![]() |
Við aðalgötuna í Stockbridge hverfinu í Edinborg. |
Ég
rölti oft um Stockbridge hverfið hér í Edinborg. Skemmtilegt hverfi, eins konar
þorp í borginni. Við aðalgötuna, sem liggur í gegnum hverfið, er iðandi mannlíf
enda eru þar margar litlar verslanir, þjónustufyrirtæki og veitingastaðir. Þar
er líka íbúðabyggð og sums staðar litlir garðar. Í einum þeirra er bílastæði
sem ég hafði veitt athygli vegna snúningsskífu sem er í stæðinu. Það er þröngt
og því er lokað með hliði. Ég hafði velt því fyrir mér hvernig þessi skífa virkaði, taldi víst að hún gengi fyrir rafmagni og að þannig mætti snúa bílnum í
hálfhring í stæðinu. En í vor varð ég vitni að því þegar iðnaðarmaður var að
snúa vinnubílnum sínum í stæðinu, hann gerði það einfaldlega með því að styðja
hendi aftarlega á hlið bílsins og svo sneri hann bílnum nánast áreynslulaust
með því að ganga í hálfhring. Það var ekki flóknara en það. Þannig var hægt að
keyra bíl áfram inn í stæðið og áfram til baka út á götu, ekkert vesen við að
bakka yfir gangstéttina og út á götuna þar sem alltaf er mikil umferð gangandi
og akandi. Snilldarlausn.
![]() |
Snúningsskífan góða. - Ljósmyndir: Arnþór |
Um
síðustu helgi vorum við hjónin á gangi í Stockbridge ásamt íslenskum gestum
okkar. Ég benti þeim á skífuna og sagði þeim hvernig hún virkaði. Rétt hjá
okkur á gangstéttinni stóð eldri maður á tali við tvær ungar konur. Þegar
samtalinu lauk sneri hann sér að okkur. Hann reyndist vera eigandi hússins og
fór að segja okkur frá snúningsskífunni, hafði augljóslega tekið eftir því um
hvað við vorum að tala. Líklega vorum við ekki fyrstu vegfarendurnir sem höfðum
veitt skífunni athygli. Hann sagði okkur að konan sín hefði séð svona skífu á
blómasýningu í Chelsea hverfinu í London og í framhaldi af því hefðu þau fengið
sér eina slíka í garðinn sinn. Því næst sýndi hann okkur hvernig skífan virkaði
með því að snúa heimilisbílnum í hálfhring. Við lýstum hrifningu okkar, þökkuðum manninum fyrir sýninguna og kvöddum. „Were are you from,“ spurði hann þá. Við
sögðum honum það. „Oh, you are from Iceland! Do you know Leifur Breiðfjörð?“
Ekki beinlínis, sögðum við, en sögðumst vita að hann væri glerlistamaður. Þá
kom í ljós að maðurinn var arkítekt að atvinnu og sagðist hann hafa átt þátt í
því að Leifur var fenginn til að smíða glugga úr steindu gleri í St Giles
kirkjuna í Edinborg. Við sögðum sem var að við þekktum gluggann. Maðurinn var
hinn ánægðasti þegar við kvöddum hann öðru sinni. Og við ekki síður, fannst
þetta mögnuð tilviljun því við höfðum einmitt farið í kirkjuna daginn áður til
að sýna gestum okkar steinda gluggann hans Leifs og sögðum þeim þá frá því hvernig það kom til að hann var fenginn til verksins! Það er ekki bara Ísland sem er lítið –
og allir þekkja alla.
Sjá nánar
um steinda gluggann í sögubloggi 26. október 2013.
Arnþór