkar æviskrár eru nú
tiltölulega fáorðar um konur en ég fletti upp á Birni Vigfússyni (I. bindi,
bls. 253). Þar segir: „Kona 1 (29. sept. 1801): Guðlaug (f. um 1779, d. 14.
sept. 1802) Guðmundsdóttir sýslumanns í Krossavík, Péturssonar (hún hafði átt
barn í lausaleik, en fekk 17. maí 1800 uppreisn og leyfi til að giftast manni andlegrar
stéttar).“
Sýslumannaæfir í Tímariti Jóns Péturssonar 1871. Guðmundur Pétursson
sýslumaður í Krossavík og börn hans. Sýslumannaæfir komu svo út í
nokkrum bindum snemma á 20. öld.
|
Guðlaug?
Og þessi áhugaverða saga innan sviga.
Þar
sem ég sat við tölvuna var ekkert annað að gera en fletta upp á Sýslumannaæfum Boga Benediktssonar eins
og þær birtust í Tímariti Jóns Péturssonar háyfirdómara árið 1870. Þar
segir um börn Guðmundar Péturssonar: „Páll, Sigurður, Málmfríður dó ógipt.“ Sýslumannsdóttirin
var nú komin með þrjú ólík nöfn í jafnmörgum heimildum: Þórunn, Guðlaug,
Málmfríður! Og hér er hún ógift.
En
Jón Pétursson leysir snarlega úr þessu neðanmáls og leiðréttir nafnið: „Þórunn
kona síra Björns á Eyðum [svo] var enn fyrri konu barn Guðmundar.“ (Sbr. Tímarit,
3. árg. 1. tbl. 1871, bls. 70).
Hún
hét því Þórunn og var fædd 1779, missti móður sína þegar hún var sex ára. Varð hált
á siðferðisbrautinni og eignaðist barn utan hjónabands. Hún var því syndug kona
en fékk uppreisn æru, fyrirgefningu hins guðlega valds, svo hún mætti giftast
presti en dó eftir um það bil eins árs hjónaband, 23 ára.
Í
sjálfu sér ekki sanngjarnt að álykta mikið um nafnabrengl sem þessi, jafnvel
þótt þreföld séu. Nöfn karla hafa líka misfarist og þau gleymst. En nöfn kvenna
og staðreyndir um líf þeirra og kjör hafa oftar farið forgörðum, m.a. af því
upplýsingum um þær var síður haldað til haga eða safnað saman. Í Íslenzkum æviskrám er til að mynda mun
minna sagt um dætur en syni, helst hverjum þær hafi gifst og þá verður kona að
vona að eiginmanninn sé að finna í æviskránum.
Og
svo gerum við villur sjálf, fræðimennirnir, við getum skrifað vitlaust upp úr
heimildum eða sést yfir eitthvað í fljótræði. Þegar ég dró fram
ættartöfluspjaldið sem ég setti saman fyrir tveimur árum eða svo til að reyna
að skilja þessi flóknu vensl fólksins á Héraði og í Vopnafirði um og uppúr 1800
sá ég að þar hafði ég hripað niður nafnið á systur Páls Guðmundssonar:
Málmfríður!
Þessi litla saga sýnir líka hvað heimildir eru hvikular og að það getur kostað mörg handtök að ráða fram úr einu „smáatriði“ sem skilar sér svo kannski aldrei beint inn í þann texta sem í smíðum er.
Reykjavík, Erla Hulda
Örlítil viðbót um nafnamálið dularfulla:
Við lestur á uppskrift og skiptum á dánarbúi sýslumannsins Guðmundar Péturssonar í Krossavík, 1812 og 1813, sá ég að tiltekin eru fjögur börn hans af fyrra hjónabandi: Synirnir herra Páll sýslumaður og stúdíósus Sigurður og dæturnar Þórunn sáluga, sem lét eftir sig dótturina Önnu sem nú er þá erfingi móður sinnar (og einnig ömmu og langömmu), og jómfrú Málmfríður. Í ofangreindum heimildum slær því saman systrunum Þórunni og Málmfríði. Önnur dó ung. Hin er jómfrú. Hver Guðlaug var í þessu samhengi er jafnóráðið og fyrr.
Frekari eftirgrennslan um jómfrú Málmfríði bíður betri tíma.
Umeå 20. nóvember 2014, ehh